Við þessar aðstæður var Hrs. Borgarfjarðar stofnað af mönnum sem ekki vildu trúa því að saga hrossa á Íslandi væri öll. Því var það á aðalfundi Búnaðarsambands Borgarfjarðar föstudaginn 15. maí 1953 að Gunnar Bjarnason hrossaræktarráðunautur Hvanneyri flutti tillögu þess efnis að stofna hrossaræktarsamband í Borgarfirði og mælti með að það starfaði sem deild innan sambandsins með sérstakri undirstjórn. Hann taldi að deildirnar innan hins nýja sambands ef stofnað yrði kæmu til með að verða allt að fjórtan. Orðrétt úr fundargerðinni: ,, Út af þessu, og eftir að málið hafði verið athugað af allsherjarnefnd fundarins var samþykkt svohljóðandi: ,,Fundurinn samþykkir að kjósa þriggja manna nefnd til að athuga og gera tillögu í hrossakynbótamálum héraðsins. Skal nefndin hafa lokið störfum það snemma, að tillögur hennar geti komið til álita hreppabúnaðarfélaganna áður en þau halda aðalfundi sína næsta vetur og verði svo tillögurnar lagðar fyrir næsta aðalfund B.S.B.” Kosnir voru í nefndina Ingólfur Guðbrandsson bóndi Hrafnkelsstöðum, Ari Guðmundsson verkstjóri Borgarnesi og Hjálmar Jónsson ráðunautur Hvanneyri, en Gunnar Bjarnason var ráðunautur nefndarinnar.
Laugardaginn 24. okt. 1953 hélt millifundanefndin í hrossarækt sinn fyrsta fund að Hvanneyri. Allir nefndarmenn voru mættir svo og ráðunautur nefndarinnar. Á þessum fundi skýrði Gunnar Bjarnason á hvern hátt Búnaðarfélag Íslands mundi samkvæmt lögum styðja við bak hrossaræktar í landinu. Áréttað var að Hrossræktarsambandið yrði deild innan B.S.B. með hreppadeildirnar gömlu sem undirdeildir svo sem samþykkt hafði verið á síðasta aðalfundi B.S.B. Gunnar lagði fram uppkast að reglum fyrir starfsemina og kosinn var formaður nefndarinnar Ari Guðmundsson. Hinn 8. nóv. skrifaði formaður nefndarinnar bréf sem var sent öllum búnaðarfélögum á sambandssvæðinu 18 að tölu, þar með talið Akranes og Borgarnes ásamt þeim fundargerðum sem um málið hefðu fjallað, ennfremur uppkast að reglum deildarinnar.
Á aðalfundi B.S.B. 8. maí 1954 stóð málið þannig að sex höfðu svarað játandi, tveir neitandi en tíu var óvíst um. Eitt búnaðarfélag bættist við á fundinum svo alls voru sjö með er deildin var stofnuð.
Áhugi fyrir þesssu virtist því ekki mega vera minni. Þá var kosin nefnd til að fjalla um málið á fundinum. Hana skipuðu: Friðjón Jónsson bóndi Hofsstöðum, Sigurður Daníelsson bóndi Indriðastöðum og Ari Guðmundsson verkstjóri Borgarnesi. Tillaga nefndarinnar svohljóðandi var samþykkt með átta atkvæðum en enginn greiddi atkvæði á móti. ,,Fundurinn samþykkir að stofna deild innan Búnaðarsambands Borgarfjarðar er vinni að hrossaræktarmálum, samkvæmt lögum um búfjárrækt nr. 19-1948 og breytingum á þeim lögum frá 19. des. 1951. Þar sem nú þegar hafa sjö búnaðarfélög samþykkt á aðalfundum sínum að vera þátttakendur í deildinni, teljast þau sem aðalstofnendur og verði þegar unnið að því að stofna fleiri deildir. Fundurinn heimilar stjórn sambandsins að verja fé úr félagssjóði til nauðsynlegra framkvæmda í þessu skyni m.a. til girðinga fyrir vanskapaða hesta og unga hesta líklega til kynbóta síðar, enda greiði eigendur sanngjarna hagagöngu hestanna. Fundurinn treystir því að stjórn deildarinnar sjái um að fyrirmælum laga um lausagöngu graðhesta verði framfylgt. Að öðru leyti vísast til reglugerðaruppkasts millifundanefndarinnar”. Þá var á fundinum kosin fyrsta stjórn hrossaræktarsambands Borgarfjarðar sem starfaði sem deild innan B.S.B. en hún var svo skipuð: Ingólfur Guðbrandsson Hrafnkelsstöðum formaður, Guðmundur Pétursson Hesti og Ari Guðmundsson Borgarnesi.
Samkvæmt bókunum Hrossaræktarsambandsins hefir verið vel unnið að útbreiðslustarfsemi þess, því í ljós kom á stjórnarfundi föstudaginn 17. sept. 1954 að tólf deildir höfðu verið stofnaðar en samkvæmt lögum sambandsins voru það formlegar deildir þar sem graðhestar voru í girðingum þótt þeir væru fleiri en einn í sömu sveit.
Á aðalfundi B.S.B. 16. maí 1955 sem var jafnframt aðalfundur Hrossaræktardeildarinnar átti Guðmundur Pétursson að ganga úr stjórn hennar en var endurkosinn. En á aðalfundi B.S.B. 8. júní 1956 átti Ingólfur á Hrafnkelsstöðum að ganga úr stjórn hrossaræktardeildarinnar. Hann baðst eindregið undan endurkosningu. Í hans stað var kosinn Páll Sigurðsson í Fornahvammi og var hann kosinn formaður þegar stjórnin skipti með sér verkum.
Ári síðar á aðalfundi B.S.B. hinn 27. júní 1957 var Ari Guðmundsson verkstjóri Borgarnesi kosinn formaður hrossaræktardeildarinnar til tveggja ára og þá er einnig kosinn Einar E. Gíslason ráðunautur B.S.B. í stjórnina til þriggja ára í stað Páls í Fornahvammi, sem óskaði eftir að losna úr stjórninni.
22.júní 1958 er Símon Teitsson Borgarnesi fyrst kosinn í stjórn Hrossaræktardeildarinnar og þá að því er virðist í stað Einars E. Gíslasonar sem fluttist það ár að Stóra-Hrauni og þá var Guðmundur Pétursson á Hesti endurkosinn til þriggja ára.
Árið 1959 27. apríl var Ari Guðmundsson endurkosinn formaður hrossaræktardeildarinnar. Svo sorglega vildi til að 21. maí 1959 féll Ari af hestbaki og beið bana. Enginn veit hvað olli hinu sviplega slysi því Ari var einn á ferð en enginn sem þekkti til Ara sem hestamanns trúði því að hann hefði fallið af hestbaki af tilefnislausu. Eitthvað hlaut að hafa komið fyrir. Þótt Ari Guðmundsson hafi verið umdeildur í starfi sínu að hrossaræktarmálum í héraðinu voru allir sammála um að fallið hefði frá ötull merkisberi hesta og hestamennsku sem fleytti mönnum af miklum dugnaði yfir það áhugaleysi sem ríkti í hestamennsku og hrossarækt um árabil.
13. maí 1960 var Símon Teitsson kosinn formaður deildarinnar og Þorsteinn Guðmundsson bóndi á Skálpastöðum kosinn í stjórn sem nýr maður. 6.maí 1961 er Björn Jóhannesson bóndi Laugavöllum kosinn í stjórn deildarinnar í stað Guðmundar Péturssonar, sem gerðist ráðnautur Hrossaræktarsambands Vesturlands þegar það var stofnað 31. okt. 1964.