10 Lög og reglur

Á stofnfundi Hrossaræktarsambands Vesturlands (Hrs.V.) laugardaginn 31. okt. 1964 var lagt fram frumvarp að lögum fyrir sambandið.  Ekki sést í fundargerð hver samdi það, en það var lagt fram af formanni Hrossaræktarsambands Borgarfjarðar, Símoni Teitssyni, sem setti stofnfundinn og stjórnaði honum.  Á fundinum var kosinn starfsnefnd og fundarhlé gefið meðan hún fór yfir frumvarpið.  Ekki er ástæða til að fara nánar út í það í þessum kafla þar sem stofnfundargerðin ásamt lögunum er birt orðrétt annars staðar í samantekt þessari, sjá kafla I.

Á fyrsta aðalfundi Hrs.V. rúmi ári eftir stofnfund eða þann 5. des. 1965 kom fram í ræðu formanns, Símonar Teitssonar, að láðst hefði að festa í lög sambandsins á hvaða tíma ársins væri best að halda aðalfundina.  Þess vegna lagði hann fram breytingartillögu við 9. gr. laganna á þann veg að milli orðann halda og hefur í fyrstu málgrein 9. greinar komi orðin ,,í apríl ár hvert” en sleppa orðinu ,,árlega” í staðinn.  Þessi breytingartillaga var samþykkt.  Eftir breytinguna er 1. málsgrein 9. greinar svohljóðandi: ,,Aðalfund skal halda í apríl ár hvert og hefur hann æðsta vald í öllum málefnum sambandsins.”

Á aðalfundi laugardaginn 29. apríl 1967 var gerð sú breyting á lögum sambandsins að í 1. gr. bætist Austur-Barðastrandasýsla við í upptalningu á deildum sambandsins.  Frá þeim tíma voru Austur-Barðstrendingar fullgildir í Hrs.V.

Á aðalfundi laugardaginn 26. apríl 1975 voru í fyrsta sinn frá aðalfundi 29. apríl 1967 gerðar breytingar á lögum Hrs.V.  Allmiklar umræður urðu um breytingartillögurnar sem fólu í sér að fjölga mönnum í stjórn úr þremur í fimm en það er ákvæði í 8. gr. og um breyttar reglur um kjör fulltrúa á aðalfund sem er í 6. grein. 

Breyting á 6. gr. laganna er svohljóðandi:  Í stað orðanna ,,hver deild hefur tvö atkvæði á aðalfundi” komi ,,hver deild hefur tvö atkvæði á aðalfundi, en félög sem hrossarækt sinna og hafa hana á stefnuskrá tvö atkvæði fyrir hverja byrjaða félagsmenn og síðan eitt atkvæði fyrir hverja 20 félagsmenn eða  brot”  Samþykkt með 16 atkvæðum gegn 5.

8. grein orðist svo: ,,Sambandinu stýrir fimm manna stjórn, formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur og jafnmargir til vara.  Fyrst sé kosinn öll stjórnin en eftir það séu kosnir tveir menn til þriggja ára eftir hlutkesti 2. og 3. árið.  Endurskoðendur skulu vera tveir og jafnmargir  til vara kosnir árlega.  Kosningar skulu vera skriflegar og ræður afl akvæða úrslitum.  Kjörgengir í stjórn sambandsins eru meðlimir allra félaga sem standa að sambandinu.  Kjósa má endurskoðendur opinberlega ef mótmælum er ekki hreyft.”   Samþykkt samhljóða.

Ekki þykir ástæða til að birta lögin hér í heild en áhugasamir geta borið breytingarnar á 6. og 8. gr saman við lögin sem í heild eru birt með stofnfundargerð í ritinu. 

Það gætti nokkurrar óánægju meðal fundarmanna á breytingartillögu 6. greinarinnar um fjölda fulltrúa á aðalfund.

Þess vegna gerðist það á stjórnarfundi í Stykkishólmi 19. apríl 1976 að Leifi Kr. Jóhannessyni var falið að fara yfir gildandi lög og gera tillögur um breytingar á þeim fyrir næsta aðalfund ef unnt væri og leggja fram heildstætt frumvarp að lögum sambandsins og auglýsa það í fundarboði.

Þetta tókst og á aðalfundi laugardaginn 8. maí 1976 var Leifur Kr. Jóhannesson tilbúinn með lagafrumvarp sem hann lagði fram á fundinum og hafði framsögu á.

Eftir nokkrar umræður var kosinn nefnd til að fara yfir lagabreytingarnar í frumvarpinu.  Í henni voru: Leifur Kr. Jóhannesson, Skúli Kristjónsson, Ólafur Sigurbjörnsson og Sigurður Halldórsson.  Gefið var fundarhlé meðan nefndin starfaði.  Eftir fundarhlé las Leifur Kr. lagafrumvarp það sem hann hafði breytt og samið upp úr gildandi lögum sambandsins og fundarnefndin hafði yfirfarið og samþykkt að leggja fyrir fundinn.  Á fáum dögum tókst Leifi Kr. Jóhannessyni að gera tillögur um breytingar á lögum sambandsins sem allir sættu sig við og lögin samþykkt með meginþorra fundarmanna án mótatkvæða.  Lögin sem þá tóku gildi eru svohljóðandi:

,,Lög Hrossaræktarsambands Vesturlands

1. gr.

Félagið heitir Hrossaræktarsamband Vesturlands og starfar samkvæmt gildandi búfjárræktarlögum.  Félagssvæðið er Vesturlandskjördæmi svo og Strandasýsla og Austur-Barðastrandasýsla, nema Dalasýsla.

Heimili þess og varnarþing er þar sem formaður þess er búsettur.

2. gr.

Sambandið starfar í deildum og á hver deild, sem svarar verði eins stóðhests í sambandsstjóði.

Sambandið skal sjá hverri deild fyrir einum stóðhesti eða fleiri yfir sumarið, en hver deild skal sjá um framfæri jafnmargra hesta árlangt og hún notar.  Skal sú deild, sem engan hest notar eða fóðrar greiða til Sambandsins upphæð sem svarar fóstri eins hests að mati Sambandsstjórnar.

Hestunum skal ráðstafað í fóður í samráði við stjórn Sambandsins.

3. gr.

Markmið Sambandsins er að efla hrossarækt á félagssvæðinu.

Tilgangi sínum hyggst sambandið ná á eftirfarandi hátt:

1.   Vinna að því, að gera hrossin verðmeiri með kynbótum, hagfelldara uppeldi og tamningu, m.a. með því að eiga jafnan sem best úrval stóðhesta til notkunar fyrir félagsmenn eða útvega þá á leigu.  Lögð sé áhersla á, að allir stóðhestar Sambandsins verði afkvæmaprófaðir svo fljótt sem afkvæmi þeirra ná tamningaldri.  Aðeins verði notaðir áfram þeir hestar, sem hafa hlotið góðan dóm fyrir afkvæmi að mati hrossaræktarráðunautar Búnarfél. Íslands og stjórnar sambandsins.

2.   Styðja að hvers konar viðleitni til markaðsöflunar innanlands og utan.

3.   Vinna að því, að glæða áhuga almennings fyrir hrossarækt og hestamennsku með því, að stuðla að skipulagningu hestamóta víðsvegar á sambandssvæðinu og gera þau að viðburðardegi fyrir alla þá, sem hestum unna, enda verði leitast við að sýna og kynna fólki sem flesta af eiginleikum hins fjölhæfa íslenska hests.

4.   Stuðla að því, að ungt fólk geti notið tilsagnar um tamningu og meðferð hesta.

4. gr.

Sambandið vill beita sér fyrir því, að athuganir fari fram árlega á tveggja vetra stóðhestum og skapa aðstöðu til þess, að líklegustu folarnir verði ógeltir til þriggja vetra aldurs eða lengur, enda verði þá endurnýjað mat á þeim og skorið úr um hverjir þeirra teljast hæfir til kynbóta.

5. gr

Stofngjald hverrar deildar skal miðað við verð á góðum stóðhesti eins og það er á hverjum tíma og ákveðst á aðalfundi.  Stofnsjóðsgjaldið er óafturkræft framlag meðan Sambandið starfar, en leysist það upp verður farið með eignir þess samkvæmt búfjárræktarlögum.

6. gr.

Aðilar að Sambandinu eru hinar ýmsu deildir sbr. gildandi búfjárræktarlög svo og félagsheildir, enda hafa þær sömu réttindi og skyldur og aðrar deildir.

Í kynbótanefnd hverrar deildar eru þrír menn og eru þeir sjálfkjörnir fulltrúar á aðalfund Sambandsins með fullum réttindum.

Félög eða félagsheildir, þar sem deildir starfa ekki, en hafa hrossarækt á stefnuskrá og sinna henni hafa tvö atkvæði fyrir fyrstu 20 félaga, en síðan eitt atkvæði fyrir hverja 30 félaga eða brot, en þó aldrei fleiri en fjögur atkvæði fyrir fyrsta notaðan viðurkenndan stóðhest, en síðan 2 atkvæði fyrir hvern hest umfram einn á félagssvæðinu.

7. gr.

Árlegar tekjur Sambandsins eru:
1. Framlög samkvæmt búfjárræktarlögum
2. Verð seldra stóðhesta
3. Skaðabætur vegna vanhalda á tryggðum stóðhestum
4. Vextir af sjóðum og fleira

8. gr.

Sambandinu stýrir fimm manna stjórn, formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur og jafnmargir til vara.  Fyrst sé öll stjórnin kosin, en eftir það séu kosnir tveir menn til þriggja ára eftir hlutkesti 2. og 3. árið.  Stjórnin skiptir með sér verkum.

Endurskoðendur skulu vera tveir og jafnmargir til vara, kosnir árlega.

Kosningar skulu vera skriflegar og ræður afl atkvæða úrslitum.

Kjörgengir í stjórn Sambandsins eru félagar allra deilda og félaga, sem standa að Sambandinu.  Kjósa má endurskoðendur opinberlega, ef mótmælum er ekki hreyft.

9. gr.

Aðalfund skal halda árlega í apríl til júní og boða skal til hans með viku fyrirvara.  Hann hefur æðsta vald í öllum málum Sambandsins.

Verkefni hans eru:
1. Skýrslur Sambandsstjórnar
2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar
3. Stjórnarkosningar
4. Önnur mál

10 gr.

Lögum þessum má eigi breyta, nema á aðalfundi Sambandsins og þarf ¾ hluta atkvæða fundarmanna til þess, að breytingar taki gildi og skal boða lagabreytingu í fundarboði.  Fundur er lögmætur, ef löglega er til hans boðað.

Framanrituð lög samþykkt á aðalfundi Hrossaræktarsambands Vesturlands árið 1976.  8. maí.”

Á aðalfundi 3. maí 1991 kom fram í skýrslu formanns, Guðmundar Sigurðssonar, nauðsyn á að endurskoða lög sambandsins en það hefði ekki verið gert síðan árið 1975-1976.  Ekki kemur fram í fundargerð hverjir hafa unnið að endurskoðun laganna en á aðalfundi 1. maí 1992 segir orðrétt úr fundargerð:  ,,Árni Guðmundsson Beigalda hafði framsögu um breytingar á lögum Sambandsins.  Breytingar þessar þóttu tímabærar og fengu góðan hljómgrunn fundarmanna”.  Breytingartillögunum var útbýtt meðal fundarmanna á þingskjali en þær voru víðtækar og snertu margar greinar laganna.  Breytingartillögurnar eru ekki skráðar í gerðabók einar og sér, en lögin eru svo breytt færð inn í gerðabók og verða menn að bera saman lagatextanna til að sjá í hverju þær eru fólgnar.

Lög sambandsins sem voru samþykkt 1. maí 1992 eru svohljóðandi:

,,Lög Hrossaræktarsambands Vesturlands

1. grein.

Félagið heitir Hrossaræktarsamband Vesturlands og starfar samkvæmt gildandi búfjárræktarlögum.  Félagssvæðið er Vesturlandskjördæmi að undanskylinni Dalasýslu.  Auk þess Strandasýsla og Austur-Barðastrandasýsla.

Heimili þess og varnarþing er þar sem formaður þess er búsettur.

2. grein.

Sambandið starfar í deildum.

Sambandið skal sjá hverri deild fyrir einum stóðhesti eða fleirum yfir sumarið, enda liggi fyrir umsókn frá viðkomandi deild fyrir tilsettan tíma.  Deildin ábyrgist lágmarksnýtingu á hesti í samráði við stjórn.

3. grein.

Markmið Sambandsins er að efla hrossarækt á félagssvæðinu.  Tilgangi sínum hyggst Sambandið ná með að gera hrossin verðmætari með kynbótum, hagfeldara uppeldi og tamningu m.a. með því að eiga jafnan sem best úrval stóðhesta til notkunar fyrir félagsmenn eða útvega þá á leigu.

4. grein.

Sambandið vill beita sér fyrir því að athugun fari fram árlega á tveggja vetra stóðhestum og skapa aðstöðu til þess, að líklegustu folarnir verði ógeltir til þriggja vetra aldurs eða lengur enda verði þá endurnýjað mat á þeim og skorið úr um það hverjir þeirra teljist hæfir til kynbóta.

5. grein.

Aðilar að Sambandinu eru hinar ýmsu deildir sbr. gildandi búfjárræktarlög svo og félagsheildir, enda hafi þær sömu réttindi og skyldur og aðrar deildir.  Í kynbótanefnd hverrar deildar eru þrír menn og eru þeir sjálfkjörnir fulltrúar á aðalfund Sambandsins með fullum réttindum.

Félög eða félagsheildir, þar sem deildir starfa ekki, en hafa hrossarækt á stefnuskrá og sinna henni, hafa tvö atkvæði fyrir fyrstu 20 félagana, en síðan eitt atkvæði fyrir hverja 30 félaga eða brot, en þó aldrei fleiri en fjögur atkvæði.

6. grein.

Stofnun nýrra deilda er háð samþykki aðalfundar, fullnægi hún gildandi búfjárræktarlögum.

7. grein.

Árlegar tekjur Sambandsins eru:
1. Tekjur af stóðhestum
2. Framlög samkvæmt búfjárræktarlögum
3. Verð seldra stóðhesta
4. Skaðabætur vegna vanhalda á tryggðum stóðhestum
5. Vextir af sjóðum og fleira

8. grein.

Sambandinu stýrir fimm manna stjórn, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og einn meðstjórnandi.  Kjörtímbil stjórnar er tvö ár, annað árið er formaður og varaformaður kosnir, en hitt árið þrír meðstjórnendur sem skipta með sér verkum.  Varamenn eru þrír og kosnir árlega.

Endurskoðendur skulu vera tveir og jafn margir til vara, kostnir árlega.

Kosningar skulu vera skriflegar og ræður afl atkvæða úrslitum.

Kjörgengir í stjórn Sambandsins eru félagar allra deilda og félaga, sem standa að Sambandinu.

Kjósa má endurskoðendur opinberlega ef mótmælum er ekki hreyft.

9. grein.

Aðalfund skal halda árlega í apríl til júní og boða skal til hans með viku fyrirvara.  Hann hefur æðsta vald í öllum málum Sambandsins.

Verkefni hans eru:
1. Skýrslur Sambandsstjórnar
2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar
3. Stjórnarkosningar
4. Önnur mál.

10. grein.

Lögum þessum má eigi breyta nema á aðalfundi Sambandsins og þarf ¾ hluta atkvæða fundarmanna til þess að breyting taki gildi og skal boða lagabreytingu í fundarboði.  Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Ákvæði til bráðabirgða:

Á aðalfundi 1992 skulu tveir meðstjórnendur kosnir til tveggja ára.

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Enda þótt ekki hafi verið liðin nema 3 ár frá endurskoðun laga Hrs.V. taldi aðalfundur Hrs.V. 23. apríl 1995 nauðsyn á að endurskoða lögin og gera tillögur þar um fyrir næsta aðalfund.  Í nefnd til þess verkefnis voru kosnir:  Bjarni Marinósson Skáney, Skúli Kristjónsson Svignaskarði og Guðmundur Sigurðsson Hvanneyri.

Á stjórnarfundi 24. apríl 1995 var rætt um hvort ekki væri hyggilegt að sameina deildir Sambandsins ef það mætti verða til þess að stuðla að betra nýtingarhlutfalli stóðhestanna og óskað eftir því að sú nefnd sem kosin var á aðalfundi til að endurskoða lög Sambandsins hugi að þessum þætti.  Ekki er að sjá að laganefndin hafi orðið við þessum tilmælum stjórnarinnar. 

Á aðalfundi Hrs.V. sunnudaginn 28. apríl 1996 var 5. mál á dagskrá lagabreytingar.  Orðrétt úr fundargerð:  ,,Guðmundur Sigurðsson hafði orð fyrir nefndinni lagði fram lagafrumvarpið og fór yfir einstakar greinar þess lið fyrir lið.  Nokkra umræður um lagafrumvarpið, en þessir tóku til máls: Marteinn Njálsson, Sæmundur Kristjánsson, Guðmundur Sigurðsson, Guðlaugur Antonsson, Birna Hauksdóttir, Skúli Kristjónsson og Brynjólfur Sæmundsson.  Marteinn Njálsson bar fram breytingatillögu við 5. gr. sem fjallar um hámarksfulltrúafjölda á aðalfundi.  Tillagan borin undir atkvæði og felld með þorra atkvæða gegn 4.  Siðan var lagafrumvarpið í heild borið undir atkvæði og samþykkt án mótatkvæða.  Lögin í heild verða færð til bókar í lok þessarar fundargerðar.” 

Eins og sést á þessu fundargerðarbroti var þá enn við lýði meiningamunur á fjölda atkvæða á aðalfund.

,, Hrossaræktarsambands Vesturlands

Lög

1. grein.

Félagið heitir Hrossaræktarsamband Vesturlands og starfar samkvæmt gildandi búfjárræktarlögum.  Félagssvæðið er Vesturlandskjördæmi að undan skilinni Dalasýslu.  Auk þess Strandasýsla og Austur-Barðastrandasýsla og félagssvæði Storms.

Heimili þess og varnarþing er þar sem formaður þess er búsettur.

2. grein.

Markmið Sambandsins er að efla hrossarækt á félagssvæðinu.  Tilgangi sínum hyggst Sambandið ná með að gera hrossin verðmætari með kynbótum, og eiga í þeim tilgangi sem best úrval stóðhesta til notkunar fyrir félagsmenn eða útvega þá á leigu.

3. grein.

    Sambandið beiti sér fyrir því að ráðunautar fylgist með efnilegum stóðhestum fram að tamningaraldri.

4. grein.

Sambandið starfar í deildum. Stjórn sambandsins ráðstafar hestum til deilda, sem þess óska, eftir vinnureglum stjórnar sem samþykktar skulu á aðalfundi/haustfundi hverju sinni.

5. grein.

Aðilar að Sambandinu eru hinar ýmsu deildir sbr. gildandi búfjárræktarlög svo og félagsheildir, enda hafi þær sömu réttindi og skyldur og aðrar deildir. 

Í kynbótanefnd hverrar deildar eru þrír menn og eru þeir sjálfkjörnir fulltrúar á aðalfund Sambandsins með fullum réttindum.

Félög eða félagsheildir, þar sem deildir starfa ekki, en hafa hrossarækt á stefnuskrá og sinna henni, hafa tvö atkvæði fyrir fyrstu 20 félagana, en síðan eitt atkvæði fyrir hverja 30 félaga eða brot, en þó aldrei fleiri en fjögur atkvæði.

6. grein.

Stofnun nýrra deilda er háð samþykki aðalfundar, fullnægi hún gildandi búfjárræktarlögum.

7. grein.

Árlegar tekjur Sambandsins eru:
1. Tekjur af stóðhestum
2. Framlög samkvæmt búfjárræktarlögum
3. Verð seldra stóðhesta
4. Vextir af sjóðum og fleira

8. grein.

Sambandinu stýrir fimm manna stjórn, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og einn meðstjórnandi.  Kjörtímbil stjórnar er tvö ár, annað árið er formaður og varaformaður kosnir, en hitt árið þrír meðstjórnendur sem skipta með sér verkum.  Varamenn eru þrír og kosnir árlega.

Endurskoðendur skulu vera tveir og jafn margir til vara, kosnir árlega.

Kosningar skulu vera skriflegar og ræður afl atkvæða úrslitum.

Kjörgengir í stjórn Sambandsins eru félagar allra deilda og félaga, sem standa að Sambandinu.

Kjósa má endurskoðendur opinberlega ef mótmælum er ekki hreyft.

9. grein.

Aðalfund skal halda árlega í apríl til júní og boða skal til hans með viku fyrirvara.  Hann hefur æðsta vald í öllum málum Sambandsins.

Verkefni hans eru:
1. Skýrslur Sambandsstjórnar
2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar
3. Stjórnarkosningar
4. Önnur mál.

10. grein.

Lögum þessum má eigi breyta nema á aðalfundi Sambandsins og þarf ¾ hluta atkvæða fundarmanna til þess að breyting taki gildi og skal boða lagabreytingu í fundarboði.  Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Samþykkt á aðalfundi 28. apríl 1996.”

Síðan þetta gerðist hefur ekki verið opnuð umræða um lög og samþykktir Hrs.V.