Árni Guðmundsson frá Beigalda

Árni 12 ára á sínum fyrsta hesti.

Æviágrip

Árni Guðmundsson frá Beigalda fæddist þann 21. febrúar 1923 í Álftártungu í Álftaneshreppi. Hann lést 1. ágúst 2019 í Brákarhlíð í Borgarnesi.

Foreldrar Árna voru Sesselja Þorvaldsdóttir og Guðmundur Árnason hjón í Álftártungu. Systkini Árna eru tvíburarnir Gróa (látin) og Elín (látin), Júlía, Valgerður Anna (látin) og yngstur er uppeldisbróðirinn Magnús Halldórsson (látinn). Árni átti heima í Álftártungu til 1948 er hann flutti að Gufuá í Borgarhreppi.

Þann 2. apríl 1954 kvæntist Árni Guðrúnu Andrésdóttur frá Saurum í Hraunhreppi. Guðrún var fædd 12. júní 1930, hún lést 29. ágúst 1983. Foreldrar hennar voru Lilja Finnsdóttir og Andrés Guðmundsson hjón á Saurum.

Árni og Rúna á aðfangadagskvöld. Strax byrjað að glugga í jólagjöf.
Árni og Rúna á góðri stundu í heimsókn hjá Lilju dóttur sinni í Svíþjóð.

Árið 1954 flutti Árni ásamt konu sinni að Beigalda í Borgarhreppi þar sem hann bjó til 1995 að hann fluttist í Borgarnes. Börn Árna og Guðrúnar eru: 1. Lilja, maki: Jón Bjarnason. Börn þeirra eru: a. Guðrún, maki: Daði Árnason. Synir þeirra eru Hallgrímur, Þorsteinn, Jón Davíð og Egill Árni. b. Bjarni, maki: Elísabet Guðrún Björnsdóttir. Börn þeirra eru Björn Elí, Henrik (látinn), Lilja Rún og Íris Alda. 2. Guðmundur, maki: Ragna Sverrisdóttir. Synir þeirra eru: a. Árni. b. Óðinn, maki: Jóhanna Lóa Sigurbergsdóttir. Synir þeirra eru Hlynur Daði og Garðar Kári. 3. Sesselja, maki: Eggert. A. Antonsson. Börn Sesselju með Eiríki Ingólfssyni (látinn) eru: a. Áslaug, maki: Helgi Þ. Möller. Sonur þeirra er Þórður Máni. Börn hennar með Kristjáni O. Sæbjörnssyni eru Mosi og Ágústa Birna. b. Leifur. c. Heiðar Eldberg, maki: Svala K. Eldberg Þorleifsdóttir. Dætur þeirra eru Morgunsól Aría, Silfur Esja og Fjara Lísa. 4. Alda. Sonur hennar og Friðriks H. Vigfússonar er a. Árni Rúnar, maki: Sara Köll Guðmundsdóttir. 5. Steinunn Þórdís. Börn hennar og Páls Guðnasonar eru: a. Aðalsteinn Ingi, maki: Karen Huld Tryggvadóttir. Sonur þeirra er Valtýr Leo. b. Guðrún Lilja.

Árin 1937-1954 vann Árni ýmis störf, s.s. í vegavinnu og við lagningu símalína. Frá 1954 var Árni bóndi á Beigalda en vann í sláturhúsi Kaupfélags Borgfirðinga á haustin. Frá 1966 var hann verkstjóri þar og lagði sitt af mörkum til að tekin var upp sú aðferð sem kennd er við Nýja-Sjáland og beitt er í sláturhúsum með færiböndum. Árni fór erlendis og kynnti sér aðferðina og miðlaði áfram til samlanda sinna. Árið 1969 varð hann fastur starfsmaður Kaupfélagsins við afgreiðslu á landbúnaðarvörum og dró í kjölfar þess saman hinn hefðbundna búskap.

Árni var áhugamaður um hestamennsku og hrossarækt og stundaði það áhugamál svo lengi sem fært var. Hann hafði gaman af félagsmálum og gegndi í sjálfboðavinnu trúnaðarstörfum fyrir ýmis félög og sat oft í stjórnum þeirra. Árni naut þess að dansa og hafði áhuga á tónlist og söng í kórum allt frá barnæsku.

Hross og hrossarækt var Árna alla tíð mikilvægt áhugamál.

Yfirlit yfir félagsstörf skrifuð af honum sjálfum

Í stjórn Ungmennafélagsins Egils Skallagrímssonar í Álftaneshreppi frá 1939-1948, oftast sem formaður. Þar til ég flutti úr heimasveit minni. Var fyrir mörgum árum kosinn heiðursfélagi þar.

Formaður Búnaðrfélags Borgarhrepps allmörg ár frá 1957.

Í hreppsnefnd Borgarhrepps í 10 ár.

Formaður Hrossaræktarsambands Vesturlands 1975-1987.

Gekk í Hestamannafélagið Faxa 1951, starfaði þar að ýmsum félagsmálum sem lutu að kappreiðahaldi eða öðru starfi frá þeim tíma. Var kosinn í stjórn frá 1966-1978, fyrst sem gjaldkeri, síðar og lengst af sem formaður. Var kosinn heiðursfélagi í Hestamannafélaginu Faxa 1993.

Sat 13 eða 14 Landsþing hestamannafélaga á árunum 1965-1983, var kosinn þingforseti ásamt öðrum á tveim þingum og ritari ásam þrem öðrum á einu þingi.

Varagjaldkeri í stjórn L.H. 1973-1983.

Í varastjórn L.H. 1983-1984

Skrifaði nokkrar leiðarlýsingar úr Mýrasýslu í Áfanga, ferðahandbók hestamanna, II bindi sem út kom 1994.