4 Breytingar á aðildarfélögum (deildum)

Nokkrar breytingar hafa orðið á deildum sambandsins frá stofnun þess 31. okt. 1964. Sú fyrsta að hestamannafélagið Kinnskær í Austur-Barðastrandasýslu óskaði eftir að gerast deild í Hrs. V. í umboði Austur-Barðstrendinga en þeir höfðu ekki sinnt málum hrossaræktar a.m.k. ekki um árabil.

Þessi beiðni var borin upp til samþykktar á aðalfundi laugardaginn 29. apríl 1967 og samþykkt einum rómi og lögum Hrossaræktarsambandsins breytt i samræmi við það og þeim bætt við á upptalningu á deildum þess í lögum sambandsins.  Hestamannafélagið Kinnskær hefur starfað síðan að málefnum Hrs. V. Hestamannaféalgið Glaður í Dalasýslu var eitt af stofnfélögum Hrs. V.

Árið 1975 var samþykkt víðtæk breyting á lögum Hrossaræktarsambands Vesturlands sem fól í sér meðal annars fjölgun stjórnarmanna úr þremur í fimm.  Þá var kosinn í stjórnina Hallur Jónsson, Búðardal.  Öll stjórnin var þá kosin til þriggja ára en menn dregnir út til stjórnarkjörs fyrsta og annað árið þar til skipan komst á í stjórnarkjörinu.

Árið 1976 var Hallur Jónsson dreginn út og endurkosinn í stjórnina til þriggja ára.

Á þessu ári fór að myndast áhugi á því í Dalasýslu að Búnaðarsambandið tæki að sér málefni hrossaræktarinnar þar og drægi sig úr samstarfinu við Hrs. V., sem varað hafði í 12 ár.  Samt sem áður hélt Hallur áfram starfi sínu í stjórn Hrs. V. árið 1976 og sat sinn síðasta stjórnarfund 1. des. það ár.  En 1977 eftir áramót sat varamaður hans Björn Jóhannesson Laugavöllum stjórnarfundina.

Stofnun Hrossaræktarsambands Dalamanna varð svo að  veruleika með stofnfundi 22. apríl 1977.  Samt sem áður sátu aðalfund Hrs. V. þann 23. apríl 1977 fulltrúar Hestamannafélagsins Glaðs þeir Hallur Jónsson Búðardal og Björn Þórðarson Blönduhlíð og svöruðu fyrirspurnum um hið nýstofnaða samband.

Nokkurs meiningamunar gætti með hvaða hætti viðskilnaður þeirra við Hrs. V. ætti að vera. Hestamannafélagið Glaður taldi sig eiga endurkröfu á stofnfjárframlagi sínu til Hrs. V. en stjórn Hrs. V. skildi lög sambandsins á þann veg að sá endurkröfuréttur væri ekki fyrir hendi þar sem ekkert væri í lögunum sem sagði svo.  En aftur á móti var í lögunum á þessum tíma lagagrein sem fjallaði um hvernig með eignir sambandsins skyldi farið ef starfsemi þess legðist niður.

Þó ekkert stæði í lögum sambandsins um endurkröfurétt einstakra deilda sem vildu segja sig úr sambandinu um endurgreiðslu á stofnframlagi þeirra, fannst a.m.k. sumum stjórnmönnum í Hrs. V.  það nokkuð ósanngjarnt sérstaklega eftir svo stuttan samstarfstíma sem hér um ræðir, og vildu ekki brjóta allar brýr að baki sér í því efni, heldur bíða færis á að rættist úr þessum ágreiningi með niðurstöðu sem báðir aðiljar sættust á og yrðu sammála um.

Á aðalfundi 7. maí 1982 spurðist Friðgeir Friðjónsson frá Hofsstöðum um hvernig mál stæðu gagnvart úrsögn Hestamannafélagsins Glaðs úr Hrs. V.  Vegna þeirrar fyrirspurnar var enn á ný farið yfir lög sambandsins og kannað með óyggjandi hætti hvort Hrossaræktarsamband Vesturlands væri að brjóta lög gagnvart Hestamannfélaginu Glað.

Í þessum málum gerðist ekkert fyrr en á árinu 1984.  Þá var stóðhesturinn Ófeigur 818 frá Hvanneyri kominn í hóp eftirsóttustu stóðhesta landsins og um það barist að fá hann á leigu vítt um land.  Þetta ár var komin röðin að Dalasýslu að fá hann til nota og var hann leigður þeim árið 1984 fyrir ákveðið gjald á hryssu sem til hans væri leidd sem var með því hæsta sem þá var talað um.

Þá talaðist svo til að allar tekjur sem öfluðust við komu Ófeigs 818 í Dalasýslu í það skipti rynnu til Hestamannafél. Glaðs.

Var þá að fullu frágenginn aðskilnaður Hmf. Glaðs og Hrs. V.

Hestamannafélagið Stormur á Vestfjörðum sótti um aðild af Hrs. V. 1996.  Umsóknin var kynnt á stjórnarfundi 25. mars 1996 og var málinu að sjálfsögðu vísað til næsta aðalfundar. Aðalfundurinn var haldinn 28. apríl 1996 og samþykkti hann umsóknina samhljóða. Þar með var Hestamannafélagið Stormur orðin deild í Hrs. V. og annaðist öll málefni hrossasræktar á sínu félagssvæði.

Að síðustu gerist það í málefnum félagsdeilda Hrs. V. að hestamannafélagið Skuggi í Borgarnesi sótti um aðild að Hrs. V. sem samþykkt var á aðalfundi Hrs. V. 27. apríl 1999 og verið síðan deild í Hrs. V. um málefni hrossaræktar á félagssvæði  sínu.