14 Leiguhestar

Frá upphafi hafa stjórnir Hrs. V. haft að markmiði að fá á leigu þá bestu hesta sem völ var á á hverjum tíma hvort heldur þeir voru á leigu frá öðrum hrossaræktarsamböndum eða einstaklingum og endurleigja þá til deilda sambandsins eða til notkunar sem allsherjarhestar.

Áður en kemur að meginefni þessa þáttar er rétt að komi til sögunnar tveir hestar sem komu í Borgarfjörð að tilhlutan annarra aðila en Hrs. V. og borgfirskir og síðar vestlenskir hestamenn nutu í ríkum mæli góðs af í hrossarækt sinni.

Þessir hestar eru Skuggi 201 frá Bjarnanesi sem Hestamannafélagið Faxi keypti með Ara Guðmundsson í broddi fylkingar árið 1945 þegar áhugi á hestamennsku og hrossarækt var í lágmarki og Nökkvi 260 sem Einar E. Gíslason þá ráðunautur Búnaðarsambands Borgarfjarðar keypti árið 1957.  Einar er mikill áhugamaður um hrossarækt og hefir ávallt unnið ötullega að málefnum hennar.

Varla er hægt að skrifa um hrossarækt á Vesturlandi án þess að nefna þessa hesta sem mörkuðu svo djúp spor í hrossaræktarsögunni.  Þó þessir tveir hestar væru umdeildir á sínum tíma og menn ósammála um ágæti þeirra, mynduðu þeir samt sem áður að nokkru leyti þann grunn sem margar greinar hrossaræktarinnar byggjast á í dag.  Verðugt verkefni væri að rannsaka þau áhrif sem Skuggi og Nökkvi hafa haft á hrossastofninn, ekki bara hér á Vesturlandi heldur á landinu öllu.

Einnig er rétt að nefna hest sem kom hingað í Borgarfjörð 1967 án afskipta Hrs. V. á vegum Einars E. Gíslasonar sem þá var orðinn bústjóri sauðfjárræktarbúsins á Hesti en það var Hrafn 583 frá Árnanesi, en koma hans í Borgarfjörð í það sinn varð til þess að stóðhesturinn Ófeigur 818 frá Hvanneyri varð til en hann var um tíma einn af eftirsóttustu stóðhestum landsins og mikið verk að úthluta notkun á honum á sanngjarnan hátt til ýmissa landshluta.

Hann var það góður reiðhestur að þrátt fyrir þær miklu framfarir sem orðið hafa á hrossastofninum síðan hann var uppi á sitt besta, myndi hann í dag standast það besta sem til er.

Forspjallsorð þessa þáttar eru orðin fleiri en ég ætlaði í fyrstu enda skal hér staðar numið.

Allmiklar umræður urðu um það á aðalfundum Hrs. V. að stefna bæri markvisst að því að útvega þá bestu hesta sem völ var á á hverjum tíma til afnota fyrir hrossaræktendur. Þessi stefna varð að veruleika þegar tókst að fá Svip 385 frá Akureyri á leigu sumarið 1966 eftir landsmót, sem haldið var á Hólum í Hjaltadal um sumarið.

Svipur var þá kominn í eigu Haraldar Þórarinssonar kennara á Laugalandi í Eyjafirði.  Það tókst að fá land og girðingu fyrir hryssurnar sem til hans voru leiddar í Nýja-Bæ hjá Ólöfu Guðbrandsdóttur og Reyni Guðmundssyni.  Þetta var fyrsti hesturinn sem notaður var á vegum Hrs. V. sem allsherjarhestur, þó fór það svo að flestar hryssurnar sem til hans komu voru frá næstu nágrannabyggðum. 

Næsta skref í leigutöku stóðhesta var svo ekki tekið fyrr en 1971 en það ár fengust á leigu fjórir mjög góðir hestar en það voru þeir Sörli 683 frá Sauðárkróki og Blossi 800 frá Sauðárkróki báðir í eigu Sveins Guðmundssonar, Neisti 587 frá Skollagróf í eigu Jóns Sigurðssonar.

Þá var ekki mikið um það að menn keyrðu hryssur langar leiðir til koma koma þeim til stóðhests a.m.k. ekki miðað við það sem síðar varð og þess vegna var notkun á þeim skipulögð á þann hátt að Blossi fór til notkunar í Strandasýslu bæði gengi og ætlast til að Austur-Barðstrendingar og Dalamenn nytu góðs af enda var Blossi búinn að vera hér árið áður eða 1970 á vegum Leópolds Jóhannessonar Hreðavatnasskála og Skúla Kristjónssonar Svignaskarði sem alla tíð hefur af miklum dugnaði og áhuga unnið að málefnum hrossaræktarinnar.  Sörli var fyrra tímabil í girðingu í Galtarholti til afnota fyrir Borgfirðinga en seinna tímabil í Dalasýslu.  Neisti var fyrra tímabil á Snæfellsnesi en það seinna í Borgarfirði. 

Fjórði hesturinn sem tekinn var á leigu þetta ár (1971), fæddur og uppalinn á heimslóð var Blöndal 669 frá Stafholti, ræktandi hans var Þorvaldur Jósepsson þá bóndi í Stafholti, síðar í Sveinatungu.  Eigandi Blöndals var Friðþjófur Þorkelsson Reykjavík.  Notaður á Snæfellsnesi. 

Þegar athugaðar eru sýningarskrár lands- og fjórðungsmóta frá þeim tíma þegar afkvæmi þessara fyrstu fimm hesta, sem Hrs. V. tók á leigu, voru komin á legg, sést að þau öll  skilja eftir sig skýra sporaslóð ágætra hrossa í landshlutanum.

Árið 1976 voru tveir leiguhestar á vegum Hrs. V. þeir Blesi 598 frá Skáney, eigandi Marinó Jakobsson Skáney í girðingu í Bæjarsveit til afnota að hluta til fyrir aðra og Hrafn 583 frá Árnanesi eigandi Hestamannafélagið Hornfirðingur, í girðingu á félagssvæði Dreyra fyrra gengi og Lundarreykjadal seinna gengi.

Hrafn var fenginn í skiptum fyrir Ófeig 818 frá Hvanneyri á leigu eitt langt tímabil.  Árið 1977 var Hrafn 802 frá Holtsmúla fenginn á leigu eitt langt tímabil, var í girðingu á Beigalda. Þá var Stjarni frá Bjóluhjáleigu notaður á vegum Snæfellinga.

Árið 1979 var Gáski 920 frá Hofsstöðum fenginn á leigu eitt tímabil, eigandi hans var þá Kristfríður Björnsdóttir Hofsstöðum, en hesturinn var fæddur og allinn upp þar.  Var í girðingu í Bóndhól. Nokkru síðar var Gáski seldur Hrs. Suðurlands og gerði garðinn frægan þar.

Árið 1980 var Fáfnir 747 frá Laugarvatni notaður á vegum Hrs. V. , staðsettur í Hólslandi, Snæfellsnessýslu.

Árið 1980 var Skór 823 frá Flatey notaður á vegum hrossaræktardeildarinnar í Snæfellsnesi.  Eitthvað af hryssum úr Borgarfirði komust þangað.  Haustið 1981 keypti Hrs. V. 50% hlut í Skó 823.

Árið 1982 var Elgur 965 frá Hólum seinna tímabil staðsettur á Guðnabakka í Stafholtstungum.

Árið 1983 var Fáfnir 897 frá Fagranesi fenginn á leigu í skiptum fyrir Ófeig 818 fyrra tímabil á Snæfellsnesi, en seinna á Staðarhrauni sem allsherjarhestur. 1983 var ennfremur leiguhestur Ýmir 951 frá Ysta-Bæli notaður í Reykholtsdal.

Árið 1984 voru leiguhestar Leistur 960 frá Álftagerði til almennra nota staðsettur í Hólslandi Snæf. Og Penni 702 frá Árgerði staðsettur á Staðarhrauni Hraunhreppi allsherjarhestur.  1984 tóku Snæfellingar Dreyra 834 frá Álfsnesi á leigu án milligöngu Hrs. V.

Árið 1985. Leiguhestur Penni 702 frá Árgerði í Hólslandi Snæfellsnesi seinna tímabil og Máni 949 frá Ketilsstöðum seinna tímabil sem allsherjarhestur, staðsettur á Síðumúlaveggjum Hvítársíðu.  Hann var fenginn í skiptum fyrir Ófeig 818.

Árið 1986.  Sleipnir 785 frá Ásgeirsbrekku í skiptum fyrir Ófeig 818 sem fór til Austur-Húnvetninga staðsettur í Stafholtstungnadeild fyrra tímabil en seinna í Hvítársíðudeild að hluta til almennra nota fyrir Hrs. V.

Árið 1988.  Ljóri frá Kirkjubæ frá Sunnlendingum í skiptum fyrir Ófeig 818.  Stígur frá Kjartansstöðum síðara tímabil. Stígandi frá Sauðárkróki síðara tímabil í Lundarreykjadal.

Árið 1989 Gáski 920 frá Hofsstöðum á húsi.  Léttir Grundarfirði í Álftaneshreppi.  Álmur Reykholtsdalur, seinna tímabil.  Fákur frá Eskiholti í Reykholtsdal fyrra gengi. Kári frá Grund Stóru- Fellsöxl fyrra tímabil.  Kjarval frá Sauðárkróki fyrra tímabil að hálfu á móti Hrs. Dalamanna, staðsettur í Dalasýslu og Stóru-Fellsöxl að hálfu á móti Hrs. Dalamanna.

Árið 1990.  Glampi frá Vorsabæ, Reykholtsdalur síðara tímabil.   Glæðir frá Hafsteinsstöðum, sést ekki í hvaða girðingu. Vorið 1990 slasaðist Blakkur frá Reykjum.  Í hans stað var fenginn Örvar frá Svignaskarði seinna tímabil var í girðingu á Beigalda, Ernir frá Efri-Brú notaður í Lundarreykjadal.

Árið 1991. Trostant frá Kjartansstöðum í girðingu á Beigalda.  Toppur frá Eyjólfsstöðum  að hálfu móti Hrs. Dalamanna.

Árið 1992.  Hósías frá Kvíabekk í Stafholtstungum, Dugur frá Mosfellsbæ, eigandi Leifur Kr. Jóhannesson, staðsettur á Hvítárvöllu, Fengur frá Reykjavík, eig. Birgir Þorgilsson, notaður í Reykholtsdal.

Árið 1993. Sókron frá Hóli í Svignaskarði, á vegum Skúla Kristjónssonar, Tímon frá Lýsudal í Reykholtsdal, Svartur frá Unalæk Stóru-Fellsöxl, Angi frá Laugarvatni Lundarreykjadal.

Árið 1994. Hervar frá Sauðárkróki.  Húsnotkun. Gassi frá Vorsabæ í Stóru-Fellsöxl, Teigur frá Húsatóftum í Hólslandi.

Árið 1995.  Svartur frá Unalæk í Reykholtsdal.

Árið 1996.  Baldur frá Bakka.  Húsnotkun. Reykur frá Hoftúnum í Stóru-Fellsöxl.

Árið 1997.  Svartur frá Unalæk var á Hesti í Bæjarsveit. Sproti frá Hæli var í Stóru-Fellsöxli, Hrókur frá Glúmsstöðum, ekki sést í bókunum hvar.

Árið 1998. Logi frá Skarði, Skáney og Stóru-Fellsöxl. Seifur Efra-Apavatni í Hólslandi Snæf. Hrynjandi frá Hrepphólum var á Álftanesi Álftaneshreppi, Nökkvi Vestra-Geldingaholti var á Hesti í Bæjarsveit.

Árið 1999. Feykir frá Hafsteinsstöðum var í Hjarðarholti, Markús frá Langholtsparti var á Skáney, Galdur frá Laugarvatni í Álftaneshreppi.  Kjarval Sauðárkróki var á Reykhólum.

Árið 2000. Goði frá Auðsholtshjáleigu var í Hjarðarholti Staf.  Óskasteinn frá Oddhóli var í Stóru-Fellsöxl. Otur frá Sauðárkróki Hesti í Bæjarsveit.

Árið 2001. Ásaþór frá Feti í Stóru-Fellsöxl, Skinfaxi frá Þóreyjarnúpi staðsettur í Hólslandi Snæf.

Árið 2002. Hugi frá Hafsteinsstöðum. Húsnotkun í Skáney. Þorri frá Þúfu Skáney, Forseti frá Vorsabæ Hestur í Bæjarsveit.

Árið 2003. Hróður frá Refsstöðum notaður Hesti í Bæjarsveit. Adam frá Ásmundarstöðum í Hólslandi Snæfellsnessýslu.

Árið 2004. Huginn frá Haga í Hólslandi. Illingur frá Tóftum, Borgum (Haugum) Stafholtstungum.

Þá er að geta þess að á síðustu árum hafa alist upp hjá nokkrum hrossaræktarmönnum á sambandssvæðinu frábærir hestar að gæðum og sköpulagi, sem aldrei hafa verið í notkun hjá Hrs. V. en samt sem áður verið notaðir á sambandssvæðinu á vegum eigenda sinna og margir notið góðs af.

Þó freistandi væri að telja upp þessa góðu hesta læt ég það ógert af ótta um að einhver hestur mundi gleymast sem þar ætti að vera, enda er það fyrir utan svið þessarar frásagnar þar sem einungis er ætlast til að hún fjalli um gerðir Hrs. V.

Þessi kafli hefur verið lengur í smíðum og erfiðari í vinnslu en ég hugði áður en ég byrjaði á honum.  Margar spurningar hafa vaknað við gerð hans og óvíst er hvort þeim er öllum svarað svo viðunandi sé.