Ávarp flutt þann 3. júní 1985 þegar kirkjan var endurhelguð eftir gagngerar endurbætur. Birt í Kaupfélagsritinu 1. tbl. 23. árg. 1986.

Góðir kirkjugestir!
Núna, þegar viðgerð á Álftártungukirkju er orðin að veruleika, sé ég ástæðu til að segja nokkur orð. Ég ætla ekki að þessu sinni að rekja sögu hennar, en gaman væri, þó seinna yrði, að fást við það viðfangsefni. Nú á þessari stundu eru mér efst í huga ýmsar bernskuminningar, sem mér eru kærar og tengdar eru kirkjunni.
Það fyrsta, sem kemur í hugann frá bernskudögum mínum, er hvað fólkið gekk um kirkjuna með mikilli lotningu og virðingu, sem kom fram í því meðal annars að karlmenn tóku ofan höfuðföt sín, þegar gengið var um kirkju, hvort heldur var á virkum degi eða helgum. Og ekki leiðst okkur krökkunum að hafa í frammi nein ólæti eða ærsl, hvorki í kirkju eða kirkjugarði.
Ég sé í anda fólk þyrpast til kirkju þriðja hvern helgidag gangandi á vetrardegi og þá að minnsta kosti einn frá hverjum bæ. Ég sé fyrir mér fólk á hásumardegi koma ríðandi til kirkjunnar frá Hraundal niður með Veitu, frá Grímsstöðum, Grenjum, Hvítsstöðum, Háhóli og Valshamri, hvern hópinn eftir annan birtast á Skjólagötunni, neðan frá vegi Arnarstapa-, Hrafnkelsstaða- og Saurafólk, frá Álftá beint yfir sundin milli Álftár og Álftártungu og frá Álftártungukoti nánast sem heimafólk. Eru þá upp taldir allir bæir í sókninni, sem í byggð voru, þegar ég man fyrst eftir mér, en síðan komu til sögunnar Árbær, sem nú er kominn í eyði, og Brúarland, þar sem búið er myndarbúi.
Ávallt fór kirkjufólk úr hlífðarfötum fyrir utan túngarð, kom svo prúðbúið til kirkjunnar. Í minningunni er bjart yfir þessum sumardögum bernsku minnar, og ég man ekki betur en þá hafi skinið sól um veröld alla, sem ég taldi á þessum árum að næði ekki lengra en að ystu sólarrönd.
Einn var sá siður hér í kirkjunni, sem hélst að nokkru fram á mín fullorðinsár og enn er tíðkaður við kirkjubrúðkaup, en það var sá ævaforni siður að karlmenn settust karlmannamegin, þ.e. hægra megin, þegar í kirkjuna er komið, en konur vinstra megin. Bændurnir hér í sókninni settust ekki hjá konum sínum eða húsfreyjurnar hjá mönnum sínum, og auðvitað gerðum við strákarnir sem hinir virðulegu bændur og settumst ekki stelpnamegin í kirkjunni. Svo mun þetta hafa verið frá ómunatíð og hver kynslóð tekið við af annarri til viðhalds hinum ævaforna sið.
Ef litla kirkjan okkar fengi mál, þá hefði hún frá mörgu að segja. Í gleði og sorg hefur hún þjónað trúarþörf fólksins. Hér var skírt, hér var fermt og gift. Hér voru örþreytt gamalmenni kvödd hinstu kveðju, þegar dauðinn er jafn sjálfsagður og fæðingin og þegar svo ber undir gleðiefni á sinn hátt, þótt víðkvæma strengi snerti. Ég minnist líka kveðjustunda ungmenna, þar sem sorgin var svo mikil hjá nánustu ástvinum, að öll sund virtust lokuð og öll sóknin var þar þátttakandi í.
Margs er að minnast frá bernskudögum mínum. Ég heyri föður minn hringja kirkjuklukkunum til helgra tíða. Ég heyri og sé hann fyrir mér lesa bænina með lotningu og tilbeiðslu í svip og með þakklátum huga fyrir allt, sem lífið hafði gefið honum. Ég heyri móður mína syngja sálmalögin með sinni háu og björtu sópranrödd og þeirri tilfinningu, sem helgi staðarins og stundarinnar gaf tilefni til.
Þar sem ég er farinn að minnast á söng, er ekki úr vegi að fara nokkrum orðum um kirkjuorgelið, sem keypt var árið 1906 og verður því áttatíu ára á næsta ári. Áður var til minna orgel frá því nokkru fyrir aldamót, sem selt var Þorleifi Erlendssyni á Jarðlangsstöðum, þegar hið nýja kom til sögunnar. Organisti var frá fyrstu tíð Hallgrímur á Grímsstöðum, uns börn hans tóku við hvert af öðru, Sigríður, Soffía og Níels. Það voru saknaðar- og kveðjutónar, sem bárust um kirkjuna í fyrsta sinn sem orgelið var notað, en það var við útför Sigríðar Sveinsdóttur á Grímsstöðum, móður Hallgríms og þeirra merku systkina.
Álftártungukirkja hefur átt því láni að fagna, að hér í sókn hefur ávallt verið gott söngfólk til aðstoðar við kirkjulegar athafnir, og minnist ég þar Grímsstaðasystkina, móður minnar og systkina hennar, meðan þessa fólks naut við í sókninni, og fjölmargra annarra, sem of langt mál yrði upp að telja.
Ein mín dýrmætasta bernskuminning er tengd þessu hljóðfæri, sem í mínum augum var þá bæði voldugt og stórt. Þá var forsöngvari, eins og þá var kallað og venja var frá þeim tíma þegar hljóðfæralaust var í kirkjunum, Soffía Hallgrímsdóttir frá Grímsstöðum, þá húsfreyja á Valshamri. Svo bar til eftir messu, að Soffía fór að spila og láta systur mínar, þær, sem eldri eru en ég, syngja. Það tel ég víst, að þetta hafi verið hinn snotrast telpnakór. Ég vildi ekki láta mitt eftir liggja í söngnum og söng allt hvað af tók og hugsaði um það eitt að hafa sem hæst. En vegna þess að ég var ekki með öllu lagviss á þessum árum, vildu systur mínar koma mér í burtu, en það varð til þess að ég lagðist út í horn og hafði hærra en nokkru sinni fyrr. Nú skyldi láta til skarar skríða og koma hávaðaseggnum út. En þá var það, að Soffía kom til mín, tók í hendina á mér, leiddi mig að orgelinu og sagði eitthvað á þessa leið: „Við skulum lofa honum Árna litla að standa hérna hjá mér. Ég á ekki von á að hann geri okkur óleik.“ Ég brást ekki heldur trausti hinnar góðu konu og gerði ekki tilraun til meiri sönglistar í það sinn, heldur stóð hljóður við hné hennar og hlustaði hugfanginn á hljóma hins volduga hljóðfæris. Aldrei síðar á lífsleiðinni hef ég hlýtt á hljóðfæraleik, sem mér hefur fundist meira til koma, og aldrei hefur neinn konsertmeistari laðað fegurri tóna úr hljóðfæri sínu eða sem hafa látið mér betur í eyrum en hún Soffía á Valshamri gerði þennan sólheita sumardag á litla kirkjuorgelið í Álftártungukirkju. Þessi hartnær 60 ára bernskuminning er mér kærari en nokkur önnur.
Árið 1924 brunnu bæjarhús hér í Álftártungu síðla sumars. Foreldrar mínar stóðu þá uppi með ung börn, allslaus og án húsaskjóls og haust og vetur í nánd. Þá var fengið leyfi æðstu kirkjuyfirvalda til þess að fjölskyldan fengi að búa í kirkjunni á meðan bráðabirgðaskýli yrði komið upp, sem fjölskyldan hefðist svo við í um veturinn. Oft minntust foreldrar mínir þess með þakklátum huga, þegar þau bjuggu í kirkjunni. Það má því segja með fullri vissu, að kirkjan hefur veitt skjól þeim sem þurft og þegið hafa, jafnt í veraldlegum nauðum sem í trúarlegum efnum.
Ég hef hér að framan minnst á nokkrar kærar bernskuminningar mínar, en þó er það ekki ástæðan til þess að ég óskaði eftir að taka til máls á þessari hátíðastundu, heldur sú tilfinning, sem ég skynjaði og drakk í mig með móðurmjólkinni sem ungur drengur og efldist og styrktist í skjóli góðra foreldra við ágæt uppeldisskilyrði. Þessi trúartilfinning eða skynjun verður seinna að trúarskoðun eða skilningi, sem vaxið hefur og þroskast eftir því sem árunum hefur fjölgað að baki og lífsreynslan aukist. Einar Benediktsson skáld hefur með örfáum orðum komið þessari skoðun á framfæri á svo meistaralegan hátt að lengra verður ekki komist í meitlun orðs og hugsunar, þar sem hann segir í kvæði sínu Hnattasund:
Hafknörrinn glæsti og fjörunnar flak
fljóta bæði. Trú þú og vak.
Marmarans höll er sem moldarhrúga.
Musteri Guðs eru hjörtun, sem trúa,
þó hafi þau ei yfir höfði þak.
Það er þessi skoðun, sem hefur orðið þess valdandi, að hvergi hefur mér liðið betur við kirkjulegar athafnir, hvergi hugsað fallegar, og hvergi hefur mér fundist ég standa nær sjálfu almættinu en einmitt í litlu, fátæklegu kirkjunni heima í Álftártungu.
Að síðustu leyfi ég mér fyrir hönd burtfluttra sóknarbarna, hvort sem þau hafa flutt um langan veg eða skamman, að þakka það framtak, sem hér hefur verið að verki. Hér hefur Grettistaki verið lyft, sem því aðeins var mögulegt að til kom sameiginlegt átak heimamanna, burtfluttra sóknarbarna og síðast en ekki síst húsafriðunarnefndar, sem fékk mikinn áhuga á að gera við kirkjuna og halda henni við í upphaflegri mynd. Þessi áhugi húsafriðunarnefndar varð, ásamt álitlegri peningaupphæð, til þess að auka við og ýta undir þann áhuga, sem fyrir var húsinu til verndar.
Ég óska Álftártungusókn til hamingju með það sem áunnist hefur, í þeirri von, að samtök heimamanna og burtfluttra muni á ókominni tíð haldast til viðhalds hinu gamla kirkjuhúsi, sem vitnar um samtök og stórhug fátækrar og mjög fámennrar sóknar um miðja síðustu öld.
Ég óska þess af heilum hug, að allir þeir, sem hingað leggja leið sína til messu eða annarra kirkjulegra athafna, muni hér hugsa eitthvað háleitt, fagurt og gott og ganga svo héðan út sem meiri og betri menn.