Eftir að Ófeigur 818 frá Hvanneyri fékk mjög góðan kynbótadóm sem einstaklingur á landsmótinu á Vindheimamelum 1974 varð hann strax eftirsóttasti kynbótahestur sambandsins og áhugi fyrir honum jókst að miklum mun eftir mjög jákvæða afkvæmarannsókn á Tungulæk 1977. Þá fóru líka að berast óskir um notkun á honum frá öðrum hrossaræktarsamböndum. Á þeim tíma var alltaf mikil andstaða að leigja hnn út fyrir sambandssvæðið. Var andstaðan svo mikil að stjórnin taldi að tillaga um það á aðalfundum yrði felld.
Vorið 1981 var svo komið að ekki var undan því vikist að gefa hrossaræktarsamböndunum svör við umsóknum þeirra á Ófeig 818.
Á stjórnarfundi 10. maí 1981 komu til umræðu tvö mál sem þurfti að taka afstöðu til á næstu mánuðum a.m.k. áður en næsti aðalfundur yrði í apríl 1982. Í fyrsta lagi leiga á Ófeigi 818 til annarra sambanda en stjórnin hefði áður leigt hann til Hornafjarðar frá því eftir venjulega notkun sumarið 1976 og fóðraður þar næsta vetur, síðan húsnotkun vorið 1977 til 10. júní en fékk ámæli fyrir og vildi ekki lenda í sama hjólfarinu aftur, og í öðru lagi um kaup á Skó 823 frá Flatey að hálfu á móti Hrs. Suðurlands. Því ákvað stjórnin að boða til formannafundar í október eða nóvember 1981 og ef kostur væri á að fá hrossaræktarráðunaut Þorkel Bjarnason til að mæta á hann. Síðan var þessi formannafundur haldinn15. nóv. 1981 þar sem allar deildir að tveimur undanskyldum sendu fulltrúa. Ennfremur sátu fundinn Þorkell Bjarnason og Þorvaldur Árnason. Á þessum fundi var samþykkt að leigja Ófeig 818 til annarra sambanda þó þannig að hann yrði notaður eitt gangmál árlega á heimaslóðum og fá í staðinn þá bestu hesta sem völ var á. Ennfremur voru samþykkt kaupin á Skó 823 að hálfu á móti Hrs. Suðurlands.
Ástæðan fyrir að aðdraganda að þessum merka fundi eru gerð svona góð skil eru þau að þetta var fyrsti formannafundurinn sem haldinn var hjá Hrs. V. Þrettán árum seinna eða 30. nóv. 1994 var haldinn formannafundur eða haustfundur og hafa þeir verið haldnir árlega síðan.
Á aðalfundi Hrs. V. 27. apríl 1997 var samþykkt að Hrs. V. veitti árlega þrenn verðlaun efstu kynbótahrossunum á Vesturlandi í hvorum flokki í eigu heimamanna. Eftir þetta fer verðlaunaafhending þessi alltaf fram á haustfundunum og þar með fengu þeir nýtt hlutverk sem ekki var til áður.