Hrossaræktarsamband Vesturlands var stofnað með því meginmarkmiði að eiga og síðar að taka á leigu þá bestu stóðhesta sem völ var á á hverjum tíma og leigja þá til deilda sambandsins. Þetta var eina raunhæfa leiðin til að bændur og aðrir hrossaræktendur næðu því besta sem völ var á í þessu efni og þá hin félagslega lausn nærtækust. Síðan þá hefir orðið mikil breyting á rekstri stóðhestanna þó hin félagslega lausn ráði ennþá ferðinni.
Í upphafi voru stóðhestarnir einungis leigðir til deilda gegn því að viðkomandi deild sæi um hagagöngu og fóðrun á jafnmörgum hestum og hún tók á leigu en þeir gátu verið fleiri en einn hjá sumum stóðmörgum deildum. En ávallt þurfti stjórn Hrs. V. að samþykkja vetrarfóðrunarstað.
Fljótlega kom þó að því að stjórn sambandsins tók í sínar hendur að koma hestunum í fóður án afskipta sambandsdeildanna enda fóru þær þá að borga til sambandsins leigusjald sem svaraði fóðurkostnaði. Í kjölfar þeirrar breytingar fór sambandið að leigja hestana fyrir ákveðið gjald sem var misjafnlega hátt eftir því hvað viðkomandi stóðhestur var eftirsóttur. En deildirnar ákváðu fyljunartolla til hrossaræktenda og gat hann verið mismunandi hár vegna misvísandi aukakostnaðar við hestinn svo sem flutnings og viðhalds á girðingum o.fl.
Árið 1972 varð sú breyting á notkun stóðhestana að í fyrsta sinn var eignarhestur notaður til almennra nota innan sambandsins. Einhver málhagur maður fann upp á því um það leyti að kalla þá hesta allsherjarhesta og er sú málvenja enn við lýði en notkun orðsins ef til vill dalað í seinni tíð. Það voru stóðhestarnir Roði 453 frá Skörðugili, í allsherjarnotkun í Svignaskarði eitt tímabil snemma sumars árið 1972, og Ófeigur 818 árið 1976 sem fyrstir voru notaðir í þeim tilgangi af eignarhestum sambandsins en tíu árum áður eða 1966 var leiguhesturinn Svipur 385 notaður til almennra nota á vegum sambandsins og staðsettur að Nýja-Bæ í Bæjarsveit.
Þó Hrs. V. hafi komið sér upp geymslugirðingu fyrir stóðhesta árið 1975 var ekki því að heilsa að hægt væri að vera þar með eftirsótta stóðhesta til allsherjarnotkunar fyrir félagsmenn. Bæði var, að aðsókn var mikil um að koma þar í geymslu stóðhestsefnum sem menn vonuðu að þeir ættu og einnig að á þessum árum átti sambandið eitthvað af hestum sem voru á biðlista eftir afkvæmadómum og menn ragir við að nota fyrr en sá dómur lægi fyrir, og svo hitt að stjórnin taldi ekki á það hættandi að skipta girðingunni vegna hættu á að stóðhestar kæmust hólfa á milli. Slík áhætta var ekki ásættanlegt hversu örugg sem milligirðingin væri.
Við þessar aðstæður tók stjórnin þá ákvörðun í fyrsta lagi að fá land á leigu áháð deildum vegna allsherjarhestanna, má þar nefna Staðarhraun í Hraunhreppi og Síðumúlaveggi í Hvítársíðu og ef til vill víðar og í öðru lagi að úthluta hinum eftirsóttu hestum í deildir með því skilyrði að sambandið hefði einhvern hlut til ráðstöfunar. Þessi hlutaskipti voru ekki alltaf þau sömu en deildirnar höfðu alltaf ráðstöfunarrétt á sínum hlut.
Árið 1987 var gengið frá leigusamningi til 15 ára á landi í Stóru-Fellsöxl í Skilmannahreppi Borg. til afnota fyrir Hrs. V. bæði, til að hafa þar einn eða jafnvel fleiri af þeim stóðhestum sem yrðu notaðir óháðir deildum (allsherjarhestum), og eins til hagagöngu fyrir ónotaða stóðhesta og á Borgum (áður Haugum) í Stafholtstungum leigusamningur til 6 ára frá 1. júní 2003. Þetta varð til mikilla bóta og hagræðis fyrir Hrs. V. Þegar árin liðu gerðist það að hlutur sambandsins í notkun stóðhestanna fór að stækka og allsherjarhestum að fjölga og nú er svo komið fyrir nokkru að útleiga til deilda hefir lagst niður og formaður Hrs.V. tekur á móti öllum pöntunum á hryssum til stóðhestanna.