Frá upphafi byggðar á Íslandi hefur hesturinn verið förunautur mannsins og svo nauðsynlegur í daglegri umsýslu og starfi manna, að strax í upphafi hófu menn ræktun hans sem sést m.a. á því að í Íslendingasögum er víða getið um stóðhross góð sem oft voru höfð til vinagjafa og friðmæla.
Sökum þess hvað hesturinn var nauðsynlegur í lífi fólks er engin tilviljun að ræktun hans hófst á undan ræktun annarra búfjárkynja.
Í bókstaflegri merkingu kom hestur við sögu Íslendinga frá vöggu til grafar og á þá þurfti að treysta á ferðalögum hvort heldur var á sólríkum sumardögum eða í stórhríðum vetrarins og allt þar á milli eða í glímu við smálæki sem oft urðu að skaðræðisfljótum eða beljandi jökulvötnum.
Þar sem menn urðu í mörgum tilfellum að treysta á þrek, áræði og ratvísi hesta þótti sjálfsagt að rækta hross með þessum eiginleikum og kom fyrsta skráða heimildin um búrfjárrækt, – sem er áminning um hrossarækt,- í Félagsritum eftir Ólaf Stephensen árið 1788. Þar voru gefnar upp réttar aðferðir við hrossarækt að þeirra tíma hætti og gefnar lýsingar á vel byggðum hrossum og hvetur hann þar mest til ræktunar reiðhesta.
Fyrstu lög um kynbætur hrossa voru svo samþykkt á Alþingi 1891, og notuðu sér margar sýslur þá lagasetningu og settu á stofn hrossaræktarfélög fljótlega eftir 1900.
Strax á stofnfundi Búnaðarsambands Borgarfjarðar 1. júní 1910 var rætt um sauðfjárrækt og hrossarækt en lítill skriður komst á hrossræktarmálin fyrr en hrossaræktarfélögin tóku til starfa hvert í sinni sveit en þau voru stofnuð hér í Borgarfirði á árunum 1924-1931 og störfuðu með einum eða fleiri stóðhestum í hverju félagi með mjög lítilli tilfærslu stóðhesta á milli sveita.
Nokkur áhugi var á þessu starfi og telst þetta merkur kafli í hrossaræktarsögu héraðsins.
Þegar árin liðu og líða tók á fimmta áratuginn og innreið véltækni, bæði til ferðalaga og búsnytja, hófst var svo komið að áhugi fyrir notkun hrossa minnkaði að stórum hluta og menn óttuðust endalok íslenska hrossastofnsins.