Ari Guðmundsson vegaverkstjóri – aldarminning

Ari Guðmundsson

Birt í Borgfirðingi 29. nóvember 1995

Ari Guðmundsson var fæddur 18. nóvember 1895 að Vatnshömrum í Andakíl, og er hans að minnast í hugum okkar Borgfirðinga og Mýramanna um þessar mundir þegar 100 ár eru liðin frá fæðingu hans. Á Vatnshömrum stóð vagga hans. Þar og á Skáney í Reykholtsdal sleit hann sínum fyrstu bernskuskóm, en frá Skáney flutti fjölskyldan að Skálpastöðum í Lundarreykjadal árið 1902. Þótt Ari hafi svo flutt  þaðan árið 1933 var hann æði oft kenndur við þann bæ til æfiloka.

Veturinn 1915-1916 stundaði Ari nám við lýðskólann í Hjarðarholti í Dölum, en vorið 1918 útskrifaðist hann sem búfræðingur frá Hvanneyri eftir tveggja ára nám.

Á þessum árum var ári Ari virkur þátttakandi í félagsmálum sveitar sinnar, formaður ungmennafélags og búnaðarfélags og hreppstjóri í Lundarreykjadal frá 1928-1933.

Ungur að árum, eða árið 1926, tók Ari að sér verksjórn við vegagerð í heimasveit sinni, Lundareykjadal, þá búsettur að Skálpastöðum. Brátt færðist á hans herðar verkstjórn í vegagerð á ýmsum stöðum, svo sem Bröttubrekku 1929-1932, Holtavörðuheiði 1933-1934 og á Kerlingaskarði sumarið 1935.

Vorið 1943 tók Ari við viðhaldi og uppbyggingu vega í nær öllum Borgarfirði, en Ágúst Jónsson frá Miðhúsum hafði umsjón með vegum á Mýrðum. Þetta vor hætti Guðjón Bachmann verkstjórn er hann tók við forstöðu áhaldahúss Vegagerðar ríkisins í Borgarnesi.

Eins og sést í þessari örstuttu upptalningu ber nafn Ara Guðmundssonar hátt í sögu vegamála á þessu svæði.

Hinn 9. júlí 1933 kvæntist Ari eftirlifandi konu sinni, Ólöfu Sigvaldadóttur, og fluttist alfarið í Borgarnes, en áður hafði hann dvalið þar meira og minna vegna atvinnu sinnar.

Það sem heldur merki Ara lengst og hæst á lofti í hugum hestamanna er fórnfúst starf hans að málefnum þeirra. Á aðalfundi Búnaðarsambands Borgarfjarðar í Svignaskarði 6. apríl 1926 kom nafn Ara Guðmundssonar á Skálpastöðum fyrst við sögu í bókum þess og þá með þeim hætti að hann var kosinn í nefnd sem fjallaði um hrossaræktarmál. Upp frá því stóð hann ávallt í fylkingarbrjósti þeirra manna sem að málum hrossaræktar og öðrum búfjárræktarmálum unnu. Þegar Hestamannafélagið Faxi var stofnað þann 23. marz 1933 var Ari einn af stofnendum og kosinn fyrsti formaður og var upp frá því í stjórn félagsins til dauðadags og oftast formaður.

Ari vann félaginu af mikilli fórnfýsi og dugnaði, og framsýni hans nýtist hestamannafélaginu enn í dag. Eitt dæmi langar mig að nefna af mörgum sem sýna áhuga hans og dugnað við að koma málum áfram. Þegar Hestmannafélagið Faxi ákvað að sýna í verki áhuga sinn á að þoka hrossaræktarmálum í héraði áleiðis eru fyrst bókaðar umræður um kaup á kynbótahesti 8. nóvember 1945, en 11. sama mánaðar er samþykkt að kaupa Skugga 201 frá Bjarnanesi, og 24. nóvember, eða sama mánuðinn og það kemur fyrst á dagskrá að kaupa kynbótahest, var hesturinn keyptur og greiddur og greiðslukvittun undirrituð af Einari Gestssyni og hesturinn sóttur að Hæli í Gnúpverjahreppi. Að sjálfsögðu studdu margir áhugasamir menn þetta mál. Þar stóð Ari vissulega ekki einn uppi. En hann var aðaldriffjöðrin í að koma málinu, eins og svo mörgum, í höfn.

Ari var aldrei sporgöngumaður annarra, eða með öðrum orðum fetaði aldrei í annarra spor, heldur gekk á undan og tróð brautina.

Laugardaginn 28. júní 1941 kom hópur ríðandi manna saman á Þingvöllum frá þessum hestamannafélögum: Fáki Reykjavík, Sleipni Selfossi, Faxa Borgarfirði og Glað Dalasýslu. Á fundi þá um kvöldið og morguninn eftir fór fram umræða um stofnun landssambands hestamannafélaga, svo segja má að þá og þar hafi verið lagður hornsteinninn að því sem seinna varð í þessu efni.

Eins og oft áður var Ari talsmaður Faxa á þessum fundi og ferðalagi, enda fór það svo að þegar stofnfundur Landssambands hestamannfélaga var haldinn 18. desember 1949 var Ari Guðmundsson kosinn ritari samtakanna og hélt því starfi til dauðadags.

Svo sem oft vill verða voru ekki allir sammála um störf Ara Guðmundssonar á sviði félagsmála og um það deildu menn og sýndist sitt hverjum. En þó var það svo að þegar kom að því að velja forystumann naut hann stuðnings flestra ef ekki allra, bæði þeirra sem voru honum andsnúnir sem og samherjanna. Þetta segir okkur meira en mörg orð um það hvað Ari var vel til forystu fallinn.

Að morgni dags 21. maí 1959 steig Ari á bak reiðhesti sínum og ætlaði að Beigalda til eftirlits á Ferjubakkavegi, sem þá var verið að byrja á, og í bakaleið ætlaði hann að skilja hesta sína eftir á Hamri og koma þeim í sumarhaga. Þennan fagra vormorgun hætti stundaklukka Ara Guðmundssonar að tifa. Í miðri önn dagsins féll hann frá í sviplegu slysi, þar sem hann féll af hestbaki úr því eina sæti sem honum var kært um ævina og honum var annt um að aðrir mundu öðlast og sýndi það í verki með því að stuðla að bættum kostum reiðhesta. Enginn veit hvað olli hinu sviplega slysi, því Ari var einn á ferð, en enginn sem þekkti til hans sem hestamanns trúði því að hann hefði fallið af hestbaki að tilefnislausu. Eitthvað hlaut að hafa komið fyrir.

Þegar Ari féll frá var hann formaður Hestamannafélagsins Faxa og einnig Hrossaræktarsambands Borgarfjarðar. Okkur félögum hans fannst syrta í álinn, og minnist ég þess að menn töluðu um að eitthvað mundi dofna yfir félagsskap okkar við hið sorglega slys. En þá, eins og alltaf fyrr og síðar, kom maður í manns stað og Símon Teitsson, náinn samstarfsmaður og samherji Ara í mörg ár, tók við stjórnartaumum í báðum þeim félögum sem Ari hafði veitt forstöðu, en Sigursteinn Þórðarson í Borgarnesi tók við starfi ritara hjá L.H.

Íslenskir hestamenn, og þá sérstaklega borgfirskir, standa í mikilli þakkarskuld við litla drenginn sem fæddist fyrir 100 árum á Vatnhömrum í Andakíl. Víst er að margt væri öðruvísi ef hans hefði ekki notið við, og enn um langan aldur mun glöggt sjá til þeirra spora sem hann markaði með störfum sínum.