7 Stofnun Hrossaræktarsambands Íslands

Þann 24. apríl 1971 var stofnfundur Hrossaræktarsambands Íslands haldinn í Borgarnesi í boði Hrs. V.  Segja má að Borgfirðingar eða Vestlendingar hafi tekið virkan þátt í að koma þeim samtökum á.  Þorkell Bjarnason, Guðmundur Pétursson Gullberastöðum og Leifur Jóhannesson Stykkishólmi höfðu fyrir stofnfundinn samið uppkast að samþykktum fyrir væntanlegt landssamband hrossaræktarsambandanna og var það lagauppkast samþykkt án breytinga og athugasemda með öllum greiddum atkvæðum á stofnfundi samtakanna.  Samtökin sem hlutu nafnið Hrossaræktarsamband Ísland hafa starfað síðan með þeim hætti að hrossaræktarsamböndin sem mynda landssamtökin skiptast á að hafa stjórn landsambandsins með höndum eitt ár í senn og gengur starfið réttsælis í kringum landið og tekur hvert samband upp starfið að nýju þegar hringnum um landið er náð.  Þessi tilhögun var tekin upp strax og hélst þar til Félag hrossabænda og Hrossaræktarsamband Íslands voru sameinuð á aðalfundi þessara samtaka 13. nóv. 1997 og hlutu nafnið Félag hrossbænda.  Þar sem Hrs. V. og Félag hrossabænda á Vesturlandi hafa ekki enn sameinast hafa Vestlendingar aðeins rétt á að senda tvo fulltrúa á aðalfund þessara samtaka með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar.