9 Fjárhagur

Í þessum kafla verða birtar niðurstöðutölur ársreikninga sambandsins í þeim tilgangi að lesendur sjái hvernig Hrs. V. hefur staðið fjárhagslega á hverjum tíma.

Um áramót 1968-1969 er að sjá að hestakaupasjóðsreikningur, sem fjármagnaði stóðhestakaup til þess tíma hafi verið lagður niður og stóðhestakaup fjármögnuð af rekstrarreikningi eftir það.  Þó í fundargerðum séu árlega birtar niðurstöðutölur ársreikninga er þar ekkert skráð um þessar breytingar á reikningshaldinu.  Sjóða- og höfuðbækur Hrs. V. eru glataðar frá þessum tíma en þar er ef til vill að finna skýringar á þessum breytingum reikningshaldsins.

Þó ekki sé farið út í nákvæmara yfirlit á reikningum og fjármálum Hrs. V. vona ég að þeir sem hafa áhuga á fjárhagslegri afkomu Hrs. V. í gegnum árin, muni fá spurningum sínum að nokkru svarað með þessu yfirliti.  Við lok þessa tímabils sem spannar 40 ára sögu þess frá 31. okt. 1964 til 31. okt. 2004 er rétt að geta þess að handbært fé samtakanna er kr. 5.499.149.00 sem hlýtur að teljast gott hjá félagi sem velti ekki meiri fjármunum en hér um ræðir.

Hrs. V. var, sem öðrum hrossaræktarsamböndum þröngur stakkur skorinn til stóðhestakaupa vegna fjárhagastöðu þeirra þar til stofnverndarsjóður íslenska hestakynsins var stofnaður.  Þó ekki hafi allir verið sammála um þau markmið sem sett voru til fjármögnunar hans, þá bætti hann úr fjármagnsþörf hrossaræktarsambandanna og eftir að hann kom til sögunnar hafa þau aldrei þurft að verða af stóðhestakaupum vegna fjárskorts.