Ávarp flutt á Rotarý fundi

Ávarpið hefur ekki verið birt.

Á fögrum haustdegi fyrir 4-5 vikum, fór ég með Bjarna Valtý Guðjónssyni til Staðarhraunskirkju, ef verða mætti að ég með veikum burðum gæti aðstoðað þar við söng við guðsþjónustu. Við rausnarlegt messukaffiborð hjá þeim Staðarhraunshjónum, barst í tal að ég hefði farið á hestum nokkrar ferðir um svonefndar Löngufjörur á Snæfellsnesi með Sigurði Jóhannssyni á Stóra-Kálfalæk, en hann er með hestaferðir á þessu svæði.

Ég hef sjálfsagt látið einhver ógætileg orð falla um ágæti þessarar reiðleiðar, því þegar við Bjarni Valtýr vorum komnir nokkuð heim á leið, spurði hann mig hvort ég mundi vera til með að opna Rotarýmönnum sýn inn í þennan ævintýraheim hestamanna  með því að segja nokkur orð um hann á einhverjum hinna vikulega funda. Og datt mér í hug að láta fljóta með nokkrar hugleiðingar um gróðurvernd. Sökum þess að ég er ekki fallinn til að segja nei við bónleiðir manna er ég hingað kominn og læt skeika að sköpuðu hvort mönnum líkar betur eða verr.

Á síðustu árum hafa búskaparhættir sveitafólks breyst allverulega þó ekki sé fastara að orði kveðið. Hinn hefðbundni búskapur sem svo er nefndur hefur verið og er enn á öru undanhaldi. Fækkun búfjár og þá sérstaklega sauðfjár er mjög mikil, til nokkurrar gleði fyrir þá sem telja að gróðureyðing og uppblástur lands sé alfarið sauðfénu að kenna. Með fækkandi störfum í hinum hefðbundna búskap hafa margir bændur farið á þá braut að sinna ferðaþjónustu, enda til þess hvattir bæði af stjórnvöldum og almannarómi.

Þegar svo er komið standa menn frammi fyrir nýjum og ólíkum vanda hvað gróðurvernd varðar, enda álit mitt að mikil aukning ferðamanna um landið þurfi ekki síður aðhalds og aðgæslu við en búfjárhald, þó ólíku sé saman að jafna. Þeir bændur og aðrir, sem hafa farið á þá braut ferðaþjónustunnar að leigja hestaferðir standa þó í meiri vanda að þessu leyti en aðrir.

Eins og áður sagði hef ég átt því láni að fagna að fá tækifæri síðastliðin 6 ár að ferðast með einni slíkri ferðaþjónustu og kynnst af eigin raun þeim vanda sem við er að glíma í gróðurfarslegu tilliti á þessum ferðum.

Ferðaleið Sigurðar á Kálfalæk er mjög skemmtileg og fjölbreytileg, hvað varðar reiðvegi og landslag. Fer hér á eftir leiðarlýsing í stórum dráttum:

1. dagur             Stóri Kálfalækur-Grímsstaðir í Álftaneshreppi

2. dagur             Grímsstaðir – leitarmannahús Borghreppinga, farið er inn Valbjarnarvallamúla.

3. dagur             Leitarhús Borghreppinga. Farin er Langavatnsdalur, síðan Mjóidalur – Vatnshlíð að leitarmannahúsi Hraunhreppinga við Hítarhólm.

4. dagur             Hítarhólmur. Þá er farið vestur yfir Hítará, skammt neðan við Hítardalsbæ, niður með Grettisbæli og vestan Hítarár langleiðina að Brúarfossi, að stóra Kálfalæk.

5. dagur             Stóri Kálfalækur – Kolviðarnes með hesta, en gisting ferðafólks í Lindartungu.

6. dagur             Kolviðarnes – félagsheimilið Lýsuhóll fyrir fólk, en hestar geymdir í Vatnsholti í Staðarsveit.

7. dagur             Vatnsholt – Arnarstapi á Snæfellsnesi um Búðahraun. Þá er skipt um farþega og farið sömu leið til baka að Stóra- Kálfalæk.

Eins og ég sagði er þetta mjög fjölbreytt reiðleið. Þar sem skiptast á grónar grundir dalanna, mjög grýttar og brattar leiðir yfir hálsanna milli þeirra þar sem sums stðar þarf að ganga og teyma hesta vegna bratta,  svo og hinar eftirsóttu Löngufjörur.

Og þá er ég loksins kominn að meginefni þessa erindis, en það er að lýsa í stórum dráttum leiðinni sem nefnist Löngufjörur og ná, að undanteknum smáspottum í landi, að Ökrum í Hraunhreppi að Búðum á Snæfellsnesi.

Flestir sem hugsa til ferðar á hestum um Löngufjörur fara á þær frá Snorrastöðum. Einnig er hægt að byrja ferð um þær á Ökrum í Hraunhrepp, með því bætist við alllöng leið sem dapurlegt er að missa af. Þá hefst ferðin út á fjörurnar milli Stóra-Kálfalækjar og Akra, en þó nokkru nær Ökrum. Þarna er framundan skemmtileg og góð sandfjara. Fyrsti állinn sem komið er að er ós Kálfalækjar, hann er grunnur, en þó heldur dýpri en Hítarárállinn sem er þó nokkuð vestar og ef menn verða seint á fjörunni þegar að vestan er komið fellur sjór fyrr í Kálfalækjarósinn en Hítará. Þarna er stefnan aðeins vestan við norður og þetta svæði heitir Akraós. Vestan hans er komið í land í Hítarnesi sem er býsna langt nes sem teygir sig í suðvestur frá bænum Hítanesi. Komið er í land utarlega á nesinu og riðinn alldrjúgur spölur að Hítarnesi eftir hörðum grasi grónum grundum sem þola vel umferð hesta. Þá er farið á fjöruna og um allbreiða vík og í land aftur norðan við bæinn Hítarnes, þar út á fjöruna á ný. Stundum þarf að fara í land í Jörvanesi ef sjór hefur ekki fallið frá því, annars utan það og fram hjá bænum Jörva langt frá landi. Fljótlega er komið að álum Kaldár. Þá er verið framundan Snorrastöðum, þar sem flestir leggja á fjörurnar. Þarna er stefnan tekin til norðvesturs. Brátt er komið að svonefndum Saltnesál, sem fellur oft illa úr og þess vegna viðsjárverður og fyrir kemur að þar þarf að fara í land sunnan Litla-Hrauns. Þá er farið eftir grasi grónum bökkum með svipuðu gróðurfari og er í Hítarnesi sem virðist einnig þola mjög vel umferðina. Enn á ný er farið út á fjörurnar og þá alllangan spöl, framhjá Litla-Hrauni, í land í Stóra-Hraunsnesi, síðan eftir því að bænum Stóra-Hrauni. Þar út á fjöruna að Haffjarðarárósnum sem er grunnur en nokkuð breiður, ef illa hefur fallið út. Farið í land í Kolviðarnestánni og að Kolviðarnesi til gistingar með hesta, en fólk að Lindartungu. Næsta morgun er farið út nesið á ný og á fjöruna utarlega og stefnan tekin yfir Núpá, stundum þarf að fara upp í svonefnd Núpunes, ef illa hefur fallið út, annars utan það. Eftir það er tekin stefna svo að segja mitt á milli bæjanna Hausthúsa og Syðra-Skógarnes, þó ef til vill nær Hausthúsum. Þarna á milli bæjanna er komið í land og á veginn að Syðra-Skógarnesi og þaðan að Ytra-Skógarnesi eftir mjúkum vegi. Þegar þangað er komið erum við á söguslóðum hinnar undurfögru skáldsögu Kristmanns Guðmundssonar, Ströndin blá, sem lýstir svo vel æsku og ástum tökubarnanna í Skógarnesi. Ég freistaðist til að lesa örstutta lýsingu á dagdraumum Hákonar tökudrengsins, sem ekki bar húsbóndanum Geirmundi vel söguna: „Fyrir löngu hafði hann ákveðið að fara beina leið til Reykjavíkur, þar sem fjöllin voru blá, og verða ríkur, hreint og beint auðugur, og skreppa síðan vestur að Skógarnesi, skrautlega klæddur með marga lausa hesta eins og sjálfur sýslumaðurinn. Geirmundur gamli myndi þá verða alveg að smjöri, taka ofan húfupottlokið og bukta sig. En það var ekki aldeilis meiningin að heilsa honum, heldur líta sem snöggvast á karlskrattann með djúpri fyrirlitningu og þeysa framhjá.“ Það eru því fleiri en skáldið Einar Benediktsson sem hafa látið sig dreyma um „að knapinn á hestbaki er kóngur um stund“.

Farið er yfir vík allbreiða fyrir utan Ytri-Skógarnesbæinn og í land vestan hennar, yfir mjótt nes og á fjöruna enn á ný og er þá stutt að fara að ós Straumfjarðarár sem er grunnur en nokkuð breiður og að því leiti líkur ósi Haffjarðarár. Þegar komið er góðan spöl frá Straumfjarðará fer Sigurður aðra leið, því flestir leggja leið sína um Stakkhamar, og fer svo að segja þvert úr leið til vinstri og þvert yfir svonefnt Stakkhamarnes, en það er margra km langt en mjótt og skagar í suður frá bænum. Farið er yfir nesið einhverja km sunnan Stakkhamars. Þegar þar er komið breytist fjaran allverulega því við tekur hvít eða mjög ljós skeljasandsfjara sem segja má að sé bæði hörð og mjúk, meiri bratti að sjónum og því útfyri lítið enda þykir mörgum gaman að ríða í flæðarmálinu. Þarna á allri fjöruleiðinni er fyrst hægt að tala um ævintýraheim hestamanna. Ég efast um að þeir sem aldrei hafa riðið um þessar slóðir hafi nokkurn tímann drukkið þann gleðinnar dropa í grunn sem Einar Benediktsson talar um í kvæði sínu Fákar. Þessi heillandi fjara nær svo að segja óslitið að Búðum. Nú er riðin margra km leið eftir endalausri fjörunni fram hjá eyðibýlunum Melkoti, síðan Krossum. Þá enn langa leið uns komið er að Staðará. Þar er farið í land og riðið í landi alla leið að Vatnshorni með hesta, en fólk að Lýsuhóli til gistingar. Frá Staðará að Vatnsholti er riðið eftir hinum nafnfræga Ölduhrygg utan vegar að sjálfsögðu. Á þessu svæði er sleppt alllangri fjöruleið, bæði er það að reiðvegurinn er mjög góður og krókur að fara í fjöruna á ný vegna gististaðar. Daginn eftir er lagt á fjöruna aðeins utan við Vatnsholt að Búðum, yfir Búðaós í Búðahraun, fram hjá Búðakletti. Hraunið er mjög grýtt og sprungið og liggur gatan fram hjá dúpum gjám og hraungjótum. Þarna geta hestar einungis farið í sporaslóð, það er hver á eftir örðum enda verður þarna að fara mjög hægan lestagang. Ekki er hætta á að lausu hestarnir fari úr götu og því hægt að gefa sér tóm til að virða fyrir sér hinn fjölbreytta hraungróður. Þegar Búðahrauni sleppir er farið fyrir sunnan tún á bænum Miðhúsum í Breiðuvík, út á svonefnd Hraunlandarif, sem er úti fyrir Breiðuvík á þessu svæði með nokkurri vatnsuppistöðu á milli lands og rifs. Rifið nær á móts við Hamraenda. Þar er farið í land og eftir fornum vegi sem er uppi á mjög háum hömrum. Þarna er farið fram hjá eyðibýlinu Grímsstöðum þar sem rímnaskáldið Sigurður Breiðfjörð bjó um stuttan tíma og bar illa söguna. Síðan endar ferðin á hinum alkunna Sölvahamri sem endar niður allbratta kleif og er þá komið að Arnarstapa á Snæfellsnesi með miklu tilhlökkunarefni og kærkomnu tækifæri að setjast inn í hið hlýlega veitingahús Arnarbæ og fá sér bjórkollu.

Ég hóf mál mitt með því að nefna þann vanda sem hestamenn eiga við að glíma og þurfa að passa uppá hvað gróðurvernd varðar. Ég ætla að telja upp nokkur atriði sem gæta þarf að. Gististaðir, ef þeir eru alltaf á sama stað og ef til vill margir hópar hver á eftir annan, er nauðsynlegt að flytja hey í hesta og gefa þeim og þá á ógrónu landi svo sem melum, enda er alls staðar þar sem svo háttar og ég þekki til girðingum komið fyrir á slíkum stöðum. Annars staðar er hægt að vera með girðingu á ýmsum slóðum og þá kemur Þverárrétt í hugann, þar sem Gunnar á Grjóti sér um að fá ný og ný hólf til afnota ef sneiðist um haga í öðrum. Þá er aðgæsla með áningar. Það er, að æja ekki á landi þar sem gróður er veikur og sprottinn upp af jarðvegi sem myndast hefir af gosefnum eða sandi. Á slíkum stöðum er gróður fljótur að láta á sjá og er þá stutt í uppblástur. Ef menn ferðast um slíka staði þarf að keyra fóður í hesta og gefa á örfoka melum. Í þessu sambandi dettur mér í [hug] Fjallabaksleiðirnar nyðri og syðri, Kjalvegur, Sprengisandur og margar, margar fleiri. Ég ferðaðist seinni partinn í sumar í bíl austur Fjallabaksleið syðri. Þar tók ég eftir fyrirmyndar umgangi hestamanna, en umferð þarna með hesta er að sjá mikil ef marka má sporaslóð þeirra sem eingöngu var á bílaslóðinni. Með hæfilegu millibili, að því er mér fannst, voru áningarhólf á örfoka melum og sjá mátti á heyleifum að þar hefði verið gefið. Hvergi sá merki þess að áð hefði verið utan girðinga eða hinn veiki gróður bitinn, sem þarna er eingöngu vaxinn upp af jarðvegi sem er myndaður af gosefnum.

Þegar skipt er um hesta og stórir hópar eru á ferð þá er slegið utanum hestana rafmagnssnúru sem ætíð er með og mynduð rétt til hægðarauka að ná styggum hestum. Nauðsynlegt er að gera þetta á melum eða þá á svo þéttu og góðu landi að ekki sjáist á því spark eða gróðureyðing. Ekki er sama hvernig lausir hestar eru reknir. Best er að reyna að fá þá til að lesa sig eða það sem kallað er að fara í sporaslóð, enda vilja hestar það þegar þeir eru rekstrarvanir. Ef eftirrekstrarmenn reka hart á þá hesta verður það til þess að þeir fara út úr götu og þarf þá iðulega að ríða fyrir þá og við það myndast för og spark, ef til vill í veikan gróður sem stendur í strangri baráttu við uppblástursöflin. Margt fleira væri hægt að telja upp sem gæti verið vopn í hendi hestamanna til verndar gróðri og náttúru, en í þessu efni sem öðru er hver sinnar gæfusmiður og veldur hver á heldur.

Þá lýk ég máli mínu. Ég vil um leið benda ykkur á að Sigurður á Stóra-Kálfalæk er tilbúinn að flytja ykkur í draumaheim tökudrengsins í Ytra-Skógarnesi eða skáldjöfursins Einars Benediktssonar þegar þið hafið áhuga á.

Þakka góða áheyrn.