Beigaldi og Borgarhreppur

Óbirt handrit í fórum Árna sem ekki er vitað hvað hann ætlaðist fyrir með.

Frásögn um sögu Beigalda að fornu og nýju

Svo segir í Egilssögu og Landnámu að Skalla-Grímur gaf land skipverjum sínum. Þorbirni Krum gaf hann land upp með Gufuá og Þórði Beigalda. Bjó Krumur í Krumshólum en Þórður að Beigalda. Ekki er vitað hvað nafnið Beigaldi þýðir en talið er þó fullvíst að það þýði Beigvaldur eða sá sem veldur ótta eða hræðslu en bókstafurinn „v“ hafi fallið niður þegar sögur voru ritaðar.

Frá því land byggðist hefir búseta ætíð verið á Beigalda og þeir sem þar hafa búið byggt afkomu sína á búvöruframleiðslu. En á seinni árum hefir búskapur á Beigalda dregist saman eins og á mörgum jörðum sem liggja næst kaupstöðum eða öðrum þéttbýliskjörnum. Á nítjándu öld þegar fólki fjölgaði eftir hörmungar átjándu aldar sem öllum eru kunnar var jarðnæðisskortur afar mikill enda ekki annara kosta völ til lífsafkomunnar en einhvers konar framleiðsla búfjárafurða.

Á þeim tíma byggðust þurrabúðir víða um land þar sem fólk hafði einhverja grasnyt og fleytti fram lífinu með örfáum kindum. Eitt slíkt kot var í túni á Beigalda og hét Sveinsbær og ber hóllinn og rústirnar það nafn enn í dag.

Mjólkurvinnsla í Borgarfirði á sér langa sögu. Árið 1919 er stofnað tl rjómaniðursuðu á Beigalda í Borgarfirði og voru stofnendur í upphafi aðeins 4 bændur í Borgarfirði en urðu flestir 14. Meðal stofnenda var Grönfeldt skólastjóri mjólkurskólans að Hvítárvöllum. Félag þetta rak niðursuðuverksmiðju sína í 5 ár að Beigalda og sauð einkum niður rjóma. Verksmiðjan brann árið 1925 og var þá reist ný verksmiðja í Borgarnesi og fluttist því starfsemin þangað.

Sögulegar upplýsingar um svæðið

Á svæði því, sem sumarbústaðir í Beigaldalandi hafa byggst, hefir frá upphafi verið stundaður sauðfjárbúskapur.

Sá hluti jarðarinnar hefir verið best fallinn til sauðfjárræktar eins og hún var stunduð frá upphafi og síðan um aldir og á ég þá við þegar framganga sauðfjár byggðist á útbeit á veturnar.

Þarna eru líka örnefni sem benda til þess að sauðfé hafi verið þar allt árið, svo sem eins og Fjárhúsás en þar má fullvíst telja að hafi verið beitarhús, einnig Strýpur og Strúpssel þar sem ær hafa verið mjólkaðar meðan fært var frá.

Norður undan Strúpsseli er svo rétt hlaðinn úr grjóti sem notuð var í minni þeirra manna sem voru á lífi um 1960 og notuð var til að rýja fé og þótti hagkvæmt að smala þangað til rúnings og reka svo til fjalls þaðan þar sem réttin var efst í landi eða næst afréttinum.

Ætla má að svæði það sem hér um ræðir hafi verið skógi vaxið þá er land byggðist svo sem segir í gömlum heimildum að landið allt hafi verið, enda sýnir reynslan að skógrækt kemur fljótt til eftir friðun landsins og það fær þá umönnun huga og handar sem gróður jarðar þarf svo hann geti dafnað.

Freistandi er að láta hugann reika til landnámsaldar og sjá í huganum ásýnd þessa landssvæðis þá og bera saman við þá mynd sem það gaf t.d. um 1950 eftir aldagamla rányrkju sem að vísu bjargaði fólki frá hungurdauða í umkomuleysi og fátækt miðalda. Láta svo hugann reika til framtíðar t.d. um 100 ár og gera sér í hugarlund ásýnd svæðisins þá. Vonandi verður sú mynd lík því sem einu sinni var.

Frásögn um hreppinn

Í Egilssögu segir frá því meðan Skalla-Grímur Kveldúlfsson átti enn heima í Noregi og bróðir hans Þórólfur var hirðmaður konungs og konungur lét drepa hann. Þegar Skalla-Grímur gengur á fund konungs að heimta bætur fyrir bróðurvígið segir orðrétt um þá menn sem hann valdi sér til fylgdar:

„Skallagrímur bjóst til ferðar þeirar, er fyrr var frá sagt. Hann valdi sér menn af heimamönnum sínum ok nábúum, þá er váru sterkastir að afli ok hraustastir, þeirra er til váru. Maðr hét Árni, bóndi einn auðigr, annar hét Grani, þriðji Grímólfr ok Grímr, bróðir hans, heimamenn Skallagríms og þeir bræður, Þorbjörn Krumr ok Þórðr Beigaldi þeir váru Þórörnusynir. Hon bjó skammt frá Skallagrími og var fjölkunnig. Beigaldi var kolbítr. Einn hét Þórir Þurs ok bróðir hans Þorgeir Jarðlangr. Oddr hét maður einbúi, Gríss lausingi. Tólf váru þeir til ferðarinnar ok allir inir sterkustu menn og margir hamrammir“

Síðan kveðst konungur ekki bæta bróðurvígið nema Skalla-Grímur gerist hirðmaður sinn svo sem verið hafði Þórólfur bróðir hans. Síðan segir í sama kafla orðrétt:

„Skalla-Grímur svarar: „Það var kunnigt, hversu miklu Þórólfr var framar en ek em að sér gerr um alla hluti, ok bar hann enga gæfu til að þjóna þér konungr. Nú mun ek ekki taka það ráð. Eigi mun ek þjóna þér, því at ek veit, at ek mun eigi gæfu til bera at veita þér þá þjónustu sem ek mynda ok vert væri. Hygg ek at mér verði meiri muna vantz en Þórólfi““. Eftir þetta var Skalla-Grími ekki vært í Noregi en sigldi til Íslands og nam land á Borg á Mýrum.

Þessi kafli úr Egilssögu er rifjaður upp vegna þess að kappar þeir er Skalla-Grímur hafði í för með sér til konungs fengu allir lönd í Borgarhreppi samkvæmt Egilssögu svo og Landnámu nema Grímur sem nam land á Hvanneyri og Gríss í Grísatungu en sú jörð er í Stafholtstungum. Alla tíð hefir byggð haldist á flestum þeim jörðum í Borgarhreppi sem landnámsjarðir kallast.

Frá upphafi hefir lífsafkoma fólks í Borgarhreppi byggst á landbúnaði og telst sveitin vel fallin til landbúnaðar, land grasgefið og engjalönd svo góð að telja má langt yfir meðallag, og meðan heyskapur var að stórum hluta engjabúskapur var Borgarhreppur í röð byggilegustu sveita. Samkvæmt heimildum í Íslensku alfræðiorðabókinni voru íbúar í Borgarhreppi 1988 – 148 og helstu atvinnuvegir 1986 landbúnaður 51%, þjónusta 24% og iðnaður 21%. Ætla má að síðan hafi þjónusta og jafnvel iðnaður eitthvað aukist á kostnað landbúnaðar og hætt er við að sú þróun hali áfram í framtíðinni.

Reiðleiðir (fyrirsögn ritstjóra)

Þegar hugað er að reiðleiðum manna um landið á sögu- og sturlungaöld kemur tvennt upp á yfirborðið sem hafa ber í huga en það er að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar munu hross hafa verið járnalaus eða illa járnuð. Þó óljóst sé í sögunni hvenær hross voru járnuð, hefir það verið ef til vill fyrir upphaf Íslandsbyggðar, má ætla að hross hafi í hinu járnsnauða landi verið járnalaus framan af öldum en þó er talað um hófbrodda í sögum nokkuð snemma en það er ekki fyrr en á 15. öld sem fram koma heimildir um hestajárn en það er í Búalögum og þá í sambandi við verðskrá.

Ef frásögn Landnámabókar er rétt þá hafa reiðleiðir ekki verið eins vandfundnar og ætla mætti í augum nútímamanna með járnalausa hesta.

Hitt atriðið er að leiðirnar hafa verið valdar með tilliti til hinna óbrúuðu vatnsfalla og farið eftir því hvar árnar voru reiðar þá og þá.

Í Íslendingasögum minnist ég ekki að hafa rekist á neina nákvæma frásögn um það hvar leiðirnar lágu, heldur einungis sagt frá þeim stað sem riðið er frá og til þess staðar sem riðið er að t.d. að taka ef við flettum upp í Sturlungu þar sem segir í Þorgils sögu Skarða: „Nær vetrarnóttum reið Þorgils heiman ok með honum fylgdarmenn hans ok ætlaði að ríða út á Snæfellsnes. Reið hann til Borgar um kveldit. Bjó þar þá Loftr byskupsson. Váru þeir Þorgils tólf saman. Var þar allvel við þeim tekit. Mýrar lágu illa. Mátti þá tyllast á vetrarbrautum.“ Eins og þessi frásögn ber með sér gefur hún vísbendingu um að aðrar leiðir hafi verið valdar þegar frost var í jörðu þar sem talað er um vetrarbrautir.

Á öðrum stað í sömu sögu er ritað um flokka mann er reið frá Straumfirði að Snældubeinsstöðum og Reykholti: „Þeir riðu þann dag allan, svá at þeir kómu hvergi til bæja fyrr en á Valbjarnarvöllum.“ Svo segir í sögunni að þeir hafi fengið fylgd þaðan austur mýrarnar að Norðurá hjá Munaðarnesi, þó það sé ekki nefnt í sögunni þá hafa þeir eflaust farið á svonefndu Hábrekknavaði sem þekkt er enn í dag. Svo heldur frásögnin áfram orðrétt: „Riðu þeir þaðan þegar þeir voru búnir, yfir Hvítá á Ámótsvaði.“ Kunnugir menn telja að þetta vað sé ekki þekkt lengur en líklegt er að þetta sé það vað sem í seinni tíð kallast Klettsvað og er þar sem Reykjadalsá kom í Hvítá að því er talið er á þeim tíma.

Þriðja tilvitnun mín er úr Þórðar sögu kakala þar sem Þórður heldur fund í Stafholti og segir svo: „Reið Þórður þá ofan á Ferjubakka ok lét flokkana sofa undir Þjóðólfsholti um nóttina.“

Fjórða tilvitnun er um flokk manna sem hittust sunnarlega í skóginum gengt Galtarholti.

Eftir þessar hugleiðingar finnst mér trúlegast að leiðin milli Borgar á Mýrum og Reykholts hafi verið að sumarlagi nálægt þeirri leið sem talin hefur verið alfaraleið frá upphafi, um Borgarhrepp og Stafholtstungur til uppsveita Borgarfjarðar.

Vegna minnar staðháttaþekkingar verður þessari leið lýst gleggra í Borgarhrepp og að nokkru um Stafholtstungur en þegar nær dregur áfangastaðnum.

Ég tel að frá Borg hafi verið farið að Kárastöðum um holt þau og sund sem þaðan liggja, vestan Lækjarkots, vestan Brennistaða, um Eskiholtsskóg milli Gufuár (eyðibýli nú) og Eskiholts, vestan Galtarholts, samanber tilvitnun nr. 4, vestan Svignaskarðs að Gljúfurá, norðan gljúfrið sem Gljúfurá rennur í þar sem núverandi vegur liggur yfir hana, um Munaðarnes, yfir Norðurá á Hábrekknavaði. Svo sem segir í tilvitnun nr. 2 liggur leiðin þaðan að Ámótsvaði og þaðan um Deildartungu norðan Grímsstaða að Reykholti.

Samkvæmt Þorgils sögu Skarða er talað um ferð manna með Reykjadalsá að Snældubeinsstöðum og þaðan um Grímsstaði að Reykholti. Mér þykir ekki trúlegt að menn hafi farið þann krók nema um erindi hafi verið að ræða svo sem liðssafnað eða annað.

Þessi leið er trúlega a.m.k. um 50-60 km löng þar sem þjóðleiðin Borgarnes-Reykholt er 43 km. Er þetta þá 10-12 klst lesta- eða klifjargangur eða 6-7 klst ferð lausríðandi manna.

Eins og kom fram í fjórðu tilvitnun hér að framan hefir vað yfir Norðurá hjá Stafholti verið þekkt á Sturlungaöld. Þess vegna má ætla að leið um það vað á Norðurá hafi verið valið þegar lítið var í ánum en ár eru vatnsminni þegar ofar dregur í héraðið vegna minni áa og lækja sem í aðalárnar falla á leið þeirra til sjávar.

Þegar þessi leið hefur verið valin er farið á sama stað að Brennistöðum, svo um Beigalda að Ferjubakka um Þjóðólfsholt, yfir Norðurá á Stafholtshólma að Stafholti, yfir Hvítá á Ámótsmaði eða þá Langholtsvaði sem er þekkt enn í dag en er allmiklu neðar og svo sömu leið í Reykholt og áður er rakin.

Þessi leið er allmiklu styttri en hin en hefir ýmsa ókosti sem nú skal telja og valda því að ég tel að hún hafi ekki verið valin nema í þurrviðrum. Er þá til að taka að hún liggur þvert yfir Borgarhrepp að hluta og hafi eitthvað verið af ógrónu landi, sem fullvíst má telja, hefir það verið á þeirri leið en vegna þess að holt og ásar liggja upp og ofan hafa menn orðið að fara þvert yfir holtin en það hlýtur að hafa verið þyrnir í augum manna með járnalausa eða illa járnaða hesta um verr gróið land. Ennfremur er á þessari leið milli Beigalda og Ferjubakka fúnar keldur, illar yfirferðar á veglausu landi, samanber Krumskeldu þar sem Skalla-Grímr sökkti silfri sínu í „Skallagrímspitt“. Að lokum nefni ég vatnavexti svo sem áður hefir komið fram. Þessi leið gæti verið 1-2 klst styttri en hin miðað við lestagang.

Þessar hugleiðingar mínar byggjast að sjálfsögðu ekki á neinum vísindalegum rannsóknum, en freistandi og skemmtilegt verkefni væri að gera því betri skil með meiri lestri og þekkingu Íslendingasagna en ég hef.

Ennfremur er byggt á þeim kunnleika sem ég hef á þessum slóðum og hugsýn til þess tíma þegar landið var allt grasi gróið.