12 Afkvæmarannsóknir og tamningastöð Hrs.V.

Í máli Þorkels Bjarnasonar hrossaræktarráðunauts á aðalfundi Hrs. V. 29. apríl 1967 kom fram frásögn af nýmæli í starfi Hrs. Suðurlands um afkvæmarannsóknir á stóðhestum í eigu sambandsins, sem myndu ryðja sér til rúms víðar. 

Á aðalfundi 27. apríl 1968 var til umræðu í fyrsta sinn reglugerð um afkvæmarannsóknir stóðhesta samin af Þorkeli Bjarnasyni og stjórn Hrs. V. hafði fengið til umsagnar nokkru áður, en hún var í stórum dráttum og aðalatriðum á þá leið að tekin voru til tamningar 6-10 ótamin unghross undan þeim hesti sem afkvæmarannsakaður var í það skiptið.  Þau tamin í tvo mánuði og af sömu mönnum, dæmd eftir þann tíma af til þess kjörnum mönnum, venjulega héraðsráðunautum í búfjárrækt með hrossaræktarráðunaut Búnaðarfélags Íslands sem formann dómnefndar.  Á þessum fundi kom fram að búið væri að setja á stofn tamningastöð með það að markmiði að afkvæmarannsóknir á stóðhestum yrðu þar.

Þá var fárra kosta völ á að fá hesta tamda og fáir tamningamenn sem unnu að því hér um slóðir, en sambandinu nauðsyn á að fá hesta tamda vegna afkvæmarannsókna á stóðhestum þess.

Þetta verkefni er eitt af því merkasta í starfsemi sambandsins en tamningastöðin var stofnuð 1967.  Hún tók til starfa 1968 og starfaði á Hvítárbakka þar til vorið 1974.  Á þessum árum var hún starfrækt frá því snemma í janúar fram í september ár hvert.  Reynir Aðalsteinsson síðar á Sigmundastöðum var forstöðumaður hennar til vors 1972. Nokkrir tamningamenn voru honum til aðstoðar á þessu tímabili.  Tilnefndir eru Bjarni Marinósson Skáney, Sveinn Sigurðsson Indriðastöðum, Jósep Valgarð Þorvaldsson Sveinatungu, Þorsteinn Guðlaugsson Borgarnesi, síðar á Ölvaldsstöðum, Sigurjón Gestsson, Pétur Behrens, Eyjólfur Ísólfsson, Jón Þórðarson og ef til vill eru einhverjir fleiri sem komu að þessu verkefni þó það sjáist ekki í bókunum Hrs. V.

Vorið 1972 tók Bragi Andrésson frá Saurum að sér rekstur stöðvarinnar og sá um hana fram að landsmóti 1974. 

Frá upphafi og til áramóta 1972-1973 rak Hrs. V. stöðina að öllu leyti og voru tamningamenn á kaupi hjá því og annaðist gjaldkeri Hrs. V. Leifur Kr. Jóhannesson allt reikningshald hennar.  Í janúar 1973 breyttist rekstur stöðvarinnar á þann veg að tamningamenn ráku hana fyrir eigin reikning og hélst það rekstrarform meðan hún starfaði.

Bragi Andrésson var því fyrsti maðurinn sem rak tamningastöðina á eigin reikning en Hrs. V. sá um útvegun húsnæðis á sanngjörnu verði til tamningamanna.

Á stjórnarfundi 12. september 1973 kom fram að óvíst væri um aðstöðu fyrir stöðina á Hvítárbakka í framtíðinni.  Þar starfaði hún samt fram að landsmóti L.H. í júlí 1974.  Þá hætti Bragi starfi sínu þar.  Þessi tvö ár sem Bragi vann við tamningar hjá Hrs. V. unnu hjá honum:  Stefán Þorsteinsson Borgarnesi, Atli Vilbergsson Egilsstöðum, Ægir Jónsson Akranesi, Hrefna Halldórsdóttir Bjarnastöðum, Óskar Sverrisson Andakílsárvirkjun og Óskar Andrésson frá Saurum í sumarfríi sínu.  Ef til vill voru það fleiri menn sem koma þá ekki fram í bókunum. 

Á stjórnarfundi 28. janúar 1975 kom tilboð frá Óskari Guðmundssyni á Tungulæk um aðstöðu fyrir tamningastöðina þar.  Því tilboði var tekið og hafist handa við að lagfæra húsnæðið sem var aflagt fjárhús í góðu ásigkomulagi en þurfti breytinga við.

5. febrúar 1975 var undirritaður leigusamningur um húsnæðið til fimm ára við Óskar Guðmundsson.

Samið var við Einar Karelsson Borgarnesi, síðar bónda á Álftárósi um rekstur hennar til eins árs. Aðstoðarmenn hans voru:  Sigursteinn Sigursteinsson Skjólbrekku og Jón Ólafsson Bárustöðum, sem kom til hjálpar a.m.k. um vorið og sýndi hann á Fjórðungsmóti 1975 Fróða 839 sem var í þjálfun þennan vetur á tamningastöðinni.

Eftir áramót 1975-1976 starfaði Einar Karelsson áfram við tamningastöðina með lítils háttar aðstoð frá Guðmundi Árnasyni Beigalda.

Árið 1977 störfuðu við stöðina Einar Karelsson svo sem áður og Halldór Sigurðsson frá Þverholtum búsettur í Borgarnesi.

Áið 1978 voru það Jón Ólafsson Báreksstöðum og Óskar Sverrisson Andakílsárvirkjun sem ráku og störfuðu við stöðina. 

Árið 1979 rak og vann við stöðina Einar Karelsson Borgarnesi án afskipta Hrs. V: enda enginn hestur afkvæmaprófaður á vegum Hrs. V. í það sinn.

Árið 1980 ráku og störfuðu við tamningastöðina á Tungulæk bræðurnir Sigurður og Jóhann Óskar Jóhannssynir á Kálfalæk.  Þá var útrunninn leigusamningur á Tungulæk við Óskar Guðmundsson og ekki grundvöllur til framlengingar á honum enda breyttir tímar síðan 1967.

Eftir þetta fóru afkvæmarannsóknir fram á tveimur hestum sem framkvæmdar voru á Kálfalæk 1983, tamningamaður var Sigurður Jóhannsson.  Tamin voru afkvæmi Klaka 914 og tamning á afkvæmum Fjölnis 941, framkvæmd á Sigmundarstöðum 1985, tamningamaður Aðalsteinn Reynisson.

Tamningastöð Hrs. V. var barn síns tíma, nauðsynleg í upphafi en þegar tamningamönnum fjölgaði og þeir fóru að vinna sjálfstætt, var leitað til þeirra með tamningastörf uns afkvæmrannsóknir lögðust niður í þeirri mynd sem áður var og aðrar aðferðir notaðar til að kanna og kynnast kostum eða göllum einstakra stóðhesta til undaneldis.