Viðtal tekið við Árna um hross og hrossarækt

Herdís Reynisdóttir tók þetta viðtal við Árna og birtist það í Eiðfaxa, 10. tbl. 1999.

Árni á Beigalda í Borgarhreppi

Árni á Bresti, sem var undan Golu frá Gullberastöðum og Fróða frá Hesti.

Einn fagran haustdag tölti Eiðfaxi á fund Árna á Beigalda. Árni er hestamönnum að góðu kunnur. Hann hefur um langt árabil sinnt félagsstörfum innan hestamennskunnar af miklum dugnaði en einnig ræktað, tamið og þjálfað hrossin sín ásamt því að sinna hefðbundnum búskap að Beigalda í Borgarfirði. Árni man eftir íslenskum hófhlífum frá miðri öldinni, hann man eftir hestaþingum þar sem „allir riðu öllu“, hann tamdi móður Nætur frá Kröggólfsstöðum og hefur mikilli vitneskju að miðla eftir ævilanga reynslu og vangaveltur um hross og allt þeim tengt.

Með hross á járnum í 64 vetur

Árið 1923 fæddist drengsnáði í Álftártungu í Álftaneshreppi. Þar ólst hann upp við hin almennu landbúnaðarstörf þess tíma en hneigðist snemma mjög til hrossa. Á þeim tíma voru fæstir bændur með fleiri hross en rétt til búsnytja. Á járnum yfir veturinn var í mesta lagi einn vagnhestur og e.t.v. eitt reiðhross til að komast brýnustu erinda. Eins var þessu farið í Álftártungu, en þegar Árni var 12 ára gamall sótti hann fast að fá að hafa brúnan fola sem faðir hans gaf honum á járnum um veturinn. Faðir hans tók fálega í það og litli hnokkinn grét af vonbrigðum. Skömmu síðar kom faðirinn með haframjölssekk úr kaupstað og gaf Árna og spurði hvort hann ætlaði ekki að járna þann brúna. Eftir þetta hefur Árni ætið haft hross á járnum yfir veturinn að einum vetri undanskildum, eða í 64 vetur!

Nágrönnum þótt nær að fjárfesta í fé en hrossum

Sá brúni entist Árna stutt, hann datt með hann „rass yfir haus“ þegar Árni var 16 ára og stóð klárinn aldrei upp framar. Árna þótti illt að vera hestlaus og keypti hryssu af öðrum bæ í Álftaneshreppi skömmu síðar. Sveitungum hans þótti dómgreind stráksa tæp enda miklu nær að eyða peningum í að kaupa sér kindur en hross. Um þetta leyti fór Árni að fá hross í tamningu frá öðrum bæjum, aðeins 16 ára. Það var óvenjulegt að unglingar væru að fást við tamningar á þessum tíma enda talið verk fyrir hrausta karlmenn eingöngu og ekkert barnagaman. Árni var í vegavinnu á daginn og tamdi á kvöldin í mörg ár.

Grín gert að bandbeislinu

Einhvern daginn fann hann það út að betra væri að fara á bak í fyrsta skipti með bandbeisli, sem voru í raun bara grönn og nett hringamél. Þetta þekktist ekki þá enda aldrei riðið við annað en hinar hefðbundnu íslensku stangir. Gert var grín að Árna fyrir vikið og einn gamalreyndur sagði „láttu þér ekki detta þetta í hug, þú hefur ekkert vald á folanum“.

Við bandbeislið notaðist Árni í byrjun tamningar í mörg ár en fyrstu alvöru hringamélin eignaðist hann um 1950. Þetta gekk allt saman ágætlega og segist Árni sjaldan hafa lent í vandræðum með nokkurt hross, þau hafi öll tamist og hafi hann bara haft eitt hrekkjótt hross undir höndum í gegnum tíðina, „það var hryssa sem ég átti, ég datt nú aldrei af henni en var oft mikið móður þegar slotaði“.

Alltaf tími til að temja

Árið 1954 flutti Árni ásamt konu sinni, Guðrúnu Andrésdóttur, að Beigalda þar sem hann átti eftir að búa næstu 4 áratugina. Þau hjónin bjuggu með hefðbundinn, blandaðan búskap og eignuðust 5 börn, Lilju, Guðmund, Sesselju, Öldu og Steinunni Þórdísi. Það hefur verið nóg að gera hjá Árna alla tíð, stórt heimili, búskapur og tímafrek félagsmál en alltaf gaf hann sér tíma til að ríða út og temja nokkur hross. „Það eru allt of margir bændur sem gefa sér aldrei tíma til að sinna hestamennskunni, það er hins vegar vel hægt. Ég vorkenni mönnum ekkert að skjótast á bak ef þeir eiga eina lausa stund, t.d. eftir hádegismatinn. Það er bara að koma sér af stað og þá verður þetta alveg bráðnauðsynlegur og frískandi þáttur í hinu daglega amstri“

Þrír ættliðir, Árni fylgir Guðmundi syni sínum og Árna sonarsyni og alnafna áleiðis í leitir.

Miklar framfarir í hestamennskunni

– Þykir þér mikill munur á tamningu og þjálfun hest nú til dags frá því sem áður var?

„Það hafa orðið miklar framfarir í allri hestamennsku, það er ekki spurning. Ég hef átt gott með að semja mig að siðum ungu mannanna og raunar er það fátt sem kemur mér á óvart sem boðað er í reiðmennsku og þjálfun í dag. Ég hef alla mína ævi stúderað mikið í kringum hestamennskuna. Það hafa farið ófáar vangavelturnar í hrossin í gegnum tíðina og þar hafa ýmsar hugmyndir skotið upp kollinum sem e.t.v. hafa ekki samræmst þess tíma hugsun. Ég man t.d. eftir því þegar menn héldu að því meiri þyngd sem væri á bakinu á hestinum þeim mun auðveldara ætti hrossið með að tölta. Þetta dró ég ætið í efa enda sér maður oft hvernig hross vinda sig upp og tölta án knapa en með þyngd knapans veigra þau sér við því og sérstaklega ef knapinn situr afar þungt í hnakknum. Það hafa að sjálfsögðu breyst eitthvað áherslurnar með tímanum en gott tölt er alltaf mikils metið. Mér hefur oft reynst það vel að ríða klárgengum tryppum töluvert á valhoppi, þá kemur töltið oftast í kjölfarið. Valhoppið virðist styrkja hliðarhreyfingarnar og undirbúa þannig hrossin undir töltið“.

Skil bara ekki hvernig við fórum að þessu

„Betri skilningur á líkamsstarfsemi hest og atferli skilar sér margfalt í allri hestamennskunni. Nú á dögum sér maður sjaldan blæða úr munnvikum hrossa í reið en í gamla daga var það mjög algengt, annar hver hestur var kjalftsár eða særður undan keðju og það sem meira var, menn töldu það ekki átöluvert. Beislisbúnaður hefur batnað og ekki síður kunnátta þeirra handa sem um taumana halda. Hringamélin voru án efa til mikilla bóta, með þeim geta ónæmar hendur ekki skemmt eins mikið og með stöngunum. Annars held ég mikið upp á stangabeislið en nota það eingöngu til hátíðarbrigða, einstaka sinnum á vel tömdum hestum en aldrei í ferðalögum. Hestaferðalög eiga að vera ánægjuleg fyrir alla, hross og menn. Passa þarf upp á að nota ekki reiðtygi sem angra eða þvinga hrossin og hafa dagleiðir alltaf nógu stuttar, ekki lengir en 40 km.

Öll aðstaða hefur batnað ótrúlega mikið. Hér áður fyrr voru menn oft að lenda í vandræðum vegna þess hve léleg aðstaðan var, gerði þekktust t.d. ekki og ég tamdi í um hálfa öld án þess að nota gerði en núna skil ég bara ekki hvernig ég gat það. Annars fæst ég lítið við frumtamningar nú orðið, sonur minn sem býr á Beigalda sér um það. Maður verður líka að þekkja eigin takmörk, það gerist nú oft að líkaminn eldist með árunum þótt hugurinn sé nokkuð sprækur áfram“.

Engin fegurð í þessari miklu hágengni ef afturfótasporið er ekki í samræmi

– Finnst þér ímynd gæðingsins haf breyst mikið á undanförum áratugum?

„Ekki svo mjög, menn vilja enn rúma, ganggóða hesta, hrausta og duglega. Meiri áhersla hefur verið lögð á fótaburðinn á síðustu áratugum og er ég hræddur um að aðrir þættir hafi fallið í skuggann af þessu. Áður var einnig sóst eftir hrossum með fallegar hreyfingar og þóttu skriðgengir hestar lítið spennandi meðal flestra. Þessi óhemju hái fótaburður þekktist hins vegar varla enda var mun frekar horft til mýktarinnar og heildarmyndarinnar. Maðalgengir, mjúkir hestar nutu meira sannmælis þá, menn horfðu held ég meira á afturfótasporið en nú er gert sem og taglburðinn sem sýnir svo vel mýktina. Mér finnst sjálfum engin fegurð í þessari miklu hágengni þegar hún er orðin svo mikið ýkt að allt samræmi í hreyfingum hestsins er horfið. Afturfótasporið verður oft stutt og stirt miðað við ýktar hreyfingar framfóta og svo eru þessir hestar oft ekkert mjúkir, hastir ásetu, fara illa með skeifur og eigin fætur, eru vegvandari og verri til ferðalaga. Skeiðið finnst mér líka hafa breyst dálítið á undanförnum árum. Gömlu mennirnir vildu flestir að hestar skeiðuðu „niðri“, vel teygðir. Nú er orðið algengara að sjá hross skeiða „uppi“, reist og með háar hreyfingar. Ég verð að viðurkenna að mér þykir það fallegra. Það hefur alltaf verið ágreiningur um hvenær hross liggja, það er mikill vandi að greina á milli svo óyggjandi sé, hvort um er að ræða skeið eða yfirferðatöld, Ég er dálítið veikur fyrir svona fjórtöktuðu skeiði, það er falleg og mjög þægilegt að sitja og oft auðveldara að ríða líka. Slíkir hestar eru í raun gæðingar, þeir eru bara svo skrokkmjúkir að bakið stífnar ekki alveg.“

Haldið inn Lundareykjadal. Skíma fer í broddi fylkingar, Árni rekur lestina á Elju. Á eftir honum ríða Jón Bjarnason, tengdasonur og Lilja dóttir Árna.

Höfum við verið að selja svikna vöru?

-Hvaða skoðanir hefur þú á fótabúnaði keppnishrossa?

„Ég er mikið á móti þyngingum sem ætlaðar eru að ýkja fótaburð og fimi fulltaminna hesta. Það er allt annað að notast við þyngdarmun á fram- og afturhófum við tamningar til að hjálpa hrossum að finna jafnvægi. Þannig finnst mér sjálfsagt mál að járna á slitnar skeifur annars vegar og nýjar hins vegar til að hjálpa hrossinu og jafnvel bæta þá á örlítilli þyngd en bara rétt á meðan verið er að leiðbeina. Þannig auðveldar maður tryppinu að skilja bendingarnar og að bregðast rétt við þeim og minnkum um leið álagið á tauminn, sérstaklega á þetta reyndar við klárhesta sem aðeins eru þyngri að aftan. Um leið og hross er tamið og fullgert á það ekki að þurfa neinar aukaþyngingar. Mér finnst því að við ættum að samræma fótabúnað í gæðingakeppni reglum kynbótasýninga enda er upprunalegt markmið gæðingakeppni að finna besta eðlisgæðinginn. Þau rök að þetta eyðileggi fyrir sölu hrossanna þykja mér fánýt, höfum við kannski alltaf verið að selja svikna vöru?“

Íslenskar hófhlífar 1950

„Þess má geta að hófhlífar eru ekki bara útlend uppfinning. Árið 1950 voru smíðaðar hófhlífar á hest hér í Borgarhreppi. Kristófer Jónsson á Hamri átti graðhest, Þokka 232, sem raunar var síðar geltur en var feikna gæðingur. Kristófer sem var margt betur gefið en orðskrúð, lýsti honum eitt sinn á þann veg: „hann hefir tvennslags brokk og tvennslags tölt og vakur eins og hann stekkur“. Í upphafi átti hann það til að grípa á sig á skeiðinu og smíðaði Jón Bjarni Guðmundsson söðlasmiður í Borgarnesi hófhlífar á klárinn. Þær voru úr þunnu leðri og líkar þeim sem í dag eru notaðar. Líklega hefur klárinn hætt að fara í sig með betra jafnvægi því þessar hófhlífar voru ekki notaðar á hann svo ég muni en ég kynntist honum ekki fyrr en 12 vetra gömlum.“

Uppskrúfaðir og afturkerrtir

-Hvað þykir þér helst að betur mætti gera í hestamennsku nútímans?

„Þótt óumdeilanlegt sé að reiðmennsku hefur fleygt fram þá finnst mér stundum að þessir nútíma sýningahestar séu sumir of uppskrúfaðir. Þeir eru kerrtir aftur og fá jafnvel hjartarháls fyrir vikið og koma ekki vel upp í herðarnar. Þetta er líka dómunum að kenna, þeir virðast hafa tilhneigingu til að dæma þessa hesta hátt. Ég held að það sé afar mikilvægt að byrja á því að kenna hesti að koma upp í herðarnar, þannig nær hann jafnvægi og styrk í bakið. Maður finnur þetta líka á hnakknum, ef hann situr kyrr á sínum stað er maður í góðum málum. Ef hnakkurinn leitar sífellt fram er það oft vegna þess að hesturinn gengur ekki nógu vel upp í herðarnar en er kannski ofreistur og með fatt bak.“

Félagsmálamaður alla tíð

Árni hefur verið mikill félagsmálamaður alla tíð. Hann var kosinn í stjórn ungmennafélagsins 16 ára gamall og allar götur síðan hefur hann verið á kafi í hinum ýmsu nefndum og félögum. Árni var gerður að heiðursfélaga í ungmennafélaginu ´68 og þykir vænt um þann titil. Hann var einnig m.a. í hreppssnefnd og í svonefndri skattanefnd sem var áður en skattstjóraembættið var stofnað. Félagsmál hestamennskunnar urðu hins vegar æ tímafrekari þegar á leið.

Formaður hrossaræktarsambands Vesturlands

-Hvað getur þú sagt okkur um félagsmál hestamennskunnar á liðnum áratugum?

„Ég hef verið viðloðandi félagsmál frá unglingsaldri. Ég var þó ekki mjög ungur þegar ég gekk í Faxa, fullra 28 ára. Þá hafði ég verið töluvert á flækingi árin á undan við vinnu. Fljótlega tóku að hellast á mig störf innan hestamannfélagsins sem ég sinnti með glöðu geði. Ég sá um undirbúning allra hestaþinga hér í héraðinu um þetta leyti og var áður en langt um leið kominn í stjórn. Árið ´58 var ég kosinn í stjórn Búnaðarfélagsins í Borgarhreppi og var í framhaldi af því kominn í samband við hrossaræktina í héraðinu. Árið 1964 var svo stofnað Hrossaræktarsamband Vesturlands og var ég formaður þess frá 1975-´87. Það var geysilega skemmtilegur tími. Ég tók við af Símoni Teitssyni og með mér í stjórn voru þeir Leifur Jóhannesson, og Marinó á Skáney. Það var frábært að fá að starfa með þessum þrautreyndu mönnum og líklega er þetta starf hjá hrossaræktarsambandinu hið eftirminnilegasta félagsstarf sem ég hef unnið. Ég gekk líka í Skuggafélagið á þessum tíma. Ég taldi raunar að þar sem ég ætti hryssu undan Svip frá Akureyri væri ég gjaldgengur til inngöngu í félagið. Það var nú ekki og þá seldi Guðmundur á Gullberastöðum mér hornfirska hryssu undan Kvisti frá Hesti og þar með var ég kominn í Skuggafélagið.“

Allir riðu öllu

-Hvernig var framkvæmd hestaþinga háttað hér á árum áður?

„Uppbyggingin hér að Faxaborg var á sínum tíma bæði framsýn og dugnaðarleg. Þetta var enda einn vinsælasti kappreiðarstaðurinn á landinu fram undir 1975. Þar var keppt í stökki: 800 m, 400 m, og 300 m; í brokki: 1500 m, og í 250 m skeiði og í 250 m folahlaupi. Þá var keppt í gæðingakeppni og dæmt eftir gamla laginu sem var raunar nokkur sérstakt. Það var  þriggja manna góðhestanefnd og allir nefndarmenn riðu öllum hestunum, eða eins og ég segi stundum, allir riðu öllu! Allir vildu að sjálfsögðu gera betur en hinir og geta má nærri að þetta var ansi mikið álag á hrossin. Ekki tel ég þó að þeim hafi verið misboðið nokkurn tíma, allir þessir menn voru góðir hestamenn og oft sýndust hross miklu betur undir þeim en knöpunum sjálfum. Þetta fyrirkomulag lagðist svo af og aðeins var notast við einn reiðdómara um skeið. Á fjórðungsmótinu ´71 var svo fyrst dæmt eftir spjaldadómum.“

Harpa frá Eskiholti – kolvitlaus en heillandi

-Hvernig byrjaði þín hrossarækt?

„Ég fékk hryssu ættaða úr Dölunum, Hörpu 2976 frá Eskiholti til tamningar. Hún var undan Þokka frá Hamri hans Kristófers sem var undan Móra frá Kjalardal. Þessi hryssa var alveg rosalega viðkvæm og ör og var ekki árennileg framan af. Ég tók hana inn um veturinn og fór að eiga við hana. Hennar vegna varð ég að vera í sama gegningargallanum allan veturinn, annars komst ég ekki nálægt henni og ekki þoldi hún ókunnuga. Ég hafði andskoti gaman af þessu. Hún var alltaf stygg en þæg í reið ef maður komst á bak. Hún stóð upp á endann þegar fara átti á bak og hálfu verra var að komast af henni. Sólveig dóttir Bjarna í Eskiholti átti hana en sá að ég myndi einn hafa einhver not af henni og lét mig fá hana. Bjarni var raunar viss um að merin yrði mannsbani áður en yfir lyki. Ýmsir málsmetandi hestamenn tjáðu mér hvílík firra það myndi vera að ala upp undan henni en samt freistaðist ég til þess. Fyrsta folaldið var undan Skugga frá Bjarnanesi og fætt ´52. Eftir það eignaðist hún folöld annað hvert ár, alls átta, en ég reið henni sjálfur á milli. Harpa varð 24 vetra og ekkert afkvæma hennar hafði þennan ofsa eins og hún en urðu öll ágæt reiðhross. Beigalda hrossin eru öll út af henni komin nema nokkur sem eru út af Golu frá Gullberastöðum.“

Gola frá Gullberastöðum – hornfirsk tíma sprengja

„Einnig hef ég ræktað út frá Golu frá Gullberastöðum sem ég keypti á sínum tíma þegar ég gekk í Skuggafélagðið. Hún var grannbyggð og mikið viljug hryssa. Ég hef haldið þeirri línu fremur aðskilinni og á út af henni núna einn góðan, gráan. Þessar tvær hryssur, Harpa og Gola mynda grunninn að minni ræktun. Ég vil hafa hrossin mjúk, mjúk í baki með gott afturfótaspor og líka fallegt framfótaspor, vel reist en bara eins og bygging leyfir svo ekki verði ofreising. Annars er ég hættur þessu ræktunarstússi núorðið, sonur minn er tekinn við og ég ríð bara mínum reiðhestum. Ég hef nú alltaf reynt að halda hrossaeigninni innan hóflegara marka og hef líklega aldrei átt nema um 14 hross sjálfur í einu, en svo voru einhver fleiri á heimilinu. Núna á ég bara 3 reiðhesta sem ég fer að taka á hús bráðlega.“

Nótt frá Kröggólfsstöðum er undan Sirrýjar-Brúnku

-Er þá rétt að þú hafir tamið móður Nætur frá Kröggólfsstöðum?

„Já það mun hafa verið svo. Árið 1948 fékk ég til tamningar 7 vetra hryssu ofan af Álftanesi undan Móra frá Kjalardal og Toppu frá Álftanesi. Ég kallaði þessa hryssu alltaf Sirrýjar-Brúnku, en eigandi hennar var Sigríður Jónasdóttir. Þetta var mjúk alhliða hryssa, allvel vökur með hreint tölt og þýtt brokk. Hún var sérstaklega geðgóð sjálftamin með góðan vilja en ekki harðgerð. Bróðir Sirrýjar, Haraldur Jónasson, tók hryssuna með sér suður á Kjalarnes og þaðan fór hún að Kröggólfsstðum.

Haustið 1965 fórum við nokkrir Faxafélagar á þing LH sem þá var haldið á Hvolsvelli. Við gistum á Kröggólfsstöðum kvöldið fyrir þingið og nutum þar góðrar gestrisni hjá þeim Páli og Sigurbjörgu. Þá um kvöldið sagði Páll okkur frá hryssueign sinni, nefndi Öldu (Reykja-Brúnku). Kolbrúnu (Grímarstaða-Brúnku) sem og brúna hryssu sem ættuð væri vestan af Mýrum. Hann innti mig eftir því hvort ég kannaðist eitthvað við hana en þá gerði ég það ekki, e.t.v. hefði ég kveikt á perunni ef Álftanes hefði borið á góma. Mig minnir að öllum þessum hryssum hafi verið haldið undir Hörð þá um vorið. Löngu síðar frétti ég af för Sirrýjar-Brúnku suður og áttaði mig þá á því hvað hross Páll var að tala um þarna um kvöldið.

Nótt bar vissulega merki Álftaneshrossanna sem voru létt og gjörvuleg klárhross flest og með eindæmum langlíf og hraust. Það er gaman að þetta komi fram, mér finnst þessi gamli stofn í Álftanesi fái uppreisn æru við það sem er svo sannarlega með réttu.

Eiðfaxi kveður Árna með virktum og óskar honum góðs gengis í hestamennskunni á komandi öld.