Birt í Borgfirðingabók, ársriti Sögufélags Borgarfjarðar 2016.
Bernskuminning eftir Elínu Guðmundsdóttur sem Árni flutti að systur sinni genginni á ættarmóti, þann 4. júní 2006 í Lyngbrekku, þar sem afkomendur Sesselju Þorvaldsdóttur og Guðmundar Árnasonar frá Álftártungu komu saman. Að því loknu flutti hann hugleiðingu sem birtist hér fyrir neðan bernskuminningu Elínar.
Foreldrar mínir bjuggu í Álftártungu í Álftaneshreppi, Mýrasýslu árin 1916-1948. Þau hétu Sesselja Þorvaldsdóttir og Guðmundur Árnason. Amma mín Gróa Guðmundsdóttir, móðir pabba, dó í apríl árið 1924. Hún bjó í Álftártungu frá aldamótum og var þá búin að missa mann sinn nokkru fyrr. Síðan tók pabbi við búsforráðum ásamt mömmu 1916. Amma lá sjúk allan veturinn áður en hún dó, og er mér minnisstætt hvað baðstofan var tóm, þegar búið var að taka allt úr rúminu hennar. En eftir að hún dó, vorum við Gróa tvíburasystir mín látnar sofa í rúminu hennar. Þá vorum við tæpra sjö ára. Svo gleymdist sorgin eftir ömmu við leik og fjör æskunnar, en oft sátum við Gróa við leiðið hennar ömmu, því kirkjugarðurinn var ekki steinsnar frá bænum.
Vorið áður, 1923, fluttist móðurafi minn, Þorvaldur Sigurðsson og seinni kona hans, Þórdís Þórðardóttir, að Álftártungu. Byggði afi minn sér lítinn bæ við hliðina á bænum sem fyrir var. Sá bær var sennilega byggður um 1910. Hann var fremur stór, stofa, eldhús, búr og gangur niðri og rúmgóður kjallari undir, en svo var stór baðstofa uppi og lítið herbergi. Afi minn þurfti ekki að hlaða nema einn vegg, þegar hann byggði bæinn sinn, og hafði svo gafla úr timbri, pappaklædda, og hafði skúrþak og gerði síðan innangengt til sín úr ganginum í aðalbænum.

Sumarið 1924 var þurrkasamt, minnsta kosti seinni partinn, þá var stöðug norðaustanátt og allt orðið skráþurrt sem þornað gat. 21. sept. átti pabbi afmæli, varð þá 52 ára. Daginn eftir 22. sept. vorum við systkinin að leika okkur í stofunni, ég og Gróa tvíburasystir mín sjö ára gamlar, Júlía þriggja ára og Árni eins árs. Pabbi og afi voru að sækja það síðasta af engjaheyskapnum niður á Hestlæk, sem er töluvert langt í burtu, eða um klukkutímaferð með heylest. Mamma var í baðstofunni að sauma en Þórdís var inni hjá sér. Þá sjáum við Gróa reyk sem fýkur alltaf fyrir stofugluggana, höldum að það fjúki úr öskufötu en ég tel samt öruggara að segja mömmu frá þessu. Svo fer mamma og aðgætir þetta, en kemur fljótt inn aftur og segir að það sé kviknað í bænum og segir að veggurinn sé alelda, og kviknað hafi í hrískesti, sem var þar við vegginn og líka sé kominn eldur í þakið. Sá hún að enginn tími mundi vera fyrir þær Dísu (Þórdísi) að bjarga tvær einar neinu að ráði. En mamma freistaðist til að fara aftur upp í baðstofu og braut þar gluggann og kastaði þar út yfirsængum og koddum úr rúmunum og gat vafið saumavélinni sinni inn í eina undirsængina og hent öllu út um gluggann en Dísa og við Gróa drógum allt út í kirkjugarð. Mamma gat líka bjargað myndum sem voru á veggjum í stofunni, en þá voru líka síðustu forvöð fyrir mömmu að komast út. Brann þar allt innbú, þar á meðal mikið bókasafn sem pabbi átti. Nú dreif þarna að nágranna því eldurinn og reykurinn sást viða að og var það jafnsnemma að þeir komu pabbi og afi. En það var hægt að bjarga öllu úr bænum hans afa og Dísu, af því að hann var fjær eldinum. Það var rétt með naumindum að var hægt að verja hlöðuna og fjósið, því að hrískösturinn var í sundi milli bæjarins og hlöðunnar. Rétt um það leyti sem bærinn féll, kom kettlingur út úr eldinum, sem við Gróa áttum, hálfbrunninn. Þá var pabbi fljótur að stytta honum kvalastundir. Þá fyrst fórum við Gróa að gráta. Sáum við ekkert eftir fínum dúkkum, sem við áttum, á við litlu kisu.
En nú var heimilið illa statt. Fólkið klæðlítið og matvæli sem geymd voru í kjallara eyðilögð að miklu leyti, en við áttum góða nágranna þar sem Þorkell bóndi Guðmundsson á Álftá og kona hans Ragnheiður Þorsteinsdóttir og í Álftártungukoti bjuggu Sigríður systir mömmu og fyrri maður hennar Sveinn Torfason. Ég man að þetta góða fólk gaf mömmu eitthvað af matvælum og fleiri nágrannar hafa eflaust gert það líka, þó ég sé búin að gleyma því.

Nú fór sláturtíð í hönd, svo við þurftum aldrei að líða neinn skort. Og litla kirkjan varð okkar skjól. Voru búin til rúm á milli bekkjanna í kirkjunni, og kom sér nú vel að mamma hafði haft þrek og kjark til að bjarga sængurfatnaði. Við Gróa sváfum í altarinu og við gleymum því aldrei á meðan við lifum. Mamma eldaði matinn í hrútakofa sem var þar góðan spöl frá og bar allt heim í kirkju því þar var matast. Sóknarpresturinn sr. Einar Friðgeirsson á Borg sótti um leyfi til biskups að fá að búa í kirkjunni á meðan verið væri að koma upp skýli til að vera í yfir veturinn. Stóð dálítið á því leyfi, en sr. Einar taldi sjálfsagt að við værum þar og þess vegna var strax flutt í kirkjuna. Og aldrei hef ég getað ímyndað mér neina vanhelgun á litlu kirkjunni, þó hún væri notuð á þennan hátt og mér finnst þessi kirkja vera helgasti staður sem ég kem á, en nú á að fara að leggja hana niður. En það er nú önnur saga. (Athugið að þetta er skráð 1972).
Síðan var unnið fljótt og vel að byggja bæ sem við gætum verið í yfir veturinn. Þorvaldur afi var mikill vegghleðslumaður og vann hann mikið að því starfi og Þorkell á Álftá, sem fyrr er nefndur. Var þetta skýli komið upp um miðjan október. En ekki var þetta stórt hús. Var slegið upp þremur rúmum, en rúmið afa og Dísu bjargaðist úr brunanum og lítið barnsrúm, sem von stóð til að yrði notað síðar um veturinn. Svo var lítið eldhús sem inngangurinn var í. Var nú flutt í þetta húsnæði úr kirkjunni, en nú var búslóðin ekki stór, en þarna leið okkur vel um veturinn.
En nú heldur sagan og lífið áfram. Um miðjan janúar 1925 gerði mikið hvassviðri af landsuðri. Fuku þá fjárhúsin ofan af öllu fénu og var bæði pabbi og féð í húsunum þegar þakið lyftist af og var rokið svo mikið að önnur hliðin af þakinu fauk í heilu lagi 700-800 metra en hin þakhliðin og stafninn tættust í sundur. Ekki sakaði pabba en 3 kindur meiddust dálítið. Nú voru kindurnar húsnæðislausar eins og fólkið um haustið. En góðir nágrannar hjálpuðu sem fyrr. Guðmundur Sigurðsson bóndi í Háhóli og mágur hans Illugi Björnsson bóndi á Hvítsstöðum gátu tekið féð meðan var verið að byggja ný hús. En margir komu til hjálpar við bygginguna og man ég eftir að suma dagana voru um 10 menn. Allt efni var flutt sunnan úr Borgarnesi á bíl vestur að Álftárbrú, en síðan heim á sleðum, sem eru um þriggja km leið. Pabbi átti rauðan fola sem hann var að byrja að temja fyrir sleða, en var hann þá ekki til mikilla átaka en Níels Guðnason bóndi á Valshamri, sem líka var smiður átti feikilega duglegan og vanan dráttarhest, sem hét Hörður og var hann með þann hest í flutningunum. Fjárhúsbyggingin gekk vel, það þurfti ekki að hlaða veggi og húsin komust upp á viku, að vísu ekki stærri en yfir 120 kindur. Það fór töluverður tími í að flytja efnið svo að þetta gekk ótrúlega fljótt og það var góður vilji í verki.
Nú líður til sunnudagsins 8. febrúar. Þá um morguninn segir mamma að hún þurfi á ljósmóður að halda. Ljósmóðirin, sem þá var í Álftaneshreppi, hét Herdís Finnbogadóttir frá Sauðafelli í Dölum og sat á Leirulæk, en var þegar þetta átti sér stað, nýbúin að taka á móti barni á Langárfossi og því stödd þar, svo það var ekki eins langt að fara fyrir pabba. Enginn var síminn þá til að flýta fyrir né bílar. En hestar voru til. Lagði pabbi á Rauð, sem fyrr er nefndur og söðul á gráan hest sem afi átti. Lagði síðan af stað í blíðskaparveðri. Þegar hann kemur áleiðis niður á veg stansar hann aðeins og sleppir taum á hestunum. Þá tekur Gráni á harðahlaup heim og náði pabbi honum ekki fyrr en við hesthúsdyrnar. Það er eins og Gráni hafi skynjað hvað í aðsigi var með veðrið því þetta gerði hann aldrei fyrr eða síðar. Þetta var meira en hálftíma töf og líka álag á hestana, því þeim veitti ekki af allri sinni orku að halda eins og síðar reyndist. Þegar pabbi lagði af stað í seinna skiptið var að skella á eitthvert mesta mannskaðaveður, sem komið hefur hér á landi til þessa. Fórust margir í því veðri á sjó og landi, m.a. tveir togarar með allri áhöfn. Þetta veður hefur oft verið nefnt Halaveðrið.
Er nú ekki að orðlengja það, að þarna hófst sú mesta þrekraun sem pabbi hafði komist í, en hafði hann þó veðrið í bakið að Langárfossi. Á leiðinni suður mætti pabbi Þorkeli á Álftá sem var að koma úr Borgarnesi, og vissi Þorkell því um ferðir pabba og leist ekki vel á. En Þorkell komst heim við illan leik. Þegar pabbi kom að Langárfossi var ekki árennilegt að leggja á móti því ofsaveðri sem var orðið, en Herdís var mikil kjarkkona og lagði ótrauð af stað, eftir að Egill Einarsson bóndi hafði gefið og hlynnt að hestunum og pabbi hvílst dálitla stund. Nú var veðrið svo að segja í fangið eða á hægri hlið. Tvisvar fauk Herdís af Grána en pabbi gekk mest alla leiðina vegna veðurofsans. Nú smá gekk þetta ferðalag vestur að Álftárbrú, þá lá leiðin upp Tungu sem svo er nefnd og er mikið til eyðiflói. Treysti pabbi sér ekki til að fara þá leið í þessu ofsaveðri og bjóst við að hægara muni vera að fara vestur fyrir Álftá og reyna að komast heim að bænum Álftá, en þar lá vegur heim um holti og mela og bjóst við að ófærðin væri ekki eins mikil þar. En þegar þangað kom fann hann alls ekki veginn heim að Álftá, hríðin og dimmviðrið var svo mikið enda komið myrkur. Snúa þau þá við og fara suður að Arnarstapa. Þar bjó þá Guðrún Ketilsdóttir og Sigmundur Sigurðsson sonur hennar. Fengu pabbi og Herdís þar hina ágætustu aðhlynningu sem pabbi minntist oft á síðar. Pabbi lagði sig og sofnaði strax og svaf í hálfan klukkutíma og það einkennilega var að þegar hann vaknaði fannst honum hann vera alveg óþreyttur. En Herdís gat ekki sofnað, hefur hún eflaust verið með hugann hjá mömmu. Sigmundur hafði til hest handa Herdísi á meðan, gráan, traustan og góðan, því hestarnir sem pabbi var með voru orðnir þreyttir. Lögðu þau síðan af stað og Sigmundur með þeim, var þá heldur að lægja enda komið fram um miðnætti. Gekk þeim vel heim að Álftártungu, voru samt um tvo klukkutíma sem er um hálftíma reið eða varla það við sæmilegar aðstæður.

Víkur nú sögunni að Álftá og Álftártungu. Eins og fyrr segir vissi Þorkell á Álftá um ferðir pabba og var hann mjög uggandi um hans för. Þá var á Álftá Jónas Þorvaldsson, bróðir mömmu, sem var kennari þar. Þegar leið á kvöldið var heimafólk á Álftá vakið upp af hundi. Var þar kominn smalahundur pabba sem hét Lappi, og fylgdi honum ævinlega. Hafði hundurinn orðið viðskila við pabba, þegar hann ætlaði að reyna að finna afleggjarann heim að Álftá, en Lappi rataði og þó hann væri hálfgerður hvolpur og var ekki farið að sýna honum eins mikið traust þá eins og seinna varð. Gátu Jónas og Þorkell lokkað Lappa inn og beðið meðan veðrinu slotaði svolítið. Þá lögðu þeir af stað gangandi að Álftártungu. Þegar þeir komu á móts við litla kofann okkar sjá þeir ljós í glugganum og Herdísi. Urðu þeir mjög fegnir við þessa sjón, því þeir bjuggust ekki við að þeir myndu sjá Herdísi og pabba á lífi. En heima í Álftártungu leið þessi dagur heldur hægt og fórum við Gróa systir að gráta af hræðslu. Við vorum svo hræddar um pabba úti í vonda veðrinu en mamma sagði okkur að leggjast upp í rúm og biðja Guð að hjálpa pabba að rata og gefa honum þrek til að komast heim og gerðum við það í fullu trúnaðartrausti sjö ára barna. Mamma fór fljótlega í rúmið eftir að pabbi fór. Dísa hafði nóg að gera við að reyna að halda hita í litla bænum og láta í sífellu eldivið í eldavélina, sem hitaði bæði eldhús og baðstofu, en afi lauk gegningunum við illan leik. Get ég núna þegar á ævina líður, gert mér frekar grein fyrir hvernig mömmu hefur liðið, svo og afa og Dísu, þennan langa dag. Og aldrei gleymi ég þeim feginssvip sem birtist á andlitum þeirra þegar við heyrðum pabba, Herdísi og Sigmund koma að dyrunum, því öll vorum við vakandi nema litlu krakkarnir. Líðan mömmu var óbreytt frá því að pabbi fór um morguninn og hugðust nú allir reyna að hvíla sig um stund, en varla var Herdís lögst fyrir, þegar mamma bað hana að koma því nú væri barnið að fæðast. Fæddist svo þarna fljótlega stærðar stúlka, sem lét heyra hressilega í sér og voru nú gleymdar raunir dagsins og líka var veðurgnýrinn hættur að heyrast. Fóru nú Sigmundur, Jónas og Þorkell heim með góðar fréttir og allir hugsuðu um að hvílast sem best. Klukkan var um þrjú eftir miðnætti þegar systir mín fæddist og margir töluðu um að það hefði verið kraftaverk að hún skyldi ekki hafa fæðst fyrr. Var litla stúlkan oft kölluð óveðursbarnið en skírð var hún um vorið Valgerður Anna. Ekki varð pabba og Herdísi meint af volkinu að öðru leyti en pabbi hafði sífelldan hiksta allt fram um sumarmál og óþægindi fyrir brjósti. Pabbi dó árið 1954, þá 81 árs gamall en mamma ári síðar 67 ára gömul. Lýkur þá þessari bernskuminningu minni.
Hugleiðing Árna
Hér lýkur frásögn Ellu systur minnar á þremur atburðum sem gerðust á fjórum og hálfum mánuði í lífi foreldra minna og munaði minnstu að tveir þeir fyrrtöldu rústuðu fjárhag þeirra til kaldra kola. Þá var ekki við lýði sú samhjálp sem ríkir í dag þegar fólk verður fyrir áföllum enda áttu flestir ef ekki allir á þeim tíma fullt í fangi með að sjá sér og sínum farborða. Það var fyrir um það bil einu og hálfu ári að Ella bað mig að lesa þessa frásögn sína – sem birtist á sínum tíma í tímaritinu Heima er best árið 1974-5 á ættarmóti sem þá stóð til að haldið yrði snemma sumars 2005 og hún hafði með sínum einbeitta stálvilja mikinn áhuga á. Ég er forsjóninni afar þakklátur fyrir það að mér hefur auðnast að efna þetta loforð mitt sem jafnframt er það síðasta sem Ella bað mig að gera fyrir sig. Við stöndum í mikilli þakkarskuld við Ellu fyrir að bjarga þessum atburðum frá gleymsku með góðri frásögn án nokkurs málskrúðs, en þó svo fulla af tilfinningum að við skynjum atburðarásina líða hjá eins og mynd á tjaldi. Við sjáum bæinn brenna, fjárhúsin fjúka. Nokkrum dögum síðar sjáum við föður minn hverfa út í stórhríðina í þeim erindum að sækja ljósmóðir, við sjáum afa brjótast til gegninga, við sjáum stjúpömmu mína, hana Dísu, bjástra við að halda eldinum lifandi, við heyrum móður mína biðja af alhug fyrir föður mínum, við sjáum tvær litlar telpur ganga til hvílu í fullvissu þess að Guð er góður og allt hafi góðan endi. Við fetum í fótspor föður míns og Herdísar stórhríðarkvöldið og –nóttina þar sem um lífið eða dauðann var að tefla. Við sjáum harðsporana sem þau skildu eftir sig á hjarninu, sem eyddust næst þegar hlývindar struku vanga og kinn. Við sjáum föður minn neyta ýtrustu krafta til að missa ekki hestana frá sér út í veðurofsann. Við sjáum Sigmund í Arnarstapa, kvikan og harðsnúinn, koma til hjálpar. Við sjáum Herdísi og föður minn, sem með æðruleysi og rósemi sem aldrei brást honum og ótrúlegri karlmennsku hans, koma sem sigurvegara úr klóm ógnarlegustu stórhríðar sem yfir landið hefur gengið fyrr eða síðar og flestir urðu að lúta að grasi fyrir sem úti voru þá örlaganótt. Við sjáum svipmynd Þorkels á Álftá og Jónasar Þorvaldssonar þegar þeir gengu fyrir gluggann og sáu Herdísi ljósmóðir standa í birtunni sem inni fyrir var. Allt í einu tökum við eftir því að veðurgnýrinn er hættur að gnauða og hin friðsæla þögn er rofin af gráti lítillar telpu sem er að líta dagsins ljós í fyrsta sinn.
Nú stendur yfir sá tími ársins sem samkvæmt fornu tímatali heita fardagar. Það var einmitt á fardögum fyrir eitt hundrað og sex árum sem mæðginin, amma mín Gróa Guðmundsdóttir ekkja og Guðmundur Árnason faðir minn fluttu búferlum að Álftártungu. Þá var Gróa amma talin fyrir búskapnum en faðir minn ráðsmaður hennar. Þessu hef ég komist að í grúski mínu á Héraðsskjalasafni Borgfirðinga í Borgarnesi. Á sama tíma fyrir níutíu árum eða árið 1916 tók faðir minn formlega við búinu og það ár hóf hann sambúð með móður minni, Sesselju Þorvaldsdóttur. Árið eftir eða 4. júní 1917 fæddust þeim tvíburasysturnar Ella og Gróa og fagnar Gróa í dag áttatíu og níu árunum. Nú er afkomendahópur foreldra minna orðinn æðistór og á sér þá merkilegu sögu að aðeins þrír afkomendur þeirra hafa látist. Ef það er ekki einsdæmi þá er það að minnsta kosti mjög sjaldgæft. Þau sem látist hafa af þessum fjölmenna afkomendahópi í áttatíu og níu ár er drengur sem lést tveggja daga árið 1982 og átta ára drengur sem lést af slysförum 1986, blessuð sé og ágæt er minning þeirra. Þriðja Ella systir mín náði langt yfir meðalaldur íslenskra kvenna og lést 26. ágúst 2005, áttatíu og átta ára að aldri. Vegna lífsgleði, lífsþróttar og jákvæðs hugarfars og þrátt fyrir að Ella er fallin frá tel ég hana vera sigurvegara lífsins úr hópi okkar systkinanna. Það var bara þetta sem mig langaði að segja.