Þetta ávarp flutti Árni við móttöku heiðursmerkis Hrossaræktarsambands Vesturlands vorið 2011.
Fundarstjóri, góðir fundarmenn
Um leið og ég þakka af alúð og tilfinningu, þann heiður sem mér er sýndur, vil ég segja þetta.
Alla ævi hef ég verið lítið fyrir að mæra menn eða lofsyngja fyrir störf sem þeim bar skylda til að vinna úr því þeir tóku þau að sér. Þrátt fyrir það fór það svo þegar ég fékk tilkynningu um að til stæði að sýna mér þakklætisvott fyrir það sem ég hef gert fyrir Hrossaræktarsamband Vesturlands, vöknaði mér um augu af hrifningu og hlýnaði svo sannarlega um hjartarætur. Þegar ég lít yfir störf mín og samskipti við Hrossaræktarsamband Vesturlands finnst mér sjálfum að ég hafi ekki verðskuldað þann heiður sem mér er sýndur í dag. Ég gekk undir það jarðarmen að taka að mér störf í þágu Hrossaræktarsambands Vesturlands og mér finnst að ég hafi gert skyldu mína og fyrir það er ekkert að þakka. Þegar ég lít yfir feril minn fyrst í Hrossaræktarsambandi Borgarfjarðar og síðar Hrossaræktarsambandi Vesturlands sem almennur fundarmaður og þátttakandi í umræðum og nefndarstörfum, sem fundarritari í einhver skipti, sem endurskoðandi reikninga í allmörg ár, sem varaformaður í eitt ár og formaður í 12 ár. Vona ég að mér hafi tekist að leysa þessi störf af samviskusemi og metnaði eins og best var á kosið á hverjum tíma.
Á þessum árum og við þetta starf eignaðist ég marga af mínum bestu vinum, sem flestir eru gengnir á vit feðra sinna. Það er hlutskipti þeirra sem lengi lifa að fylgja vinum sínum til grafar. Það sem mér þykir þó mest um vert er, að nú 24 árum eftir að ég setti punkt aftan við þennan kafla í lífi mínu, skuli nokkur maður muna eftir mér.