Birtist í ritinu Úr byggðum Borgarfjarðar, útg. af Búnaðarsambandi Borgarfjarðar árið 1993.

Fyrstu öruggu heimildir um kirkju í Álftártungu er að finna í kirknatali Páls biskups Jónssonar frá um 1200. Kirkjan var Maríukirkja.
Næst kemur Álftártungukirkja til sögunnar í Sturlungasögu, þegar óaldarflokkar Sturlungaaldar riðu um héruð og virtu kirkjugrið að vettugi. Börðust þeir í kirkjugarði, og féllu tveir menn, en morguninn eftir voru þeir sem í kirkju flýðu dregnir út.
Álftártungukirkja var annexía frá Staðarhrauni þar til hún var lögð til Borgar með lögum 1880, og hefur það haldist síðan. Sóknin nær yfir ofanverðan Álftaneshrepp og 4 bæi úr Hraunhrepp: Álftá, Brúarland, Hrafnkelsstaði og Saura.
Til er greinargóð lýsing á Álftártungukirkju, óársett, geymd í Þjóðskjalasafni, undirrituð af H. Helgasyni og má ætla að lýsingin sé á þeirri kirkju sem byggð var 1795 eða 1796 úr viðum Reykjavíkurkirkju gömlu.
Árið 1873 var ný kirkja byggð, að öllu leyti úr nýjum viðum, að því er virðist. Smiður var Guðni bóndi Jónsson á Valshamri.
Í vísitasíu frá 1891 segir: „Er álitin í bezta standi“. Árið 1958 var kirkjan komin í laklegt ástand og 1969 var svo komið að ekki var talið viðunandi. Haustið 1983 fór prófastur með Herði Ágústssyni listmálara og nokkrum öðrum að skoða kirkjuna. Taldi Hörður að kirkjan hefði byggingarsögulegt gildi og lagði til að hún yrði varðveitt.
Síðla árs 1984, þegar kirkjan var 111 ára, var hafist handa um viðgerð á henni. Engu var breytt frá upphaflegri gerð hennar, sem hafði haldist að öllu leyti frá smíðaárinu 1873 að öðru en því að árið 1905 eða 1906 var hún járnklædd að utan og hið bikaða timburverk leyst af hólmi. Smiðir við endurbygginguna voru þeir Guðmundur Árnason, Beigalda og Óskar Sverrisson, Borgarnesi.
Stærð kirkjunnar (innmál) er 7.11 X 4.50 metrar. Veggirnir eru með lituðum panelpappa, límdum á striga. Hvelfing er í kirkjunni með ferningslaga reitum.
Fullyrða má að Álftártungukirkja hafi verið fátæk að veraldlegum auði. Jarðeign hennar var 10 hundruð í heimalandi (1354).
Gömul altaristafla úr Álftártungukirkju er í vörslu Árbæjarkirkju, talin íslensk að gerð. Nokkrir gripir eru í Þjóðminjasafni.
5. maí 1974 lýsir Þór Magnússon þjóðminjavörður gripum kirkjunnar svo: „Kaleikur og patína ensk, gott verk, sex tungur á stétt, grafin mynd af Kristi með ríkisepli og facies Domini (andlit Drottins) á patínu. Hnúður sexstrendur. Þetta allt að hluta algyllt og skálin gyllt innan. Oblátudósir úr silfri, gyltar innan, sænskar, stimplaðar P.I. LUNDBERG U3. Grafið á: Alptartungekirke i Myre-syssel 1832. Vel grafið (erlendis greinilega). Patínudúkur baldýraður. Skarbítur úr járni. Klukkur tvær. Önnur frá 1722 með áletrun: HER IOEN HALDORSON / PROVST OG SOGNEPREST / TIL HECTTERDAHL VDI I ISLAND ANNO 1722 (eða: Jón Halldórsson prófastur og sóknarprestur í Hítardal á Íslandi árið 1722). Hin virðist gömul og mun eldri.“
Engin altaristafla var í kirkjunni 1912-1943, að í kirkjuna kom tafla sem Ásgeir Bjarnþórsson listmálari hafði málað. Árið 1906 var sænskt harmoníumorgel keypt í kirkjuna, að nokkru leyti fyrir frjáls samskot sóknarmanna. Orgelið er notað enn í dag og er hljómgott og í góðu lagi, en hlýtur samt innan langs tíma að teljast merkur safngripur.