Skrif sem fundust í fórum Árna. Líklega er þessi grein ekki fullunnin og ekki er vitað til þess að þau hafi birst.
Ég ólst upp í umhverfi þar sem menn töluðu allmikið um hross, byggingu þeirra og hæfileika.
Talað var um ef lína væri dreginn frá hálsi neðan verðum framan bóga aftur í tagslrætur þá væri það eftirsótt byggingarlag á reiðhesti að sú lína væri sem allra láréttustu en það þýddi að hesturinn væri með léttan og grunnan háls og bol og hallandi lend. Seinna var mér bent á af Guðmundi Péturssyni frá Gullberastöðum sem var mjög góður fjár- og hrossaræktarmaður meðan hann stundaði þær búgreinar að hann óttaðist að hætta á heyveiki fylgi bolgrunnum hrossum og benti á að lítið eða ekki væri um heyveiki í hinum boldjúpu hornfirsku hestum. Aftur á móti vildu menn hafa vinnuhestana boldjúpa, þunga og áslenda. Eitt var það sem faðir minn gerði þegar hann skoðaði og virti fyrir sér hest að styðja þverhönd á nára hestsins og mæla með því bilið mili aftasta rifs og lendarhnútu sem hvorki mátti vera of stutt og alls ekki of langt. Þá var lögð áhersla á að hrossið næði vel sporinu sínu sem kallað er á öllum gangi og þá ekki síst á feti. Að ná sporinu sínu merkir að afturfótarsporið nái framfótarspori og helst lengra. Álit manna var einnig að aftasta rifið í síðu hestsins þyrfti að vera nokkuð útstandandi. Einnig var talið ef gangtregur unghestur í tamningu mundi, þegar á eftir honum væri horft á brokki, gera örlitla hliðarhreyfingu sem líktist s á taglið yrði það hross töltgengt þegar fram liðu stundir. Aftur á móti ef taglið sýndi engar hliðarsveiflu væri vonlítið um eðlistölt.
Eitt var álit manna um byggingarlag hesta sem benti til þreks, en það var að bringubeinið kæmi vel fram fyrir bógleggi í réttri fótstöðu, helst allt að því þverhönd, því sá hestur mundi duga betur í ströngum ferðalögum.