Bjarni Valtýr Guðjónsson – minning

Það er hlutskipti þeirra sem ná háum aldri að fylgja vinum sínum til grafar. Ég kvarta ekki undan því, en finnst samt erfitt og ósanngjarnt þegar örþreytt gamalmenni standa yfir moldum ungra afkomenda sinna og vina.

Bjarni Valtýr Guðjónsson sem í dag er kvaddur og borinn til grafar var að mörgu leyti sérstakur persónuleiki sem eftir var tekið. Gáfur hans voru miklar og minnið trútt, sérstaklega á tölur. Hann mundi ótrúlega mikið af fæðingardögum og fæðingarárum vina sinna af svo miklu öryggi að til heimilda mátti telja.

Nokkur vinátta var milli foreldra okkar þótt nágrannar teldust ekki, en móðir Bjarna var frá Syðri-Hraundal í Álftaneshreppi og því úr hópi næstu nágranna okkar og vina.

Hann var liðtækur píanóleikari og í hópi bestu kirkjuorganista. Á því sviði myndaðist góð vinátta okkar á milli frá unga aldri. Það var svo eftir að Bjarni flutti í Borgarnes að samverustundum okkar fjölgaði, því Bjarni spilaði á öllum kirkjustöðunum fimm á Mýrum, þar sem ég aðstoðaði við söng. Þar sem sami prestur, frændi hans séra Þorbjörn Hlynur Árnason þjónaði á fjórum þeirra, var þetta árekstrarlítið.  Oft var Bjarni fenginn til að spila í öðrum kirkjum til dæmis á Snæfellsnesi og Skógarströnd.  Alloft fór ég með Bjarna í þessar kirkjuferðir og um tíma fastur ferðafélagi hans að Staðarhraunskirkju. Á þessum ferðum þar sem við vorum tveir ferðafélagar myndaðist mikil vinátta og trúnaðartraust okkar á milli. Þá sagði Bjarni mér margt um óskir sínar, vonir og þrár. Einhverntíma sagði Bjarni mér hvað hann hefði spilað við guðsþjónustur í mörgum kirkjum, þær voru ótrúlega margar víða um landið.

Um bókmenntaáhuga hans, rithöfundahæfileika og ljóðagerð fjalla ég ekki þar sem ég tel víst að margir munu minnast þess.

Bjarni var sannur Mýramaður og unni æskustöðvum sínum af barnslegri einlægni. Oft töluðum við um, og skildum ekki af hvaða rót það væri sprottið þegar menn fóru niðrandi orðum um Mýrar og Mýramenn.

Árið 1925 flutti frá Fíflholtum í Hraunhreppi til Akureyrar Ármann Dalmannsson. Hann var vel skáldmæltur og við brottför sína norður orti hann kvæðið ,,Á norðurleið“. Mér finnst vel við hæfi að Bjarni Valtýr geri síðasta erindi þess kvæðis að kveðjuorðum sínum til samferðamanna að leiðarlokum.

Kveð ég fjöll og fjörusanda,
flúðir, eyjar, sker og granda.
Kveð ég grænan gróðurreit.
Kveðjuorð frá Mýramanni
máttu flytja að hverjum ranni
,,þegar þú kemur þar í sveit“.
(Ármann Dalmannsson)

Árni Guðmundsson frá Beigalda