Eins og að líkum lætur gerist það hjá jafn stórum og fjölmennum samtökum og Hrs. V. er að fram koma margar tillögur sem varða félagsstarfið á fundum og stjórnarfundum þess.
Hér í þessum kafla verður leitast við að greina frá tillögum sem fram hafa komið a.m.k. þeim sem mestu máli skipta.
Á aðalfundinum 1969 fór fram umræða um að auka á fjölbreytni í litum hrossastofnsins. Þessi umræða fór fram vegna frumkvæðis fulltrúa frá Hestamannafélaginu Snæfellingi. Fram kom svohljóðandi tillaga: ,,Út af framkominni tillögu frá Hestamannafél. Snæfellingi samþykkir fundurinn eftirfarandi: Fundurinn bendir á þá hættu ef ljósum hrossalitum fer fækkandi og fáir kynbótahestar hrossaræktarsambandanna eru með þeim litum. Þess vegna felur fundurinn stjórn og ráðunaut sambandsins að vinna að því að fá fleiri ljósleita kynbótahesta í notkun á sambandssvæðinu sé þess nokkur kostur.“ Samþykkt samhljóða. Annars staðar í samantekt þessari kemur fram hve erfitt það er að framfylgja óskum um sérstaka liti í ræktun, þar sem fjallað verður um Klaka 419 frá Gullberastöðum en hann var arfhreinn fyrir gráum og hvítum lit. Á fundinum 1969 kom einnig fram tillaga um lausagöngu stóðhesta og mælti Leópold Jóhannesson Hreðavatnsskála fyrir henni. Tillagan var svohljóðandi: ,,Aðalfundur Hrs.V. 26-4-1969 felur stjórn sambandsins að vinna gegn lausagöngu stóðhesta á sambandssvæðinu.“ Samþykkt samhljóða. Framsögumaður og aðrir sem tóku þátt í umræðunni voru sammála um og lögðu áherslu á að mál þetta yrði umfram allt að leysa með samkomulagi og á friðsaman hátt við þá einstaklinga sem hér áttu hlut að máli.
Á stjórnarfundi 20. janúar 1970 var samþykkt eftirfarandi um útflutning hesta: ,,Stjórn og ráðunautur Hrs.V. vill fara þess á leit við stjórn Búnaðarfélags Íslands að það beiti sér fyrir að haldinn verði fundur með forráðamönnum hrossaræktarsambanda í landinu til þess þess að ræða útflutningsmál stóðhesta en eins og komið er, er það algjörlega ofviða hrossaræktarsamböndunum að kaupa stóðhesta á því verði sem fæst fyrir þá í útflutningi, þar sem samböndin hafa mjög takmarkaðar tekjur. Ljóst er að þetta getur orðið hrossaræktinni í landinu til mikils tjóns þar sem hætta er á að bestu kynbótahestar landsins fari úr landi, án þess að við verði ráðið. Mikil nauðsyn er á að veita samböndunum fjárhagslegan stuðning t.d. með útflutningsgjaldi af útfluttum stóðhestum ef ekki á verr að fara.“
Á aðalfundi 26. apríl 1970 lögðu Leópold Jóhannesson Hreðavatnsskála og Skúli Kristjónsson Svignaskarði fram tillögu þess efnis hvort ekki væri tiltækilegt kostnaðarins vegna að fram færi dómur eða umsögn dómara um þau hross em skilað væri af tamningastöðinni, svo eigendur fengju nokkurra vitneskju um hvernig hrossin hefðu reynst. Samþykkt samhljóða. Aldrei kom þessi ályktun til framkvæmda, ef til vill hefur kostnaðurinn staðið í vegi.
Á aðalfundi 28. apríl 1973 lagði Leifur Kr. Jóhannesson fram tillögu um að hlutur Hrs.V. í ágóða af fjórðungsmóti 1971 rynni til Hestamannafél. Faxa en Hrs.V. hafði verið rekstraraðili að mótinu ásamt Faxa en ágóðahlutur Hrs.V. var kr. 38.982.90 að því tilskyldu að upphæðin rynni í uppbyggingu eða viðhald á Faxaborg. Samþykkt samhljóða. Aðalfundurinn sendi Einari Gíslasyni árnaðaróskir í nýjum heimkynnum en hann var að flytja að Syðra-Skörðugili þetta vor og þakkaði áhuga hans og árvekni í garð sambandsins frá fyrstu tíð.
Á aðalfundi 26. apríl 1975 kom fram að Hestamannafél. Geysir hefði ákveðið mótsdaga sína um sömu helgi og fjórðungsmót á Vesturlandi og samþykkt að fara þess á leit að því yrði breytt. Geysisfélagar tóku vel í þetta og breyttu sínum mótsdegi. Á þessum fundi kom einnig fram eftirfarandi tillaga frá Birni Jónssyni Akranesi.: ,,Aðalfundur Hrs.V. samþykkir að beina þeim tilmælum til stjórnarinnar að ætíð verði leitast við að fá sem besta nýtingu af eftirsóttustu stóðhestunum, meðal annars með því að verðlaunaðar hryssur eða ættgóðar unghryssur hafi forgang að þeim.“ Samþykkt samhljóða.
Aðalfundur 8. maí 1976. Tillaga frá Skúla Kristjónssyni Svignaskarði og Sigurði Halldórssyni Gullberastöðum svohljóðandi: ,,Aðalfundur Hrossaræktarsambands Vesturlands telur æskilegt að stjórn sambandsins kynni á aðalfundum fyrirhugaðar breytingar á stóðhestaeign sambandsins. Samþykkt samhljóða. Einnig kom fram svohljóðandi tillaga sem Leifur Kr. Jóhannesson flutti: ,,Aðalfundur Hrs.V. skorar á hestamannafélögin á sambandssvæðinu að vinna að því að koma upp framtíðaraðstöðu fyrir fjórðungsmótshalds á Vesturlandi ef aðstaða í Faxaborg reynist óviðunandi. Jafnframt að hestamannafélögin á sambandssvæðinu taki til athugunar nú þegar hvort ekki sé rétt að efna til aukamóts sumarið 1977 til að fá kynbótahross dæmd og sótt verðu um leyfi til B.F.I. fyrir mótinu.“ Samþykkt samhljóða. Þessi tillaga var fram borin vegna umræðna á fundinum þar sem menn töldu vafamál hvort Faxaborg myndi svara kröfum tímans um stórmótahald til lengri tíma litið sérstaklega hvað varðar landrými með tilliti til hagabeitar fyrir aðkomuhross og rými fyrir tjaldstæði. Seinni hluti tillögunnar kom fram vegna umræðna um nauðsyn þess að fá kynbótahross dæmd og tekinn í ættbók oftar en á landsmótsári eða fjórðungsmótsári í viðkomandi landsfjórðungi eins og tíðkast hefði um nokkurra ára bil. Samþykkt samhljóða.
Samkvæmt búfjárræktarlögum og röðun á lands- og fjórðungsmótum sem þá giltu áttu Norðlendingar að halda fjórðungsmót árið 1975 en Vestlendingar árið 1976. Vegna hins myndarlega landsmóts á Vindheimamelum 1974 töldu Norðlendingar sig illa í stakk búna að halda fjórðungsmót árið eftir eða 1975. þess vegna fóru þeir fram á það við Vestlendinga eftir landsmót 1974 að skipta á mótsári þannig að Vestlendingar héldu mót 1975 en þeir 1976. Vestlendingar létu tilleiðast og tóku vanhugsaða skyndiákvörðun þar um, sem var mjög umdeild og um hana var undirliggjandi óánægja þó ekki færi hún hátt, en dró m.a. þann dilk á eftir sér að Guðmundur Pétursson Gullberastöðum sagði af sér ráðunautastarfi hjá Hrs.V. á næsta aðalfundi eftir að þetta var ákveðið eða 1975. Ennfremur kom þetta mót ekki vel út með fá úrvalshross en hlutfallslega margt af miðlungshrossum og varð ekki vestlenskri hrossarækt til framdráttar.
Til að leggja áherslu á að þetta endurtæki sig ekki lagði Árni Guðmundsson Beigalda fram svohljóðandi tillögu á aðalfundi Hrs.V. 23. apríl 1978: ,,Aðalfundur Hrs.V. skorar á stjórn sambandsins og annarra hrossaræktar- og hestamannafélaga á Vesturlandi að standa fast á því að fjórðungsmót á Vesturlandi verði ekki fyrr en röðin er komin að því samkvæmt búfjárræktarlögum.“ Samþykkt samhljóða.
Þá lagði Árni fram tillögu þess efnis að aldur afkvæma undan afkvæmaprófuðum hestum yrðu a.m.k. 5 þeirra á 5. eða 6. vetri, en nokkuð hafði borið á því að öll afkvæmi einstakra stóðhesta hefðu einungis verið á 4. vetri og var stóðhesturinn Fróði 839 frá Hesti tekinn sem dæmi þar um en hann var afkvæmaprófaður þá um veturinn.
Á aðalfundi 1. maí 1981 kom fram að lögboðinn starfsstyrkur til hrossaræktarsambandanna hefði ekki verið greiddur á tilsettum tíma. Áskorun til B.F.Í um að það endurtaki sig ekki var samþykkt. Leifur Kr. Jóhannesson flutti áskorunina.
Þá var samþykkt að Hrs. V. taki þátt í flutningskostnaði stóðhesta þó einstakar deildir hefðu tekið þá á leigu að því tilskyldu að samráð sé haft við stjórn Hrs.V. um leigutöku á viðkomandi hesti. Þá var samþykkt tillaga um að Hrs.V. hlutaðist til um að koma á námskeiði í byggingadómum á hrossum. Snæfellingar fluttu tillögurnar. Ennfremur tillaga um að einstaklingar sitji við sama borð og hrossaræktarsamböndin með styrkveitingu til afkvæma rannsókna. Þessa tillögu fluttu Leópold Jóhannesson Hreðavatnsskála og Skúli Kristjónsson Svignaskarði.
Tillaga 1. maí 1981 frá Árna Guðmundssyni: ,,Aðalfundur Hrs. V. skorar á hestamannafélögin á svæðinu Hvalfjörður-Hrútafjörður að boða til fundar með stjórnum hestamannafélaga ásamt stjórnum Hrs. V. og Dalamanna um framtíðar skipulag mótshalda á Vesturlandi nú þegar á þessu vori. Stjórn Hestamannafélagsins Faxa er falið að boða til fundarins.“ Samþykkt. Þessi tillaga kom fram vegna umræðna um mótahald m.a. vegna óánægju um þá reglu að halda 4 fjórðungsmót á 3 árum milli landsmóta því þá kom í hlut Austfirðinga og Vestlendinga að hafa fjórðungsmót sama árið.
Aðalfundur 2. maí 1982. Marteinn Njálsson Leirárgörðum lagði fram tillögu þess efnis að stóðhestarnir verði hafðir í þjálfun á vorin og sýndir á þeim stöðum þar sem þeir yrðu notaðir. Samþykkt.
Björn Jónsson Akranesi lagði fram tillögu um starfshóp sem hefði það hlutverk að ráðleggja mönnum um val á stóðhestum. Samþykkt með 9. atkvæðum.
Aðalfundur 14. apríl 1984. Þar kom fram og var samþykkt áskorun til formanna deilda sambandsins að standa betur að skilum á folaldaskýrslum á tilskyldum tíma eða í síðasta lagi 25. nóvember árlega því það væri forsenda þess að starfsstyrkur til Hrs.V. bærist í tæka tíð. Árni Guðmundsson flutti tillöguna.
Tillaga frá Guðmundi Péturssyni Gullberastöðum og Jóni Sigurðssyni Skipanesi svofelld: ,,Aðalfundur Hrs.V. 14. apríl 1984 færir Þorkeli Bjarnasyni hrossaræktarráðunaut þakkir fyrir skelegga stefnu hans í því efni að koma í veg fyrir að bestu kynbótahrossin séu flutt úr landi.“ Samþykkt samhljóða.
Einnig lét fundurinn í ljós nauðsyn þess að hrossaræktarráðunautur sitji aðalfundi sambandsins og þakkaði honum það.
Aðalfundur 25. apríl 1985. Um þetta leyti var Gunnar Örn Guðmundsson dýralæknir á Hvanneyri að byrja tilraunir með sæðingu hrossa og var frumherji hér á landi á því sviði. Þess vegna flutti Haukur Sveinbjörnsson Snorrastöðum tillögu um fjárframlag og stuðning um það verkefni að taka sæði úr bestu stóðhestunum til geymslu.
Um þessar mundir var mikið um það rætt, a.m.k. á Vesturlandi að flytja stóðhestastöð B.F.Í. að Hvanneyri og um það virtist vera einhuga áhugi hér í landshlutanum. Vegna umræðna á fundinum um þetta mál flutti Leópold Jóhannessen Hreðavatnsskála svohljóðandi tillögu: ,,Fundur haldinn í Borgarnesi 25-apríl 1985 felur stjórninni að fylgja því eftir með öllum ráðum að stóðhestastöðin verði flutt að Hvanneyri“. Samþykkt samhljóða.
Á aðalfundi 8. maí 1987 var samþykkt tillaga frá Jóni Halldórssyni Krossi, Snorra Hjálmssyni Syðstu-Fossum og Ólöfu Guðbrandsdóttur Nýja-Bæ að sambandið veitti styrk til Gunnars Arnars Guðmundssonar vegna tilrauna hans við hrossasæðingar.
Þá kom á sama fundi fram tillaga frá Þórði Sigurjónssyni og Tryggva Gunnarssyni svohljóðandi: ,,Aðalfundur Hrs.V. í Borgarnesi 8. maí 1987 vill mjög eindregið vara við útflutningi á okkar bestu kynbótahestum. Einnig er það álit fundarins að útflutningur sæðis úr stóðhestum verði alfarið bannaður.“ Samþykkt samhljóða.
Guðmundur Sigurðsson gerði grein fyrir tillögu stjórnar um þóknun til búnaðarsambanda sem annast skýrsluhald og leiðbeiningar í hrossarækt svohljóðandi: ,,Aðalfundur Hrossaræktarsambands Vesturlands haldinn í Borgarnesi 2.5.1993 samþykkir að hluti af styrk frá Búnaðarfélagi Íslands, sem kemur vegna skýrsluhalds í hrossarækt, skuli greitt þeim búnaðarsamböndum sem sjá um skýrsluhald og leiðbeiningar í hrossarækt á svæði Hrossaræktarsambands Vesturlands.“ Samþykkt samhljóða.
Að gefnu tilefni kom eftirfarandi tillaga fram frá stjórn sambandsins á aðalfundinum 1994: ,,Aðalfundur H.R.S.V. haldinn að Vindási 1. maí ’94 gefur stjórn sambandsins heimild til að synja hryssueigendum að koma með tveggja vetra hryssur undir stóðhesta á vegum sambandsins.“ Samþykkt samhljóða.
Fundarstaðurinn Vindás er félagsheimili Hestamannafélagsins Skugga í Borgarnesi.
Erindi til aðalfundar Hrs.V. haldinn 23.04.95 í Hótel Borgarnesi. ,,Fundur í hrossakynbótanefnd Búnaðarfélags Lundarreykjadalshrepps 31.03.1995 skorar á aðalfund H.R.S.V. að móta skýrar reglur um úthlutun plássa undir þá stóðhesta sem eru í sameiginlegri notkun á vegum sambandsins. Í þeim verði a.m.k. reynt að gæta jafnræðis milli deilda sambandsins. Hryssur í skýrsluhaldi B.Í. njóti forgangs og allar umsóknir sem berast innan uppgefinna tímamarka njóti jafnræðis.“ Fyrir hönd hrossakynbótanefndar Búnaðarfélags Lundarreykjadals Sigurður Oddur Ragnarsson. Ekki er að sjá að leitað hafi verið eftir samþykki þess erindis.
Þá kom fram á þessum fundi tillaga um sama efni, en án sambands við hina, frá kynbótadeild Hestamannafélagsins Dreyra sem Marteinn Njálsson flutti og mælti fyrir svohljóðandi: ,,Aðalfundur Hrossaræktarsambands Vesturlands haldinn í Hótel Borgarnesi 23. apríl 1995 samþykkir eftirfarandi reglur fyrir Hrossaræktarsambandið að fara eftir við útdeilingu á plássum fyrir hryssur undir þá kynbótahesta sem H.R.S.V. hefur til afnota hverju sinni:
1. Eigendur hrossa séu af svæði H.R.S.V.
2. Hryssur seú skýrslufærðar hjá B.Í. (Það að skilað sé fang- og folaldaskýrslum.)
3. Takmakaður fjöldi hryssna hvers eiganda eða hjóna.
4. Farið eftir kynbótadómi og kynbótamati en þó þurfa ósýndar hryssur að hafa sjö stigum meira en sýndar hryssur.
Unnið verði eftir reglunum í þessari röð.“
Ekki er að sjá að þessi tillaga hafi verið borin undir atkvæði enda kom fram í umræðum að sitt sýndist hverjum um framkvæmd hennar.
Það vekur athygli að á sama aðalfundi koma fram tilmæli um sama efni, þ.e. úthlutunarreglur við val á hryssum til stóðhestanna, annars vegar erindi frá Hrossakynbótadeild Lundarreykjadals, og hin formleg tillaga frá kynbótadeild Hestamannafélagsins Dreyra sem bendir til þess að á þessum árum hafi verið meiri aðsókn að stóðhestum sem í boði voru en hægt var að sinna. Þá lagði Birna Hauksdóttir Skáney fram nokkurs konar miðlunartillögu þar sem stjórn sambandsins er falið að finna lausn á þessum vanda með reglugerð eða öðrum hætti sem menn mundu sætta sig við. Samþykkt með 10 atkvæðum gegn 2.
Á aðalfundi 28. apríl 1996 var samþykkt vegna tillögu frá stjórn Hrs.V. að gefa öllum hryssum sem komu í girðingar til stóðhesta sambandsins inn ormalyf.
Á aðalfundi 4. apríl 2001 kom eftirfarandi tillaga fram frá Ólafi Tryggvasyni Brimisvöllum: ,,Aðalfundur Hrossaræktarsambands Vesturlands haldinn 4.4. 2001 í Hótel Borgarnesi skorar á hrossaræktarráðunaut Bændasamtaka Íslands að sýna Vestlendingum þann sóma að fara um Vesturland í vor og dæma á fleiri stöðum en í Borgarnesi v/ F.M. 2001.“
Eftir litlar umræður um tillöguna var hún samþykkt án mótatkvæða. Um framkvæmd hennar er það að segja að ekki þótti mögulegt að framkvæma dóma með þeim hætti sem hún ætlast til enda er það afturhvarf til fyrri tíma þegar hrossaræktarráðunautur ferðaðist um landið og dæmdi hross við misjafnar aðstæður sem víða voru ekki boðlegar.
Á aðalfundi 25. mars 2004 flutti Georg Jón Jónsson Kjörseyri eftirfarandi tillögu: ,,Aðalfundur Hrossaræktarsambands Vesturlands haldinn í Hótel Borgarnesi 25. mars 2004 samþykkir að veita stjórn sambandsins heimild til að gerast eignaraðili að væntanlegri reiðhöll í Borgarnesi. Eignaraðild Hrossaræktarsambands Vesturlands yrði bundið þeim styrk sem það gæti fengið hjá Framleiðnisjóði Landbúnaðarins eða öðrum aðilum. Ekki yrði um það að ræða að ganga á þá sjóði sem sambandið á nú þegar.“ Samþykkt samhljóða. Þessi tillaga var fram komin vegna erindis Hestamannafélagsins Skugga í Borgarnesi um aðstoð við byggingu reiðhallar þar sem farið var fram á fjárhagslega aðstoð við verkefnið.
Hér hefur verið leitast við að segja frá flestum tillögum sem fram hafa komið á aðalfundum og stjórnarfundum Hrs.V., í sumum tilvikum efnislega, sérstaklega þegar um margorðar tillögur er að ræða en í öðrum tilvikum orðrétt þá innan tilvitnunarmerkja (gæsalappa). Vonandi fá lesendur einhverja innsýn í þau málefni sem voru á dagskrá og væntanlega í takt við samtímann. Enginn má þó ætla að tillögurnar einar og sér hafi mótað stefnuna á hverjum tíma, fleira kom til svo sem leitast verður við að koma á framfæri í öðrum þáttum bókarinnar.