Andrea Andrésdóttir og Ólafía Eyjólfsdóttir

Textinn um Andreu Andrésdóttur og Ólafíu Eyjólfsdóttur var skrifaður að beiðni Magnúsar Péturssonar. Þeir birtust í bók hans um Pétur Pétursson alþingismann frá Mýrdal. Bókin heitir Lífshlaup athafnamanns: saga fjölskyldu, stjórnmála, atvinnulífs og viðskipta. Hún var gefin út árið 2020 af Svarfdælasýsl forlag.

Andrea Andrésdóttir

1861 – 1948

Pétur Einarsson  Moldbrekku Kolbeinsstaðahreppi f. 20. júlí 1799, d. í Krossholti  sömu sveit 9. apríl 1870.  Bóndi á ýmsum bæjum í Kolbeinsstaðahreppi og Hraunhreppi, síðast á Moldbrekku 1843-1858, síðan húsmaður og vinnumaður á ýmsum bæjum í sömu sveitum til dánardægurs. Átti sex börn með konu sinni. Barnsmóðir hans var Þórunn Jónsdóttir frá Miðhrauni. Barn þeirra fyrir hjónaband Péturs var Pétur f. 7. okt. 1834.

            Pétur Pétursson fæddur á Laxárbakka í Miklaholtshreppi 7. okt. 1834, dáinn í Krossholti í Kolbeinsstaðahreppi 28. jan. 1915. Var með móður sinni Þórunni á Laxárbakka a.m.k. til 1850. Vinnumaður á Grímsstöðum og Grenjum í Álftárneshreppi, Skiphyl og Einholtum í Hraunhreppi 1855-1863.

Fór vestur í Grundarfjörð, giftist þar, og  kom með konu sína suður í Kolbeinsstaðahrepp. Hún var Andrea Andrésdóttir frá Gröf í Grundarfirði. Börn þeirra voru Pétur f. 17. júní 1893, síðast á Álftá í Hraunhreppi og síðar segir frá og Björg f. 1. okt. 1896, d. 1917 frá eiginmanni, Sumarliða, og ársgömlum syni, Pétri Sumarliðasyni kennara og útvarpsmanni (Sjá Kennaratal á Íslandi Rvk. 1958).

Andrea var fædd 28. apríl 1861. Í Borgfirskum æviskrám segir að hún hafi farið úr Kolbeinsstaðahreppi 1899 vestur undir Jökul og saga hennar sé ókunn eftir það. Þó það sé e.t.v. rétt að hún hafi horfið úr Kolbeinsstaðahreppi 1899 þá er rangt að saga hennar sé ókunn eftir það því hún var flutt úr Bolungarvík í sína framfærslusveit Kolbeinsstaðahrepp í oddvitatíð Ólafs Erlendssonar Jörva, en hann var oddviti þegar hann lést 1922, svo það hlýtur að hafa gerst í síðasta lagi það ár. Munnlegar heimildir sem ég hef tiltækar segja að hann hafi sótt hana a.m.k. einhvern hluta leiðarinnar.

Þá var hún fárveik og illa haldin vegna blóðeitrunar í báðum fótum. Kannski þess vegna send í sína framfærslusveit. Talið er að hún hafi dvalið á Jörva til að byrja með, einnig mun hún hafa dvalið á Grund en ekki fyrr en 1927 því þá var það býli stofnað. Um eða eftir 1930 fór hún að Tröð til ungra hjóna, Bjargeyjar Guðmundsdóttur og Guðbrandar Magnússonar og var þar til hausts 1946. Þar leið henni í alla staði vel. Var ,,sjálfra sín” svo sem kallað var og hafði afnot af einu herbergi í húsinu sem byggt var um 1930. Magnús Guðbrandsson frá Tröð, bóndi á Álftá man vel eftir Andreu þegar hún dvaldi í Tröð en hann var orðinn átta ára þegar hún fór þaðan. Hann sagði að hún hefði fengið daglega mjólk á sömu flöskuna þau ár sem hann mundi. Ennfremur var henni lagt til af hreppnum eitt lamb á ári og þá ómerkingur úr réttum sem enginn gat sannað eignarrétt sinn á. Þá vildi hún fremur gimbrarskrokk en hrútshaus og var a.m.k. stundum farið að ósk hennar í  því efni.

            Eins og áður sagði er Magnús bóndi á Álftá til frásagnar um dvöl hennar í Tröð m.a. það að henni þótti gaman að fara á bæina í nágrenninu og voru þá hann eða eitthvert systkinanna látin fylgja henni milli bæja. Hanna á Jörva sagði mér að Andreu hafi þótt gaman að fara á hestbak og sagt sögur af því frá yngri árum sínum. Jóhann Sigurðsson (f. 1925) sagði mér að þegar hann var fimm eða sex ára hefði Andrea komið einu sinni ríðandi suður að Stóra-Kálfalæk í Hraunhreppi til að heimsækja húsfreyjuna þar Guðrúnu Jóhannsdóttur, móður sína, en Andrea hafði þekkt móður Guðrúnar úr Grundarfirði. Meðreiðarsveinn Andreu í þessari ferð var Júlíus Jónsson bóndi í Hítarnesi og lánaði henni hest.

            Áður en kemur að lokaþætti þessarar frásagnar um Andreu ætla ég að koma að frásögn Ásdísar Guðbrandsdóttur (systir Magnúsar á Álftá) f. 1926. Hún sagði að dóttursonur hennar Pétur Sumarliðason hefði sýnt ömmu sinni  mikla ræktarsemi og heimsótt hana og skrifað henni en það var hlutverk Ásdísar að lesa bréfin frá honum fyrir hana og skrifa honum í Andreu nafni.  Þegar hér var komið sögu voru þeir nafnarnir Pétur Sumarliðason og Pétur Pétursson í Mýrdal, sonar- og dóttursynir einu afkomendur hennar og Pétur í Mýrdal barn að aldri.

            Þá er að segja frá því að einhvern tíma á árunum kringum 1930, heldur fyrr en seinna, kom Andrea í heimsókn að Álftártungu, og er okkur systkinunum, mér og Júlíu f. 1921, sem þá vorum börn að aldri að alast þar upp, minnistæð á mismunandi hátt. Nú er rétt að það komi fram að Andrea var afar stór og gróf vexti, ófríð og orðin luraleg í hreyfingu og gekk hölt sem gætu hafa verið afleiðingar þeirrar blóðeitrunar sem hún fékk í fæturnar og áður segir frá. Þetta varð til þess að við tvö systkinin, ég og Júlía (f. 1921) fylltumst ótta um að Gilitrutt kynni að vera á ferð þegar sást til hennar frá bænum og ekki varð óttinn minni fyrir það að hún virtist koma frá holti sem Pétursstekkur heitir og er klettarani til beggja handa um það bil  3 til 4 metra hár. Upp á honum endilöngum hefur myndast sprunga sem hefur gliðnað í sundur og myndast 80 – 100 cm gjá.  Okkur börnunum var sagt að þarna ætti Grýla heima, sjálfsagt í þeim tilgangi að við værum ekki að príla þarna niður, enda gjáin alltaf kölluð Grýlubæli. Er nema von að okkur hafi skotið skelk í bringu?

Þegar gesturinn kom í bæinn hvarf allur ótti því í ljós kom að hann var venjuleg kona, að vísu stórskorin og ófríð, að okkur fannst, sem spjallaði, hló hátt og sagði fréttir. Ýmist raulaði hún fyrir munni sér og man Gróa systir mín (f. 1917) að Andrea söng líka hástöfum, fór með fjöldann allan af vísum og kviðlingum. Til dæmis þessi sem mig minnir að væri svona eða það sem ég man úr honum: ,,þó hún Gróa hafi skó, hafi skó,” svo man ég ekki næstu línu en svo kom: ,,halamjóa þvengi þó, þegar hún fer að búa”. Ég fer með þetta eins og ég hef rifjað upp, kannski hefur hún farið með þetta svo.  Sagðist Andrea hafa lært þetta hjá Galtarholtsbræðrum, þar hefur hún vafalaust átt vð syni Jóns í Galtarholti en hann var landpóstur milli Borgarness og Staðar í Hrútafirði 1906-1932. Allir synir hans voru fæddir fyrir 1910.

            Þegar Andrea var á heimili foreldra minna var hún sívinnandi ýmsa tóvinnu. Stundum sem hún var með sjálf, sem var þá einhver prjónaskapur eða móðir mín fékk henni eitthvað ,,milli handanna” eins og sagt var. Þá var um að ræða einhverja vinnu úr ull, svo sem að taka ofan af, þ.e. að aðskilja tog og þel, kemba, tvinna og fleira.

            Ég ætla að enda þessa frásögn af dvöl Andreu á bernskuheimili mínu með minningu yngstu systur minnar, Valgerðar Önnu (f. 1925) sem ekki hefur verið eldri en 3-6 ára þegar hún gerðist. Þessi minning systur er það eina sem hún man um Andreu, en stendur samt sem áður ljóslifandi fyrir hugskotssjónum hennar.

Eitt sinn þegar systir mín litla kom í eldhúsið voru þær þar móðir okkar og þessi gamla kona. Hún sat í hnipri á stól föður okkar í eldhúsinu, faldi andlitið í höndum sér og grét. Kannski hefur hún verið að koma frá því að vitja leiðis Péturs sonar sins í Álftártungukirkjugarði frá 1921 og ef til vill í fyrsta sinn. Eins og áður segir var dóttir hennar líka dáin þegar þetta gerðist og hún búin að missa bæði börnin sín.

Þó skrápur Andreu hafi verið þykkur eftir ævilangt mótlæti hefir hún haft sínar mannlegu tilfinningar og ekki óeðlilegt að hafa misst vald á þeim undir þessum kringumstæðum.

            Vorið 1948 flutti ég og stór hluti Álftártungufólks að Gufuá í Borgarhreppi. Stutta bæjarleið frá Gufuá er Eskiholt. Þar bjuggu þá í tvíbýli ásamt konum sínum Finnur og Bjarni Sveinssynir, bræður Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara og voru öll þau systkin listhög og lagin. Bjarni smíðaði t.d. rokka, beislisstengur og svipur svo eitthvað sé nefnt og síðar kemur fram. Fljótt myndaðist gott nágrenni milli þessara bæja og var samgangur milli þeirra mikill.

            Eitt sinn skömmu eftir að Álftártungufólk kom að Gufuá kom Bjarni í Eskiholti þangað, þá heyrði ég hann fara með vísuna: ,,Ég held hún Gróa hafi skó” o.s.frv. Þetta varð til þess að upp í huga minn kom hartnær tuttugu ára, hálfgleymd bernskuminning um gamla konu, sem kom og gisti á æskuheimili mínu í nokkur skipti á árunum um eða rétt fyrir 1930. Fram kom að Bjarni hafði heyrt gamla konu sem hét Andrea fara með þessa vísu þegar hún kom í Eskiholt og gisti þar. Þá runnu atburðirnir ljóslifandi upp í huga minn. Ég segi frá þessu til að sýna að lítið kvæðastef varð til þess að benda mér á sporaslóð þessarar einstæðingskonu að Eskiholti.

Á árunum 1908-1942 bjuggu í Krumshólum í Borgarhreppi hjónin Lára Guðmundsdóttir og Sigurjón Kristjánsson, fluttu þá í Borgarnes og áttu þar heima síðustu æviárin. Meðal barna þeirra var Guðlaug f. 1918. Hún giftist Jóni Úlfarssyni bifreiðastjóra í Borgarnesi. Meðal barna Guðlaugar og Jóns er Lára eiginkona Magnúsar á Álftá.

Þegar Magnús fór að kynnast tengdafólki sínu komst hann að því að tengdamóðir hans átti forláta grip, silfurbúna svipu. Fljótlega komst hann að því að svipuna hafði smíðað Bjarni í Eskiholti en hún hafi verið fermingargjöf til Sigurlaugar frá gamalli konu sem kom stundum í Krumshóla og gisti þar. Andrea hafði hún heitað og brátt kom í ljós að það var sama konan og dvaldi á æskuheimili Magnúsar.

Mér finnst þessa saga svo merkileg að ég varð að segja hana hér.

Sú spurning hlýtur að vakna, hvað varð til þess að bláfátæk kona gaf telpu dýra fermingargjöf árið 1932 þegar heimskreppan herti sem fastast að og Íslendingar fóru ekki varhluta af. Þar hljóta að hafa verið að verki meiri kynni eða tilfinningar sem ekki er vitað um og erfitt getur verið að varpa ljósi á.

            Þá að síðustu um Andreu Andrésdóttur og ég hef ekki komið að í þessari samantekt um hana. Áður segir að hún hafi verið stór og þrekmikil. Bæta má við að hún var sterk sem karlar enda er hún meðal þeirra örfáu kvenna á Íslandi sem stunduðu sjóróðra á opnum bátum á vetrarvertíðum. En það gerði hún bæði undir Jökli og í Bolungarvík. Hún var í Tröð í Kolbeinsstaðahreppi til hausts 1946, fór þá til Stykkishólms og dó þar 1948, 87 ára gömul.

Ólafía Eyjólfsdóttir

1898-1988

Eyjólfur Erlendsson var fæddur 17. ágúst 1864, sennilega í Rjúpnaseli, Hraunhreppi, en þar bjuggu foreldrar hans Margrét Jónsdóttir og Erlendur Þórðarson frá 1859-1871. Rjúpnasel var ábýli sem byggðist líklega fyrir eða um miðja 19. öld og var búið þar til 1883.

Eyjólfur var vinnumaður í Eskiholti Borgarhreppi 1897-1901. Þann 24. febrúar 1901 gekk hann að eiga konu sína Halldóru Jónsdóttur f. 7. sept. 1878. Foreldrar hennar voru Jón Tómasson bóndi Ferjubakka í Borgarhreppi og Guðrún Guðmundsdóttir.

Þá hófst húsmennskuferill ungu hjónanna; Svignaskarði 1901-1902, Laxholti Borgarhreppi 1902-1903, Veiðilæk Þverárhlíð 1903-1904, Ölvaldsstöðum í Borgarhreppi 1904-1905 og Hundastapa Hraunhreppi 1906.

Það sumar byggði Eyjólfur bæ í Álftárstekk í landi Álftár í Hraunhreppi, kallaði bæinn Brautarholt, var þó ávallt kallað Álftárstekkur. Ég vissi ekki um Brautarholtsnafnið fyrr en eftir 1940 enda aldrei notað. Bjó í Álftárstekk frá því um haustið 1906 og til dauðadags. Þá bjuggu á Álftá Guðmundur (yngri) Benediktsson og s.k.h. Kristín Pétursdóttir.

Reikna má með að kynni hafi verið með þeim Eyjólfi og Guðmundi þó aldursmunur þeirra hafi verið mikill því samsveitungar voru þeir nema árin 1897-1906. Við búi á Álftá tók Þorkell sonur Kristínar og Guðmundar 1907. Þótt fátækt hafi verið mikil í búi Halldóru og Eyjólfs björguðu þau sér frá því að hrökklast bæ frá bæ í húsmennsku og auðnaðist að halda barnahópnum saman þó auðvitað hafi börnin farið eins fljótt og þau gátu til snúninga á öðrum bæjum. Öll sín æviár þurftu þau að berjast við fátækt og það sem verra var að alla tíð var litið niður til þeirra þrátt fyrir það að þau væru hversdagshetjur sinnar samtíðar.

Mynd sem er af þeim í Borgfirskum æviskrám II. Hefti bls. 277 sýnir að þau hafa átt ágætan spariklæðnað og lagt metnað í að fara prúðbúin til ljósmyndara. Þetta segir mikla sögu um reisn þeirra í allri fátæktinni.

            Eyjólfur lést 26. maí 1922 hér um bil ári áður en ég fæddist. Það sem ég segi um hann er því það sem ég heyrði foreldra mina segja og þá aðallega föður minn. Samkvæmt því var hann harðsnúinn dugnaðarmaður og hlífði ekki sjálfum sér, sem kom fram m.a. í því að hann batt allra manna þyngstu heybagga. Þá var það siður að menn lánuðu hesta milli bæja í heyband. Það var aðeins einn hestur í eigu föður míns sem hann lánaði Eyjólfi í heyband, það var hann Stóri-Jarpur.  Enginn maður hefði komið þeim böggum til klakks sem hann gat ekki borið. Einnig var gestrisni þeirra viðbrugðið. Sagt er að Eyjólfur hafi gengið í veg fyrir vegfarendur og boðið þeim í bæinn, svo sem geta má nærri, af litlum efnum. Kannski hafa margir látið af hendi rakna til hinna gestrisnu hjóna; kaffi, sykur, mjölhnefa, kringlur eða annað góðgæti í munn barns sem ekki  þekkti slíkan munað.

Snjóaveturinn sem svo er kallaður 1919-1920 var Álftárstekkur nokkurs konar vöruflutningamiðstöð fyrir mjölflutninga. Þegar fór að harðna á dalnum hjá bændum með fóður seinnipart vetrar var mjölvara flutt á sleðum þangað. Þá flutninga sáu ýmsir um þ.á.m. Guðmundur Andrésson Ferjubakka. En bændur sóttu vöruna í Álftárstekk. Eyjólfur lést 26. maí 1922 og hvílir í Álftártungu.

            Halldóra lifði mann sinn í mörg ár og man ég vel eftir henni. Hún dvaldi á Álftá fyrstu árin sem ég man eftir mér a.m.k. öðru hvoru. Há kinnbein, hvasst augnaráð, samanbitnar varir gerðu hinn sterka svip ógleymanlegan. Hún hafði háa og hljómmikla rödd sem barst auðveldlega langar leiðir. Ég ætla að segja frá tveimur bernskuminningum mínum sem tengjast Halldóru og hennar þróttmikla málrómi.

Stutt bæjarleið er á milli Álftár og Álftártungu enda samgangur mikill á milli bæjanna bæði í leik og við störf. Eitt sinn er við Álftártungusystkin vorum í leik á Álftá fengum við að fara upp í svonefnda Bolása á berjamó, en þeir eru alllangt frá bænum. Þá áttu börn ekki úr eins og í dag. Þess vegna varð það að ráði að senda Halldóru upp á hól í túninu og kalla þegar við áttum að koma heim. Við heyrðum köllin og komum heim á tilskyldum tíma. Eftir það sagði ég að Dóra gamla á Álftá gæti kallað svo hátt að heyrðist alla leið upp í Bolása og þótti mikið til koma.

Það sama var uppi á teningnum þegar hún kom til kirkjunnar. Þá naut sín svo vel hinn sterki rómur að varla heyrðist í öðru söngfólki. Einn góðviðrissunnudag að sumarlagi var messað í Álftártungukirkju. Fólk þyrptist að úr öllum áttum, sumir ríðandi, aðrir gangandi. Þegar Álftárfólk nálgaðist og í ljós kom að Halldóra var með fóru tvíburasystur mínar, elstar okkar systkinanna,  þær Ella (látin) og Gróa að tala um það við móður okkur, að með einhverjum ráðum yrði að afstýra því að Dóra gamla syngi í kirkjunni, hún syngi svo hátt að ekki heyrðist í neinum öðrum og svo syngi hún svo rammfalskt að ömurlegt væri á að heyra. Þá sagði móðir okkar þessi orð sem ég fullyrði að ég man rétt: ,,Látið ekki nokkurn lifandi mann heyra þetta (þetta var orðtak hennar ef henni fannst eitthvað fjarstæðukennt) það mega allir syngja í kirkjunni. Svo er Dóra alls ekki svo fölsk þegar hún syngur, kannski stundum pínulítið hjáróma”. Ekki var meira um þetta rætt.

Eftir lát Eyjólfs og heimilið leystist upp fór Halldóra að Saurum. Þaðan að Staðarhrauni til prestshjónanna séra Stefáns Jónssonar og Jóhönnu Magnúsdóttur. Hún fór með þeim til Reykjavíkur 1927 þegar Stefán hætti prestskap. Dvaldi eftir það á ýmsum bæjum í Hraunhreppi, aðallega á Álftá. Mörg síðustu æviárin var hún í skjóli Margrétar dóttur sinnar og tengdasonur að Læk í Holtum. Hún lést 29. júní 1961 og var jörðuð í Álftártungu við hlið eiginmanns og barna.

            Nú ætla ég að segja frá börnum þeirra Halldóru og Eyjólfs eftir því sem ég get.

  1. Ólafía f. 1. sept. 1898. Segir nánar frá henni síðar.
  2. Guðrún f. 27. apríl 1900, d. 18 ára. Þar sem ég veit ekki á hvaða tíma árs hún dó kemur spánska veikin upp í hugann.
  3. Jón Tómasson f. 26. jan. 1903, d. 22. nóv 1922. Vorið 1922 gerðist hann vinnumaður hjá föður mínum, Guðmundi í Álftártungu. Svo sorglega vildi til að hann lést í langri leit að tryppum sem ekki fundust í fjallleitum um haustið. Þegar leið á daginn versnaði veðrið og færð spilltist. Pétur Þorbergsson, Syðri-Hraundal sem var með Jóni í hinni örlagaríku ferð taldi að hann hefði verið látinn þegar hann yfirgaf hann og bjargaði Pétur sér við illan leik og óvenjulegt harðfylgi í leitarhús ca 5 km leið sem hefur ábyggilega verið löng í kafaldshríð og vaxandi ófærð. Læknir sem kom á staðinn úrskurðaði að hjartabilun hefði orsakað hið ótímabæra dauðsfall. Án efa hefir þetta slys verið foreldrum mínum þungt í huga langan tíma og lítið var talað um það á æskuheimili mínu og talinu fljótlega eytt ef upp kom. Þó það lengi frásögn mína að óþörfu langar mig að segja frá eftirfarandi atviki. Hausið 1937 þegar ég var 14 ára fór ég í I. og II. leit. Vegna ungs aldurs var mér ekki ætlað að fara í III. leit. Maður sem ætlaði að fara í leitina brást á síðustu stundu af óviðráðanlegum ástæðum. Af heilsufarslegum ástæðum gat faðir minn ekki farið í þessa leit enda orðinn 64 ára þegar þessir atburðir gerðust. Það varð því úr að ég fór þvert um geð foreldra minna, sérstaklega móður minnar. Um daginn versnaði verðrið, gerði og gekk á með dimmum útsynningséljum en birti sæmilega á milli en færð versnaði ekki að mun. Fjórir leitarmenn af tólf, og var ég einn þeirra, fórum í svonefnt innfjall, hinir gengu til byggða. Þetta þýddi að fyrrnefndi hópurinn kom 5-6 klukkustundum seinna til byggða en hinir við eðlilegar aðstæður. Í þetta sinn náðum við ekki til fjallbæja fyrr en klukkan 10-11 um kvöldið, tveimur til þremur klukkustundum seinna til byggða en eðlilegt var. Enda var þá farið að skipuleggja leit að okkur. Þegar ég kom heim daginn eftir og móðir mín heilsaði mér með þeim orðum að hún hafi verið orðin hrædd um að reiðarslagið frá 1922 væri að endurtaka sig. Þá skyldist mér unglingnum á fimmtánda ári hvað þau sár sem mynduðust í hugskoti foreldra minna haustið 1922 voru djúp og seingróin.
  4. Margrét Sigríður, f. 3. okt. 1904. Maður hennar var Sigfús Davíðsson bóndi á Læk í Holtum. Mér er ferill Margrétar ókunnur áður en hún gerðist húsfreyja á Læk en þar bjó hún í mörg ár. Margrét er ein af þeim konum sem gleymast ekki, og langar mig að segja sögu af þeim kynnum. Einhvern tíma á árunum milli 1960 og 1970, þegar ferðir bænda milli héraða og hétu bændaferðir stóðu sem hæst, fóru bændur úr Holtum í Rangárvallasýslu, í bændaferð um Snæfellsnes og Borgarfjörð. Aðalveislan sem þeim var haldin í boði Borgfirðinga var í Samvinnuskólanum sem þá var kominn að Bifröst. Við hjónin sátum þessa veislu. Á þeim tíma þótti sjálfsagt að allir reyktu í slíkum veislum, hvort þeir voru reikingamenn eða ekki. Kona mín, Rúna, þoldi illa slíkt reykmettað umhverfi eins og þá skapaðist, varð óglatt og við gengum út. Á eftir okkur kom fasmikil kona og grennslaðist um hvort alvara væri á ferð vegna brotthvarfs okkar. Þegar svo var ekki tókum við tal saman og þá kom í ljós að þessi kona var Margrét á Læk. Þegar fram kom á hvaða bæ við bjuggum vissi hún hvaðan við værum og hverra manna. Sérstaklega var hún þakklát fyrir að hafa hitt mig á þennan óvænta hátt, til að láta í ljósi hvað faðir minn hefði verið góður við móður sína og sýnt henni mikinn stuðning þegar Jón bróðir Margrétar lést. Þegar við gengum út var talsmaður Holtamanna að byrja ræðu sína. Þess vegna spurði ég Margréti hvort henni þætti ekki verra að missa af ræðumanni þeirra.  Hún hélt nú ekki „Ég hef heyrt nóg af rausinu í honum Ólafi í Hellatúni”. Ég gat ekki skynjað að þetta væri sagt með lítilsvirðingu.
  5. Svava f. 18. nóv. 1906. Við fráfall Eyjólfs fór Svava að Stóra-Kálfalæk til Þorbjargar Ármannsdóttur ekkju og sonar hennar Jóns Oddssonar. Vinnukona þar til dauðadags 14. mars 1972. Talin bústýra þar á árunum 1947-1953. Svava gekk ekki heil til skógar, hvorki andlega né líkamlega. Fólk sem ég hef talað við og þekkti Svövu betur en ég, telur að andlegar takmarkanir hafi alls ekki verið svo miklar, heldur hafi hennar samtíð litið svo á. Hún var beinskeitt í svörum eins og eftirfarandi saga segir og ég get ekki stillt mig um að segja. Guðjón bóndi í Lækjarbug (faðir Guðrúnar í Mýrdal) var glettinn og spaugsamur. Einhvern tíma kom hann að Kálfalæk og sló á létta strengi við Svövu og talaði um að hún væri óvenju sver og fyrirferðamikil. „Ertu kannski ólétt Svava?” spurði hann. „Þér ætti  þá að vera kunnugt um það” var hið skelegga svar.
  6. Jón Rósmundur f. 17. sept. 1909. Var ætíð nefndur Rósmundur eða Rósi á Mýrunum en í Borgfirskum æviskrám er gefið til kynna að Jónsnafnið hafi verið notað. Mér hefur ekki tekist að fá upplýsingar um hvert hann fór þegar faðir hans dó. Hann var á ýmsum bæjum í Hraun- og Kolbeinsstaðarhreppum þar til hann fluttist til Keflavíkur um eða jafnvel eftir 1940. Hann var hesthneigður og átti góða hesta a.m.k. framan af ævinni. Var með kappreiðahesta eftir að hann fór af Mýrunum, þ.á.m. hlaupahestinn Kolbak sem var sigursæll kappreiðahestur á kappreiðum hjá Fáki í Reykjavík og víðar á árunum eftir 1944.
  7. Oddný Guðríður f. 1. maí 1911. Ekki hef ég getað fengið upplýsingar hvert hún fór þegar faðir hennar dó. Hún var lengst af hjá systur sinni á Læk.
  8. Erlendur f. 14. sept. 1912, d. 23 sept. 1913.
  9. Hallgrímur f. 22. febr. 1914. Hann fór með móður sinni að Saurum 1922. Síðan með henni að Staðarhrauni. Árið 1927 þegar hún fór til Reykjavíkur fór hann að Saurum með Óskari Eggertssyni sem flutti frá Staðarhrauni að Saurum 1927. Þá var hann kominn á ný í Álftártungusókn og þaðan fermdist hann 1928. Gróa systir mín, sem þá var 11 ára gömul, man eftir því að séra Einar Friðgeirsson á Borg, kom á tal við móður okkar og hældi Hallgrími fyrir greinargóð svör við fermingarundirbúninginn. Kona hans var Þórdís Lilja Davíðsdóttir, systir Sigfúsar eiginmanns Margrétar systur hans. Bóndi í Akbraut í Holtum. Fluttist til Keflavíkur, lést þar af slysförum stuttu síðar með þeim hætti að hann féll af vörubílspalli.
  10. Gunnar Helgi f. 29. okt. 1915. Ólst upp í Hjörsey, fór ungur til Keflavíkur. Um feril hans að öðru leyti veit ég ekki. Ég heyrði aldrei talað um hann í æsku minni.
  11. Þorkell Ragnar f. 23. maí 1918. Fór að Stóra-Kálfalæk. Hann gekk ekki heill til skógar hvað andlega heilsu varðaði. Ég hef heyrt að Svava systir hans hafi farið með Þorkeli til að ala önn fyrir honum og e.t.v. aldrei beðið þess bætur. Hann fór á málleysingjaskóla og lærði að lesa og skrifa að einhverju leyti. Hefði Þorkell fæðst í dag hefði hann gengið í skóla með öðrum börnum.
  12. Magnea Guðrún f. 3. okt. 1920, d. 14. ágúst 1922. Hún fór með móður sinni að Saurum 1922. Svo sorglega vildi til að hún féll í opna safnþró frá fjósi og drukknaði. Þetta slys hefur reynt mikið á foreldra mína því sundum töluðu þau um það á viðkvæman hátt og með miklum hlýleika gagnvart Halldóru.

      Það hlýtur að teljast til mikilla afreka fyrir bláfátæk hjón á þessum tíma að eignast og ala upp tólf börn sem öll náðu fullorðinsaldri utan eitt sem dó ársgamalt og annað sem dó tveggja ára af slysförum.

Þar sem ég tel Ólafíu Eyjólfsdóttur vera aðalsöguhetju þessarar samantektar ætla ég að enda þessa frásögn með að segja nánar frá henni. Samkvæmt því sem segir í Borgfirskum æviskrám VIII. bindi bls. 122-123 hefur hún verið vinnukona á Álftá í Hraunhreppi til 1921 og er þar þá ásamt unnusta sínum Pétri Péturssyni sem er þar vinnumaður og hún barnshafandi.

Hann veiktist um vorið og andaðist 9. maí 1921. Ég heyrði ætíð talað um að banabein hans hafi verið taugaveiki. Er það með ólíkindum því Álftá var mikið myndar- og þrifnaðarheimili með betra vatnsbóli en almennt tíðkuðust í sveitum landsins á þessum tíma.

Ég heyrði alltaf talað um Pétur á Álftá sem mikinn ágætismann og um var talað að mikill mannskaði hafi átt sér stað við fráfall hans.

Mig langar að segja eina sögu sem Magnús á Álftá sagði mér og sýnir vel hvern mann Pétur hafði að geyma.

Þegar Pétur, faðir Péturs á Álftá dvaldi síðustu æviár sín sem öryrki á framfærslu Kolbeinsstaðahrepps í Krossholti í sömu sveit fór Benedikt bóndi í Krossholti fram á hærri framfærslustyrk fyrir Pétur. Sveitarstjórnin vildi ekki hækka meðlagsgreiðslurnar og fór að leita að nýjum dvalarstað fyrir Pétur fyrir sama gjald. Þá tók Pétur á Álftá í taumana og borgaði úr eigin vasa þann mismun sem Benedikt vildi fá svo faðir sinn þyrfti ekki að hrekjast frá Krossholti, því þar leið honum vel og þar vildi hann vera.

Eftir lát Péturs fór Ólafía að Mýrdal og þar var sonur hennar Pétur fæddur 21. ágúst 1921.

Í æsku minni heyrði ég sagt að tildrög þess að hún fór þangað hafi verið þau að þegar Pétur veiktist hafi hann skrifað eða komið þeim skilaboðum á annan hátt til hjónanna í Mýrdal, Ingibjargar Guðmundsdóttur og Þórðar Gíslasonar að taka Ólafíu að sér ef hann lifði veikindin ekki af. Þegar ég fór að grennslast fyrir um fólkið í Álftárstekk í vetur heyrði ég tvær orsakir um brotthvarf hennar frá Álftá sem ég tel að séu rangar. Önnur var sú að Hraunhreppingar hefðu viljað losna við Ólafíu og sent hana á framfærslusveit sína. Þessi saga er ótrúverðug vegna þess að Ólafía átti heima í Hraunhreppi frá 8 ára aldri. Hin var sú að Álftárhjónin Ragnheiður og Þorkell hafi viljað fyrir hvern mun losna við hana. Mér finnst þessi orsök svo ljót að ég get varla kinnroðalaust fest hana á blað enda voru Álftárhjón mikið mannkostafólk og ég trúi ekki svona löguðu um þau.

Ólafía var í Mýrdal til 1930. Fluttist þá til Reykjavíkur, vann þar ýmis störf t.d. á kaffistofu Landsmiðjunnar, rak matsölu og stundaði vélprjón.

Magnús sonur hennar með Þórði Þorsteini Guðmundssyni, Grund Kolbeinsstaðahreppi, var fæddur 26. apríl 1932.

Þegar fréttist í sveitinni að barn var í vændum hjá Ólafíu og hver barnsfaðirinn væri töluðu þær um það móðir mín og stjúpamma Þórdís að það riði ekki við einteyming ólánið hjá Ólafíu að lenda í því að eiga barn með þessum ræfli. Þó þeim konunum í Álftártungu hafi fundist þetta þá var Þorsteini margt vel gefið, vel látinn mjólkurbílstjóri á þeim tíma, laginn viðgerðarmaður sem kom sér vel í upphafi vélaaldar en hann var drykkfelldur meira en góðu hófi gegndi og þjónaði konungi Bakkusi af meiri þjónustulund og samviskusemi en ég hef síðar kynnst. Ekkert veit ég um lífshlaup þessa sonar Ólafíu en veit að hann hefur valdið henni bæði gráti og gleði. Kona hans var dóttir Kristjáns Þórólfssonar frá Straumfirði en hann bjargaði með ótrúlegri karlmennsku 19 ára gamall, eina manninum, sem komst af þegar franska hafrannsóknarskipið Pourqua pas  fórst út af Straumfirði í september 1936.

Þegar Ólafía fór frá Mýrdal 1930, eins og áður segir, varð Pétur sonur hennar þar eftir, ólst þar upp við mikið dálæti af hálfu fósturforeldranna og alls heimilisfólksins.

Júlía systir mín heyrði samtal fólks um það leyti sem Pétur í Mýrdal fór að heiman í skóla. Þetta fólk var hissa á því að Mýrdalshjónin skyldu kosta hann í skóla því fyrir honum mundi ekki liggja annað en að verða vinnumaður á einhverjum bænum eða e.t.v. hokra á einhverju horkotinu. Á þetta tal heyrði Guðrún Guðjónsdóttir frá Lækjarbug, sem þá var orðin eða um það leyti að verða húsfreyja í Mýrdal.

Hún þaggaði þetta tal niður með þeim orðum að þeim peningum sem færu í að mennta þennan gáfupilt væri áreiðanlega ekki á glæ kastað.

Ólafía lést 28. okt. 1988. Það hefir verið í nóvember, sem hún var jarðsett í kirkjugarðinum í Álftártungu. Tilefni þess að ég var við jarðarförina var að ég var í hópi fólks sem söng við útförina. Ekki man ég lengur orð prestsins sem jarðsöng eða hver hann var. Hugur minn reikaði 67 ár aftur í tímann. Ég sá fyrir mér harm barnshafandi ungrar konu sem stóð yfir moldum unnusta síns á því herrans ári 1921. Nú var þessi sama kona í grafarrúmi sínu á sömu fjölunum, í sömu kirkjunni og beið þess að verða lögð til hinstu hvílu við hlið unnusta síns sem búin var að bíða eftir henni síðan hin grimmu örlög tóku í taumana og kipptu honum úr hópi lifenda.

Synir hennar hafa sýnt minningu móður sinnar mikla ræktarsemi að uppfylla þessa ósk hennar. Þó mér finnist í dag að meira hafi mætt á við undirbúning jarðarfarar Ólafíu þeim syni hennar sem hún bar undir belti árið 1921, honum Pétri Péturssyni frá Mýrdal forstjóra og alþingismanns í Reykjavík.

Kistan var ekki látin síga í gröfina eins og þá var siður vegna slæmrar aðstöðu fyrir fólkið að ganga fram hjá henni.

Þegar búið var að kasta rekum og syngja síðasta versið í útfararsálmi Hallgríms Péturssonar Um dauðans óvissa tíma ,,Ég lifi í Jesú nafni í Jesú nafni ég dey” dró ég mig í hlé undir norðurhlið kirkjunnar. Ég var í fjarrænum hugarheimi. Ég hugsaði til foreldra minna sem hvíla í suðvesturhorni kirkjugarðsins.

Ég minntist þess að ætíð töluðu þau með virðingu um fólkið frá Álftárstekk, andstætt við ýmsa aðra. Ég óskaði að geta sent út í víðernið kveðju milli hinna gömlu nágranna. Ég hrökk upp af hugsunum mínum við það að til mín kom maður og spyr hvort ég sé kunnugur á staðnum. Þegar upp kom að svo væri sagðist hann vera rammáttavilltur. Ég hef samt á tilfinningunni sagði hann að kistan snúi öfugt við gröfina og biður mig um að ganga úr skugga um það. Við gengum að kistunni og ég sá að svo væri. Ég gékk til grafarmanna, sem voru heimamenn, og líkmanna. Ég benti þeim á þetta, og þeir sögðust mundu snúa kistunni áður en hún yrði látin síga í gröfina. Nú má vel vera að heimamenn hefðu athugað þetta áður en það var um seinan. Við eftirgrennslan mína kom í ljós að þessi athuguli maður mundi vera sonur Margrétar á Læk. Um nafn hans fékk ég ekki upplýsingar. Ég þakka það þessum manni að hún Ólafía frá Álftárstekk snýr ásjónunni til sömu áttar og aðrir á upprisudegi.

Maí 2008

Árni Guðmundsson frá Beigalda